Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2014 Forsætisráðuneytið

12. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Útgáfa áfangaskýrslu (1)
  3. Önnur mál

Fundargerð

12. fundur – haldinn þriðjudaginn 24. júní 2014, kl. 9.45, í Safnahúsinu (Þjóðmenningar-húsinu), stofu Jóns Sigurðssonar, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir: Sigurður Líndal, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson,  Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Skúli Magnússon, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.

Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 11. fundar, sem haldinn var mánudaginn 16. júní 2014, var send nefndarmönnum með tölvupósti 16. júní. Fundargerðin var samþykkt án athugasemda.

2. Útgáfa áfangaskýrslu (1)

Fyrsta áfangaskýrsla nefndarinnar hefur verið í vinnslu og liggur nú fyrir. Formaður lagði skýrsluna fram og nefndarmenn ræddu efni hennar. Í skýrslunni er fjallað um þau málefni sem í upphafi nefndarstarfsins voru sett í forgang, nánar tiltekið eftirfarandi:

  • Þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta
  • Framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu
  • Auðlindir
  • Umhverfisvernd

Í áfangaskýrslunni er gerð grein fyrir afstöðu nefndarinnar og umræðum, með áherslu á (frekari) afmörkun efnisatriða, hvort þau þurfi sérstakt ferli (utan nefndarinnar eða á vegum hennar), stöðumat, framtíðarsýn og markmið. Fjallað er um meginatriði en ekki útfærslur, enda er tilgangur skýrslunnar að skapa forsendur fyrir samráði og frekari faglegri greiningu áður en lengra er haldið. Einnig er gefið yfirlit yfir gildandi rétt, þróun erlendis og vinnu undanfarinna ára, settar fram spurningar og álitaefni og skýrt frá næstu umfjöllunarefnum. Skýrslunni lýkur á bókunum nefndarmanna um áherslur og fyrirvara.

Stjórnarskrárnefnd mun kalla eftir opinberri umræðu um efni skýrslunnar og veita í þeim tilgangi frest til 1. október 2014.

Gert er ráð fyrir að fleiri áfangaskýrslur verði birtar eftir því sem verkefni stjórnarskrárnefndar miðar áfram, enda er hlutverk hennar víðtækt og starfstími allt til loka kjörtímabilsins. Nefndin hefur þegar hafið umræðu um kosningar og kjördæmaskipan, embætti Forseta Íslands og störf og verkefni Alþingis. Jafnframt liggur fyrir að næstu umfjöllunarefni nefndarinnar verða ríkisstjórn og ráðherrar, dómstólar og mannréttindi.

Að loknum fundi nefndarinnar verður haldinn blaðamannafundur þar sem áfangaskýrslan verður kynnt. Gert er ráð fyrir að formaður fari þar yfir fréttatilkynningu nefndarinnar, gefi nefndarmönnum kost á viðbótarskýringum og loks fái viðstaddir tækifæri til að beina spurningum til nefndarmanna.

Áfangaskýrslan verður einnig birt á vefsvæði nefndarinnar, stjornarskra.is.

3. Önnur mál

Svo sem fram kemur í fundargerð 11. fundar er gert ráð fyrir að fyrsti fundur nefndarinnar að loknu sumarfríi verði  haldinn föstudaginn 5. september og að fundað verði annan hvern föstudag fram að jólum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.25.

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum