Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. júní 2014 Forsætisráðuneytið

A-537/2014. Úrskurður frá 24. júní 2014

Úrskurður

Hinn 24. júní 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-537/2014 í máli ÚNU 14020016.

Kæra

Þann 27. febrúar 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A yfir á hvaða formi landlæknir hygðist fara að úrskurði nefndarinnar, dags. 16. ágúst 2013, nr. A-493/2013 í máli nr. ÚNU 13030006. Í kærunni segir m.a.:

„Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr.  140/2012, er heimilt að bera synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ég kæri hér með meðfylgjandi afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni minni um gögn og vísa í að málið tengist málinu ÚNU13030006/021-10-1.“
 
Með kærunni fylgdi afrit af bréfi landlæknis til kæranda, dags. 13. febrúar 2014. Þar segir m.a.:

„Í bréfi embættisins til þín, dags. 2. október 2013, með vísun til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 16. ágúst 2013, var málið tekið til nýrrar meðferðar og óskað eftir nákvæmri tilgreiningu  þinni á þeim gögnum sem þú óskaðir eftir aðgangi að. Í tölvupóstum þínum þar sem þú svarar embættinu í framhaldi af bréfinu kemur ekki fram að þú óskar eftir að fá gögnin á rafrænu formi. […]  Í ljósi þess að þú biður nú um að fá gögnin rafrænt bendir embætti landlæknis á að í 2. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að þegar skjöl eru mörg er heimilt að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi sá sem afhendir gögn ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Aðili skal þá greina þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna. Hið sama gildir um afritun annarra gagna en skjala eftir því sem við á. Embættið hyggst því í ljósi þeirra fjölda skjala sem þú óskar eftir aðgangi að ráða verktaka til að afrita gögnin. Hvað varðar form gagnanna mun embættið afhenda skjöl á læstu formi þannig að tryggt sé að ekki sé unnt að breyta gögnunum eftir afhendingu.  Áður en sú vinna hefst óskar embættið því eftir staðfestingu þinni hvort þú hyggist fá aðgang að gögnunum í ljósi framangreinds. […].“ 

Málsmeðferð

Sá hluti kærunnar sem varðaði gjaldtöku fyrir afhendingu gagna var framsendur velferðarráðuneytinu til efnismeðferðar, samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en það að öðru leyti sent landlækni til athugasemda, með bréfi, dags. 21. mars 2014. 

Í svari embættisins, dags. 10. apríl 2014, kemur m.a. fram að landlæknir hyggist afhenda gögnin á læstu formi þannig að tryggt sé að ekki sé unnt að breyta þeim eftir afhendingu. Síðan segir m.a.:

„Embættið hefur ekki synjað um afhendingu gagna á rafrænu formi heldur [hefur] það verið ákvörðun embættisins að afhenda kæranda skjölin rafrænt á læstu formi. Til þess að frágangur rafrænna gagnaskjala sé sambærilegur við afhendingu á pappír , þannig að ekki sé unnt að breyta honum eftir afhendingu án þess að það sjáist, þarf að búa til leshæft skjal sem ekki veitir réttindi til ritunar. Þetta er alþekkt fyrirkomulag þegar rafrænum skjölum er deilt án réttindi til breytinga, kallast á ensku „read-only“ afrit. Telur embætti landlæknis að það afhendingarform (rafræn skjöl, leshæf) vistað t.d. á geisladisk uppfylli að fullu það skilyrði sem vísað er til, að veita skuli aðgang að gögnum á því formi eða sniði sem þau eru varðveitt.“

Kæranda var, með bréfi dags. 15. apríl 2014, gefinn kostur á að tjá sig um svar landlæknis. Í svari, dags. 15. apríl, segir m.a.: 

„Ég vek athygli á, eins og ég hef raunar nokkrum sinnum áður gert, að sami árangur og "read only" næst með að skrifa gögnin á óendurskrifanlegan geisladisk. Slíkum diskum er ekki hægt að breyta eftirá. Ef Embætti landlæknis telur nauðsynlegt að verja gögnin aukalega með "read only", þá vek ég athygli á að einfalt er að gera þetta við hvert einstakt af þeim Excel-skjölum og Word skjölum sem og öðrum skjölum sem þarna er um að ræða, en samt nokkuð tafsamara en að skrifa gögnin einfaldlega á óendurskrifanlegan geisladisk. Ekki ætti að vera þörf á að fá sérfræðing utan úr bæ til að framkvæma þessa vinnu, þar sem ætla má (eða að minnsta kosti vona) að þekkingin til að gera þetta sé til staðar innan Embættisins. 

Ég mæli þó frekar með, sé þessi viðbótarlæsing talin nauðsynleg, að möppunni sem afhent verður sé læst yfir á "einungis lestur" formið, eins og hún leggur sig, með því að velja möppuna í Windows Explorer, hægrismella á hana, velja "eiginleikar" (properties) og haka í "einungis lestur" (read only) boxið. Þessi síðasttalda aðferð setur möppuna alla, með undirmöppum (ef slíkt á við), á "einungis lestur" form, og tekur litlu eða engu lengri tíma en að skrifa gögnin á óendurskrifanlegan geisladisk. Til að "heiltryggja sig", svo að notuð sé líking úr getraunamáli, mætti jafnvel gera hvort tveggja, þ.e. setja "einungis lestur" læsingu á og skrifa síðan á óendurskrifanlegan geisladisk. Ef Embættið vill hafa þennan háttinn á, vegna ótta við að ég fari eitthvað að föndra við gögnin og halda því svo fram síðar að þau hafi komið þannig frá embættinu, þá mæli ég með að Embættið sjálft greiði fyrir það viðbótar-öryggi sem Embættið telur að "einungis lestur" læsingin hefði í för með sér.

Þar sem spurningin um greiðslu fyrir afhendingu gagnanna er á borði velferðarráðuneytisins sendi ég Áslaugu Einarsdóttur, sem sinnt hefur málinu fyrir ráðuneytið, afrit af þessum pósti, og tek jafnframt fram að ég tel að aðferðin sem að ofan er lýst taki á bilinu 15-30 mínútur fyrir sæmilega tölvufæran starfsmann, sem vinnur á meðal hraða á miðlungs öfluga tölvu. Ég er, eins og ég hef áður lýst yfir, tilbúin að láta embættinu í té geisladisk, ef svo ólíklega vildi til að það atriði vefðist fyrir Embættinu. Ég vek athygli á að slíkir diskar kosta á bilinu 200-300 krónur stykkið ef þeir eru keyptir í stykkjatali, og minna ef keyptar eru stærri pakkningar. Þeir rúma að jafnaði 700 MB, sem er rúmlega tvöfalt meira gagnamagn en hér er um að ræða. Ég hef margsinnis lýst því yfir að ég hef ekkert óheiðarlegt í hyggju með þessi gögn, heldur einungis það að greina frekar þær villur sem hér er um að ræða með það fyrir augum að draga úr líkum á að aðrir lendi í svipuðum villum. Þó að þær yfirlýsingar virðist ekki draga úr þörf Embættisins fyrir að læsa upplýsingunum, er það mér að meinalausu að lýsa þessu yfir einu sinni enn..“

Hinn 13. maí sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál tölvupóst til kæranda og landlæknis. Þar er vísað til þess að af hálfu landlæknis hafi komið fram að til greina komi að afhenda kæranda gögnin á geisladiski/-diskum. Þá hafi, í tölvupósti frá kæranda, dags. 15. apríl sl., m.a. komið fram að hann sé því ekki mótfallinn að gögnin verði afhent á því formi. Þess var óskað að kærandi staðfesti hvort þessi skilningur nefndarinnar væri réttur og tekið fram að ef svo væri, og samkomulag væri um að gögnin yrðu afhent brennd á óendurskrifanlegan geisladisk, mætti vænta þess að kærumálið yrði fellt niður.“

Í tölvubréfi, sem barst frá kæranda sama dag, segir m.a.: 

„Ég er samþykk því að fá gögnin afhent á geisladiski/-diskum (einn ætti að duga nema landlæknir vilji afhenda í tvíriti, sem er í góðu lagi mín vegna, og jafnvel öryggisatriði).“
Í svari sem barst frá landlækni, dags. 15. maí 2014. segir: 

„Ákvörðun embættisins að afhenda skjölin á læstu formi er óbreytt og afhending getur verið á óendurskrifanlegum geisladiskum í samræmi við óskir [A]. […]“

Í tölvupósti sem barst frá kæranda sama dag segir: 

„Miðað við þetta nýjasta útspil embættis landlæknis, að reyna enn einu sinni að þvinga mig til að falla frá kæru með því að greina ítrekað frá fyrirætlunum um að rukka ótilgreinda upphæð fyrir afhendingu gagnanna, verður ekki hjá því komist að annað hvort
1. Úrskurðarnefndin úrskurði um hvort sú fyrirætlan að læsa sérstaklega gögnunum, með þar af leiðandi kostnaðarauka sé í samræmi við upplýsingalög 
eða 
2. Velferðarráðuneytið úrskurði um hvort gjaldtaka sé í þessu tilviki í samræmi við lög, og þá jafnramt, ef sú skyldi vera niðurstaða ráðuneytisins, hvað telst hæfileg gjaldtaka. Hugsanlega þarf úrskurð um hvort tveggja. Ef þessar stofnanir (eftir atvikum önnur eða báðar) treysta sér ekki til að úrskurða í þessu máli, þá óska ég eftir upplýsingum um hvert mér beri að leita til að fá fram niðurstöðu í málið.Ég þykist vita að hægt sé að fara með málið til Umboðsmanns Alþingis, en fram að þessu hef ég einungis leitað til hans þegar óhæfilegar tafir hafa orðið á einhverju stigi málsins.“

Í tölvupósti sem barst frá kæranda 18. maí 2014 segir m.a.: 

„…Sjálf hef ég frá upphafi verið þeirrar skoðunar að nægilegt sé að brenna efnið á óendurskrifanlegan geisladisk, það muni taka um 20 mínútur, og fyllilega nægja sem öryggisviðbúnaður í þessu tilviki. Bendi þó á að embættið ætti að gæðaprófa diskinn eftir afritun en fyrir afhendingu og það gæti tekið 5 mínútur til viðbótar.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

Kæra máls þessa lýtur að því með hvaða hætti embætti landlæknis hefur brugðist við úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-514/2014, dags. 16. ágúst 2013, í máli nr. ÚNU 13030006, þar sem kveðið var á um skyldu embættisins til þess að afhenda kæranda tiltekin gögn.

Samkvæmt 18. gr. upplýsingalaga  nr. 140/2012 skal, eftir því sem því við verður komið, veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. 

Samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er eftir. Í máli þessu liggur fyrir að bæði kærandi og embætti landlæknis eru samþykk því að umrædd gögn verði brennd á óendurskrifanlegan geisladisk. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ekki liggi fyrir synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er eftir. Sá ágreiningur sem út af stendur lýtur að beitingu landlæknisembættisins á gjaldtökuheimild 2. mgr. 18. gr. upplýsingalaga en hann er til úrlausnar í velferðarráðuneytinu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að henni beri að vísa kæru kæranda frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál hinn 27. febrúar 2014, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.  


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður  

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                      

Friðgeir Björnsson




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum