Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. júní 2014 Forsætisráðuneytið

A-536/2014. Úrskurður frá 24. júní 2014

Úrskurður

Hinn 24. júní 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-536/2014 í máli ÚNU14020014.

Kæra

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2014, kærði A þá ákvörðun Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis, dags. 7. febrúar 2014, að synja beiðni hans um afrit af endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011. 

Með kærunni fylgdi afrit af umræddri ákvörðun Höfða. Þar segir m.a.: „Að mati stjórnar Höfða inniheldur umbeðin endurskoðunarskýrsla vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011 ýmsar upplýsingar er varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni stofnunarinnar, sbr. 2. ml. 9. gr. laga nr. 140/2012 og beiðni þinni að því er þetta varðar því hafnað.“

Í kærunni segir m.a.: „Ég leyfi mér að vísa til sömu röksemda og rekin voru fyrir samskonar máli, sjá úrskurð nefndarinnar nr. A-514/2014, en sömu rök gilda af minni hálfu um aðgengi bæjarbúa eða annarra sem áhuga hafa að kynna sér rekstur viðkomandi stofnunar. Reyndar telur undirritaður að fyrrnefndur úrskurður nefndarinnar sé fordæmisgefandi um afhendingu opinberra stofnana á endurskoðunarskýrslum sem tilheyra ársreikningi viðkomandi stofnana og eigi að afhendast þeim sem áhuga hafa strax og umfjöllun viðkomandi stjórnar á ársreikningi er lokið.“

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, bréf, dags. 3. mars 2014, og gaf kost á athugasemdum. Í svarbréfi Höfða, dags. 14. mars 2014, segir m.a.: 
„Vísað er til erindis nefndarinnar dags. 3. mars 2014, þar sem tilkynnt var um kæru [A] til nefndarinnar vegna synjunar HÖFÐA um aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011.

Beiðni kæranda um aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011 var synjað þar sem umbeðin endurskoðunarskýrsla inniheldur að mati stjórnar Höfða ýmsar upplýsingar er varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni stofnunarinnar, sbr. 2. ml. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og því sé stjórninni heimilt að takmarka aðgang að henni.

Stjórn Höfða telur þannig að hin umbeðna endurskoðunarskýrsla hafi að geyma viðkvæmar upplýsingar um rekstrarstöðu stofnunarinnar og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Um sé að ræða upplýsingar sem séu til þess fallnar að valda stofnuninni tjóni verði þær gerðar aðgengilegar. Eftir mat á hagsmunum stofnunarinnar af því að upplýsingunum sé haldið leyndum og hagsmunum aðila af því að fá aðgang að umræddum upplýsingum taldi stjórn Höfða að hagsmunir stofnunarinnar væru þeim mun meiri. Þá taldi stjórn Höfða jafnframt að ekki stæðu efni til þess að veita aðgang að hluta skjalsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012. Þau trúnaðargögn sem um ræðir og synjað var um aðgang að, eru meðfylgjandi erindi þessu en þess er óskað að þau verði ekki afhent kæranda.“

Með bréfi, dags. 20. mars 2014, gaf úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda kost á að gera athugasemdir við framangreinda umsögn Höfða. Ekkert svar barst.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að afriti af endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða, hjúkrunar og dvalarheimilis, fyrir árið 2011. Beiðni kæranda er þannig afmörkuð við tiltekið fyrirliggjandi gagn og fullnægir því skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um það hvernig beiðni um aðgang skal úr garði gerð.

Höfði, hjúkrunar og dvalarheimili, er sjálfseignarstofnun. Stofnaðilar eru Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit. Hér er því um að ræða starfsemi stjórnvalds í skilningi upplýsingalaga sem lögin ná til og er ekki ágreiningur uppi um það í málinu. 

Höfði, hjúkrunar og dvalarheimili, synjaði beiðni kæranda um aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir árið 2011 á þeim forsendum að skýrslan innihéldi ýmsar upplýsingar er vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni heimilisins og vitnaði þar um til 2. ml. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hagsmunir heimilisins af því að þessar upplýsingar færu leynt væru mun meiri en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað vandlega endurskoðunarskýrsluna, sem er 19 blaðsíður að lengd. Í meðfylgjandi bréfi endurskoðenda til Ríkisendurskoðunar segir að endurskoðun hafi verið framkvæmd í samræmi við 8. gr. laga nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun. Þá kemur fram í skýrslunni sjálfri að eignaraðilar heimilisins, Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit, beri hlutfallslega rekstrarlega ábyrgð á rekstri þess. Rekstrartekjur á árinu 2011 námu 560,8 millj. kr. (að meðtöldu framlagi eigenda til greiðslu stofnkostnaðar sem nam 11,3 millj. kr.), þjónustudaggjöld voru um 88,3% af tekjum heimilisins. Rekstrartekjur koma því að langsamlega stærstum hluta úr ríkissjóði.
 
Samkvæmt framsögðu byggist rekstur Höfða, hjúkrunar og dvalarheimilis, nær alfarið á framlögum og ábyrgð stjórnvalda og fer stjórn þess því með opinbera hagsmuni, og það töluvert mikilvæga. Þegar réttur er byggður á upplýsingalögum ber að hafa í huga að yfirlýst markmið þeirra, samkvæmt upphafsákvæði, er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna eins og t.d. þá sem hér um ræðir. 

Í 9. gr. upplýsingalaga er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Þessari grein er ekki ætlað að verja hagsmuni stjórnvalds af því að upplýsingar, sem finna má í gögnum þess, og varða það sjálft sérstaklega, fari leynt heldur að ekki sé veittur aðgangur að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga og lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Hins vegar geta önnur undantekningarákvæði upplýsingalaganna varið hagsmuni stjórnvalda að þessu leyti. 

Í skýrslunni kemur fram að rekstur Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis, hafi verið erfiður að því leyti að rekstrarhalli sé mikill. Ekki verður séð að í skýrslunni komi neitt það fram sem geti talist einkahagsmunir í skilningi upplýsingalaga þannig að til greina komi að takmarka aðgang að henni á grundvelli framangreindra ákvæða 9. gr. upplýsingalaga.

Í 10. gr. upplýsingalaga er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Segir þar í 4. tölul. að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma ákveðnar upplýsingar, þar á meðal um „viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra“. 

Fyrr er rakið hver staða Höfða er innan stjórnsýslunnar og hvaða starfsemi þar er rekin. Hliðstæðar stofnanir með svipaðan rekstur eru til víða á landinu. Það verður hins vegar ekki séð að þessar stofnanir eigi í viðskiptum sem hafi í för með sér innbyrðis samkeppni þeirra í skilningi 4. tl. 10. gr. upplýsingalaga eða eigi í samkeppni um viðskipti við aðra aðila. Þótt svo kynni að vera að einhverju leyti þá verður ekki heldur séð að slíkir hagsmunir geti talist mikilvægir almannahagsmunir, eins og kveðið er á um í 10. gr. laganna að þurfi að vera fyrir hendi til þess að undantekningarákvæði lagagreinarinnar verði virk. Að mati úrskurðarnefndarinnar geta önnur undantekingarákvæði upplýsingalaganna ekki heldur átt við í máli þessu. Samkvæmt því sem að framan segir er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Höfða, dvalar og hjúkrunarheimili, sé skylt að veita kæranda aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011.

Úrskurðarorð

Höfða, dvalar- og hjúkrunarheimili, ber að veita kæranda, [A], aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Höfða fyrir árið 2011.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson



 







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum