Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat á þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk

Á ferðinni
Á ferðinni

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur lokið rannsókn á viðhorfum og afstöðu notenda til yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Rannsóknin var unnin að beiðni velferðarráðuneytisins og gefur kost á samanburði við sambærilega rannsókn sem gerð var áður en yfirfærslan átti sér stað í ársbyrjun 2011.

Rannsóknin er liður í formlegu mati á því hvernig til hefur tekist eftir að þjónusta við fatlað fólk færðist á hendur sveitarfélaganna, líkt og kveðið er á um í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna.  Á heildina litið hafa ekki orðið miklar breytingar á viðhorfum notenda til þjónustunnar. Í einstökum atriðum má þó sjá breytingar, bæði jákvæðar og neikvæðar.

Niðurstöðurnar sýna að marktækt fleiri fullorðnir eru í vinnu á almennum markaði en var í fyrri könnuninni. Eins hefur orðið sú breyting að hinir fullorðnu eru mun líklegri til að ákveða sjálfir eða í samráði við aðra, með hverjum þeir búa, hverjir aðstoða þá og hvernig þeir verja peningunum sínum.

Notendur þjónustunnar eru almennt ánægðir með þau úrræði sem standa til boða, svo sem fullorðinsfræðslu, frekari liðveislu, félagslega liðveislu, stuðningsfjölskyldur og lengda viðveru í skóla.

Könnunin nú sýnir að hlutfallslega fleiri en áður telja að þeir þurfi meiri aðstoð en þeir fá á heimili sínu við persónulegt hreinlæti og að klæðast, við að komast á milli staða og við ferðalög innan lands og erlendis.

Líkt og í fyrri könnun voru foreldrar spurðir hvort þeir teldu börn sín oft, stundum eða aldrei upplifa að vera einmana. Nærri tveir þriðju foreldra töldu börn sín upplifa einmanaleika oft eða stundum og hlutfall þeirra sem taldi börn sín oft upplifa einmanaleika er marktækt hærra en í könnuninni frá árinu 2011. Því eldri sem börnin eru, þeim mun meiri líkur eru á því að foreldrar þeirra telji þau einmana.

Könnun fór þannig fram að tekið var tilviljunarúrtak úr hópi þeirra sem nota þjónustu sem áður var veitt af svæðisskrifstofum um allt land. Spurningalistar voru tveir, annars vegar fyrir fullorðna og hins vegar fyrir börn undir 18 ára aldri. Svarhlutfall var tæp 65,2% meðal fullorðinna og 69,5% meðal barna.

Skýrslan Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands ásamt viðaukum:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum