Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Karlar og jafnrétti í nýrri framkvæmdaáætlun

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

Auka þarf þátttöku karla í umræðum um jafnrétti og láta stefnumótun í auknum mæli taka mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur á komandi þingi fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára þar sem í fyrsta skipti verður sérstakur kafli um karla og jafnrétti.

Eygló skrifar um jafnréttismál í Fréttablaðið í dag í tilefni þess að 99 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Í greininni bendir hún á að kynjajafnrétti mælist hvergi meira en á Norðurlöndunum en segir engu að síður erfið verkefni bíða úrlausnar í þessum efnum: „Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku“ skrifar ráðherra.

Á komandi þingi mun félags- og húsnæðismálaráðherra leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Unnið er að gerð hennar og hefur ráðherra ákveðið að þar verði sérstakur kafli um karla og jafnrétti þar sem byggt verður á tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem skilaði tillögum sínum árið 2013. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup.

„Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu“ skrifar Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra í greininni sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum