Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Málefni Úkraínu í deiglunni

Ráðherrar sem sækja NATO fundinn

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hófst í Wales í dag og sækja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundinn.

Á dagskrá er meðal annars málefni Úkraínu og ræddu leiðtogarnir við Petro Poroshenko forseta Úkraínu um hernaðarátökin og samskiptin við Rússland. Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að hernaðarinngrip og aðgerðir Rússa í Úkraínu ógni öryggi Evrópu og séu brot á alþjóðalögum. Leiðtogarnir áréttuðu stuðning sinn við fullveldi og sjálfstæði Úkraínu og hvöttu rússnesk stjórnvöld til að láta af aðgerðum sínum og styðja friðsamlega lausn mála.

„Því miður hafa öryggishorfur í Evrópu breyst mjög hratt á síðustu mánuðum vegna framferðis Rússa og átakanna í Úkraínu. Það er augljóst að bandalagið mun leggja meiri áherslu á sameiginlegar varnir og áframhaldandi samvinnu við ríki sem vilja standa vörð um alþjóðalög og lýðræði," sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

Þá funduðu utanríkisráðherrar bandalagsríkja og utanríkisráðherrar Bosníu og Hersegóvínu, Georgíu, Makedóníu og Svartfjallalands um hvernig ríkjunum gengur að vinna að úrbótum sem miða að aðild þeirra að bandalaginu.

Leiðtogar 48 þátttökuríkja alþjóðaliðsins í Afganistan funduðu með varnarmálaráðherra landsins. Verkefnum alþjóðaliðsins, sem staðið hafa í rúman áratug, lýkur um áramótin en ríkin, þar á meðal Ísland, munu halda áfram að styðja við uppbyggingu í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum