Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. ágúst 2014 Forsætisráðuneytið

Tímamótaráðstefna um jafnréttismál 26. ágúst

Frú Vigdís Finnbogadóttir: „Hvar eru allir karlarnir?“ - Mynd / Gunnar G. Vigfússon
Frú Vigdís Finnbogadóttir: „Hvar eru allir karlarnir?“ - Mynd / Gunnar G. Vigfússon

Skráning stendur yfir á norræna ráðstefnu um jafnréttismál sem fram fer í Hörpu 26. ágúst nk. í tilefni 40 ára afmælis Norðurlandasamstarfs á sviði jafnréttismála. Dagskráin er fjölbreytt og áhugaverð, enda deila þar af þekkingu sinni þekktir erlendir og hérlendir fyrirlesarar.

Norrænt samstarf hefur aukið þekkingu þjóðanna á jafnréttismálum og fært þær nær markmiðinu um norræn samfélög velferðar, réttlætis og lýðræðis, enda mælist kynjajafnrétti hvergi meira í heiminum en á Norðurlöndunum. Markmið samstarfsins hefur frá upphafi verið að auka kynjajafnrétti á Norðurlöndunum og að norrænu ríkin taki virkan þátt og axli ábyrgð á sviði alþjóðamála.

Á ráðstefnunni verður fjallað um mótun og þróun norrænnar jafnréttisstefnu með áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði, menntun, og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Um þessar mundir er fagnað aldarafmæli kosningarréttar kvenna á Norðurlöndum og af því tilefni verður hugað að stöðu lýðræðis með hliðsjón af stjórnmálaþátttöku kvenna.Ráðstefnan hefst með setningu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og hátíðarávarpi frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Þekktir fyrirlesarar á alþjóðavettvangi

Fyrsti erlendi fyrirlesarinn á dagskránni er Margot Wallström, stjórnarformaður Háskólans í Lundi, sem fjallar um ábyrgð og skyldur Norðurlandanna í alþjóðasamskiptum. Margot er mörgum kunn, m.a. vegna starfa hennar sem sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi í hernaði.

Norrænu kvennahreyfingarnar krefja stjórnvöld um aðgerðir til að takast á við brýn verkefni í jafnréttismálum og um það fjallar Gertrud Åström, formaður sænska kvenréttindafélagsins. Steen Baagøe Nielsen, lektor við Hróarskelduháskóla og fyrrverandi formaður norræns samstarfsnets um karlarannsóknir, ræðir um aukna þátttöku karla í jafnréttismálum og Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ræðir um sama efni en frá öðru sjónarhorni. Hege Skjeie, prófessor við Háskólann í Ósló, mun fjalla um fulltrúalýðræði og hvort og hvernig það endurspeglar þjóðina. Hege átti sæti í framkvæmdanefnd um 100 ára kosningaréttarafmæli norskra kvenna árið 2013.

Margir fleiri erlendir og hérlendir fyrirlesarar verða með erindi á ráðstefnunni og taka þátt í pallorðsumræðum um brennandi spurningar sem snúa að kynjajafnrétti, réttlæti og lýðræði.

„Hvar eru allir karlarnir?“

Frú Vigdís Finnbogadóttir hélt ræðu fyrir 10 árum þegar fagnað var 30 ára afmæli norræns samstarfs í jafnréttismálum. Á myndinni hér að ofan frá þeirri ráðstefnu sést Vigdís skima fram í salinn þegar hún spurði; „Hvar eru allir karlarnir?“ og kom þar á framfæri skýrum skilaboðum um að jafnrétti er málefni karla jafnt sem kvenna. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur einmitt áherslu á þetta og eru karlar hvattir til að fjölmenna á ráðstefnuna.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum