Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. ágúst 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Akranesi 15. ágúst 2014

.


Ágætu aðalfundarfulltrúar, góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands hér á Akranesi. Þetta er í annað sinn eftir að ég tók við starfi umhverfis – og auðlindaráðherra sem ég fæ tækifæri að hitta ykkur og kynnast betur ykkar öflugu samtökum. 

Við Íslendingar eigum því láni að fagna að hér á landi eru starfandi mörg og öflug frjáls félagasamtök. Innan þeirra fá margir einstaklingar tækifæri og vettvang til að vinna að góðum málum og að sínum áhugamálum sem eru oftar en ekki í þágu samfélagsins. Félagasamtök gegna einnig því hlutverki að vera vettvangur skoðanaskipta og eru oft á tíðum stór liður í þroskaferli einstaklinga. Starf Skógræktarfélags Íslands sem hefur innan sinna vébanda um 60 félög um allt land með á áttunda þúsund félagsmenn er þannig vettvangur öflugs skógræktarstarfs og skoðanaskipta um allt sem lýtur að skógrækt.

Samstarf Skógræktarfélags Íslands og ríkisins er víðtækt og mikilvægt fyrir gróður og jarðvegsvernd. Þar vil ég sérstaklega nefna verkefnið Landgræðsluskóga-, sem er samstarfsverkefni ríkisins og skógræktarfélaganna - en á vegum þess hefur verið gróðursett og land grætt upp síðan 1990 eða í 24 ár. Ekki er nokkur vafi á því að með þessu samstarfi hefur orðið margþættur ávinningur sem er sífellt að koma betur í ljós. Með landgræðsluskógaverkefninu hafa skógræktarfélögin unnið mikið og gott starf í að bæta rýrt land og í mörgum tilvikum gjörbreytt umhverfi þéttbýlisstaða. Þannig hafa ekki eingöngu náðst umhverfistengd markmið í þágu gróður- og jarðvegsverndar heldur einnig félagsleg og hagræn markmið í formi skjóls og bættri aðstöðu til útivistar.  

Nú fyrir jólin framlengdu stjórnvöld samninginn um Landgræðsluskóga til næstu 5 ára. Markmið samningsins er eins og áður að vinna að endurheimt landgæða með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land. Samningurinn felur það í sér að árlegt framlag ríkisins til verkefnisins eru 35 milljónir króna. Upphæðina skal nota til plöntukaupa en heimilt er að verja allt að 20% af árlegu framlagi til umhirðu, grisjunar og bætts aðgengis. Það er fagnaðarefni að það náðist samstaða um að framlengja samninginn um þetta mikilvæga verkefni. 

Nú er unnið að gerð landsskipulagsstefnu og þessa dagana er verið að kynna greiningu valkosta fyrir einstök viðfangsefni landsskipulagsstefnu og umhverfisáhrifa þeirra. Vinna við landsskipulagsstefnu snertir málefni skógræktar og því er mikilvægt að áhugamenn um skógrækt láti sig það mál varða og láti rödd sína heyrast. Landsskipulagsstefna er ætlað að vera leiðarljós fyrir sveitarfélög. Þar eiga þau að geta leitað leiðbeininga um hvernig best sé að fjalla um einstaka málaflokka í skipulagsvinnu. 

Vinna við landsskipulagsstefnu er tækifæri fyrir sveitarfélögin, hagsmunaaðila og fagfólk til að eiga samræðu um málefni sem brenna á samfélaginu og tækifæri til að horfa sameiginlega fram á veginn. Við stöndum frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum nú varðandi skipulag landnotkunar. Landbúnaður á sviði jarðræktar þróast hratt um þessar mundir, ferðamennska og útivist eykst hröðum skrefum og er að mörgu leyti undirstaða mikilvægs atvinnuvegar - ferðaþjónustunnar. Í þessum málaflokkum eru uppi margþætt sjónarmið og við verðum að skoða með hvaða hætti er skynsamlegt að stjórnvöld móti stefnu um skipulag landnotkunar til næstu áratuga. 

Í málaflokki eins og skógrækt skiptir miklu að horft sé til framtíðar, að stefnan sé skýr, að skógrækt sé liður í skipulagi, t.d. viðarframleiðslu, atvinnuþróun í dreifðum byggðum, kolefnisbindingu ásamt skjóls og útivistarmöguleikum. Félagasamtök eins og Skógræktarfélag Íslands og einstök aðildafélög þess þurfa að láta rödd sína heyrast í vinnu af þessu tagi, þar sem mótuð er stefna til framtíðar.

 Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktun um eflingu skógræktar, sem er í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar. Þróunin síðustu ár og misseri sýnir okkur að leggja þarf meiri áherslu á úrvinnslu úr skógum landsins sem stuðlar jafnframt að styrkingu byggðar og atvinnuuppbyggingu. Aukin þekking á þeim viðfangsefnum og þróunarstarf er afar brýn þar sem framboð af viði er sífellt að aukast. Að sama skapi er unnið að greiningu á verkefnum stofnana innan umhverfis- og auðlindaráðuneytisins með það í huga að kanna kosti og galla mögulegra breytinga á þeirri uppbyggingu sem við þekkjum í dag. 

Ágætu aðalfundargestir,

Akranes er ekki bæjarfélag sem hefur verið þekkt af skógum eða trjágróðri. Hins vegar blasir við öllum sem hér fara um góður árangur ræktunarstarfs, gróskumiklir garðar og fallegt umhverfi. Það er í raun sama hvar komið er á landinu – góður árangur ræktunarstarfs undanfarinna ára blasir við. Þar hafa kraftar og eljusemi ykkar  - áhugafólks í skógrækt og ykkar félagshreyfingar, skógræktarfélaganna - skipt miklu máli. Til hamingju með það.  

Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar fyrir boðið hingað og árnaðaróskir til Skógræktarfélags Íslands og til Skógræktarfélaga Akraness og Skilmannahrepps. Ég vona að þið eigið árangursríkan aðalfund. 
Bestu þakkir,

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum