Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. júlí 2014 Innviðaráðuneytið

Þórólfur Árnason skipaður forstjóri Samgöngustofu

Þórólfur Árnason rekstrarverkfræðingur var metinn hæfastur umsækjenda um embætti forstjóra Samgöngustofu að mati valnefndar og í samræmi við niðurstöðu hennar hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipað hann í embættið. Þórólfur mun hefja störf þann 6. ágúst nk.

Þórólfur Árnason hefur verið skipaður forstjóri Samgöngustofu.Starf forstjóra Samgöngustofu var auglýst í byrjun júní síðastliðnum eftir að Hermann Guðjónsson, fráfarandi forstjóri, hafði óskað eftir lausn frá störfum. Hermann mun áfram sinna ráðgjafarstörfum á vegum Samgöngustofu. Alls bárust 24 umsóknir um starfið og það kom í hlut hæfisnefndar að fara yfir umsóknirnar. Sem fyrr segir var Þórólfur metinn hæfastur umsækjenda.

Þórólfur hefur á síðustu árum starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi, verið stjórnarformaður Isavia, unnið að stofnun jarðvarmaklasa með Gekon og sinnt fleiri verkefnum. Þá sinnti hann verkefnastjórn við sameiningu Flugstoða og Keflavíkurflugvallar og við stofnun Isavia árið 2010. Áður hafði Þórólfur verið forstjóri Skýrr, Icelandic Group, Tal og borgarstjóri í Reykjavík á árunum 2003-2004.

Þórólfur lauk M.Sc. prófi í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Hojskole árið 1981 og B.Sc. prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Hann er kvæntur Margréti Baldursdóttur og eiga þau tvö börn.

Samgöngustofa tók til starfa þann 1. júlí 2013 við flutning á stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar, Umferðarstofu og Vegagerðar í nýja stofnun sem fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit með samgöngugreinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum