Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Meiri lífsgæði með auknu kynjajafnrétti

Frá ráðstefnunni
Frá ráðstefnunni

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í ráðstefnunni Nordiskt Forum sem haldin var af norrænum kvennahreyfingum dagana 12.–15. júní í Malmö í Svíþjóð.

Eygló tók þátt í opnum hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem norrænir jafnréttismálaráðherrar töluðu um þróun samstarfsins sem á þessu ári fagnar 40 ára afmæli og framtíðaráskoranir í málaflokknum. Á lokaathöfn Nordiskt Forum veittu ráðherrarnir ályktun ráðstefnunnar viðtöku. Eygló átti jafnframt tvíhliða fund með Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýru UN Women sem var sérstakur gestur ráðstefnunnar.

Mikilvægt að Norðurlöndin axli ábyrgð á alþjóðavettvangi

Norrænu jafnréttismálaráPhumzile Mlambo-Ngcuka og Eygló Harðardóttirðherrarnir voru sammála um að norræna samstarfið hafi aukið þekkingu á jafnréttismálum og fært löndin nær markmiðinu um norræn samfélög velferðar, réttlætis og lýðræðis. Ráðherrarnir vöktu máls á mikilvægi þess að Norðurlöndin taki í sameiningu virkan þátt og axli ábyrgð á vettvangi alþjóðamála.

Í dag mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Norðurlöndunum en erfið verkefni bíða úrlausnar stjórnmálanna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja þátttöku karla á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku.

Eygló Harðardóttir lagði í framsögu sinni meðal annars áherslu á að breytingar á íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni hefðu haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi. Rannsóknir hafi sýnt að karlar taki virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Þá hefðu lögin breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði en síðast en ekki síst hefðu þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar. „Hugmyndir okkar um karlmennsku hafa breyst. Í dag þykir það flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn, það er töff að vera góður pabbi. Fæðingarorlofsmálin kenna okkur að líta ekki á jafnréttismál sem einangrað fyrirbæri. Jafnréttismál þarf að hafa að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Þannig getum við aukið lífsgæði okkar allra,“ sagði Eygló.

Á lokaathöfn ráðstefnunnar þakkaði Phumzile Mlambo-Ngcuka Norðurlöndum sérstaklega fyrir öflugan stuðning við UN-Women og sagði afar mikilvægt að Norðurlöndin ynnu enn frekari sigra á sviði jafnréttismála þar sem þau væru sterk fyrirmynd annarra landa. „Ef Norðurlöndin geta minnkað kynjabilið í stjórnmálum, tryggt jöfn tækifæri til menntunnar og atvinnuþátttöku og dregið úr kynbundnu ofbeldi svo nokkur dæmi séu nefnd geta önnur lönd einnig fetað sömu braut. Sigrar á sviði jafnréttismála eru spurning um pólitískan vilja,“ sagði Mlambo-Ngucka.

Talið er að um tuttugu þúsund manns hafði sótt ráðstefnuna í Malmö en þetta var í þriðja skipti sem boðað var til allsherjarfundar kvenna og jafnréttissinna á Norðurlöndunum en Nordiskt Forum var áður haldið árin 1988 og 1994. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá um kvennafrelsis- og friðarbaráttu, menningarviðburði, umræðnur við opinbera aðila og fleira.

Markmið Nordiskt Forum var að þessu sinni að greina áskoranir og möguleika Norðurlandanna til að hrinda markmiðum Peking-áætlunarinnar frá 1995 í framkvæmd þannig að hægt verði að tryggja raunverulegt jafnrétti, þróun og frið í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna.

Með lokaályktun ráðstefnunnar vill norræna kvennahreyfingin minna stjórnvöld á Norðurlöndum á þær skuldbindingar sem þau undirgengust með undirritun framkvæmdaáætlunarinnar á fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995. Með henni skuldbindu stjórnvöld sig til að samþætta alla stefnumótun og áætlanagerð jafnréttissjónarmiðum. Kvennahreyfingin brýnir fyrir stjórnvöldum Norðurlanda að þó þau hafi unnið stóra sigra á sviði jafnréttismála hafi þau ekki staðið við allar þær skuldbundingar sem fram koma í áæltuninni. Skorað er á stjórnvöld að styrkja félagasamtök sem starfi undir merkjum jafnréttisbaráttu. Þá er farið fram á að stjórnvöld starfi með aðilum vinnumarkaðarins að heildstæðri stefnumótun um samþættingu fjölskyldu og atvinnulífi, uppbroti kynjaskiptingu starfa og auknu launajafnrétti.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum