Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2014 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra við upphaf 144. löggjafarþings

Forsætisráðherra flytur stefnuræðu við upphaf 144. löggjafarþings
Forsætisráðherra flytur stefnuræðu við upphaf 144. löggjafarþings

Virðulegur forseti, góðir landsmenn.
Náttúra Íslands minnir stöðugt á hve krefjandi það er að búa í landi elds og íss. Þeir kraftar sem takast nú á í iðrum jarðar og brjótast fram á hálendinu eru í senn stórfenglegir og ógnvekjandi. Hugur margra leitar þá til þeirra tíma þegar forfeður okkar þurftu að kljást við afleiðingar slíkra náttúruhamfara með mun minni bjargir en við þekkjum í dag.

Það er því mjög ánægjulegt að sjá hve framúrskarandi vísindamönnum Ísland hefur á að skipa og hve mikið og gott starf hefur verið unnið á sviði almannavarna.Allt þeirra starf eykur mjög öryggi okkar í því ófyrirsjáanlega umhverfi sem náttúra landsins býr okkur.

En þrátt fyrir þessar hættur náttúrunnar erum við Íslendingar svo heppnir að búa í landi sem er í senn ægifagurt og gjöfult með gnægð auðlinda.  

Hvort sem litið er til jarðnæðis, vatns, hreinleika eða möguleika til matvælaframleiðslu eru fáar þjóðir í heiminum sem búa við jafn rík tækifæri frá náttúrunnar hendi og við. 

Landið sér okkur fyrir nægri umhverfisvænni orku og úr fegurð og aðdráttarafli náttúrunnar og auðlindum sjávar verða til gríðarlega mikil verðmæti.Mannauður okkar og hugvit bætir sífellt við þau verðmæti, enda vinnur nú stærri hluti þjóðarinnar að rannsóknum en annars staðar í Evrópu.   

Sé litið til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í efsta sæti við mat á öryggi og friði og jafnrétti kynjanna. 

Raunar hefur það sýnt sig að í alþjóðlegum samanburði á þeim kostum sem lönd búa yfir er Ísland gjarnan í hópi þeirra efstu, hvort sem spurt er hvar best sé að búa í heiminum (3.sæti), um stöðu lýðræðis (3.sæti), um réttindi ólíkra hópa (9.sæti), frelsi fjölmiðla (6.sæti), árangur af heilbrigðisstefnu (3.sæti) eða um stöðugustu ríki heims (8.sæti).

Slíkur samanburður er ekki  algildur, en veitir þó mikilvæga vísbendingu um það hversu góð lífsskylirði við búum við. 

Sú staðreynd hverfur því miður allt of oft í umræðuhefð sem sífellt beinir sjónum að því neikvæða. 

Það er ákaflega mikilvægt að við gleymum því ekki að við búum í samfélagi sem flestir aðrir í heiminum gætu öfundað okkur af, þar sem sterkir innviðir, miklar auðlindir og ríkulegur mannauður gera okkur kleift að byggja upp enn betra samfélag til framtíðar. 

Á liðnu ári höfum við þegar náð að stíga mikilvæg skref í átt til þess að styrkja efnahagslíf þjóðarinnar og bæta hag heimilanna. 

Nú eru komnar til framkvæmda, eða vinna vel á veg komin, við allar aðgerðir í þingsályktun vegna skuldavanda heimilanna. 

Þar ber hæst hin almenna aðgerð til leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum sem rúmlega 69.000 heimili sóttu um í sumar. 

Höfuðstólsleiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar munu hjálpa heimilum með verðtryggð lán á beinan hátt með því að lækka mánaðarlega greiðslubyrði af lánum og  hækka ráðstöfunartekjur fjölskyldna.   

Það er fagnaðarefni og athygli vert að sjá hve almenn þátttaka er í aðgerðunum, en langflestir þeirra sem voru með verðtryggð lán á heimilum sínum sóttu um. 

Svo almenn þátttaka hlýtur að vera þingmönnum stjórnarandstöðunnar umhugsunarefni, þegar haft er í huga hversu hatrammlega þeir börðust gegn þessum víðtækustu aðgerðum til hjálpar heimilunum eftir efnahagshrunið, og greiddu meira að segja atkvæði gegn þeim hér á Alþingi. 

Af því er ljóst að án sitjandi ríkisstjórnar hefði ekki verið lagt í neinar almennar aðgerðir fyrir þau heimili sem hafa verðtryggð húsnæðislán. 

Leiðréttingin snýst um sanngirni til handa heimilum með slík lán sem ekki hlutu aðstoð þegar ráðist var í miklar afskriftir hjá hluta áhættusækinna fyrirtækja og einstaklinga. Lán þessara heimila höfðu verið keypt á tugprósenta afslætti án þess að þau fengju að njóta þess á nokkurn hátt fyrr en nú. 

Markvissar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsstjórn hafa skilað árangri sem nú er tekið eftir á alþjóðlegum vettvangi. 

Hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland, sem gefin var út í sumar spáir nærri þriggja prósenta hagvexti í ár og heldur meiri vexti árið 2015. 

Seðlabanki Íslands spáir enn meiri hagvexti eða rúmlega þremur prósentum í ár og tæplega fjórum prósentum árið 2015 .Þetta er árangur sem fáar ef nokkrar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir og þótt víðar væri leitað. 

Með sameiginlegu átaki ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefur tekist að auka kaupmátt og koma verðbólgu niður fyrir markmið Seðlabankans og hefur verðbólgan nú haldist undir verðbólgumarkmiði bankans í sjö mánuði samfellt.Slíkur árangur hefur ekki náðst í meira en 10 ár en líta þarf til áranna 2002 og 2003 til að finna samsvarandi verðlagsstöðugleika. 

Stöðugleiki og vöxtur sem styðst við ábyrga stjórn efnahagsmála er enda inntak ríkisfjármálaáætlunar næstu ára. 

Lækkun skatta, endurskoðun á uppbyggingu skattkerfisins, afnám fjármagnshafta og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána setja mark sitt á fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015. 

Skuldahlutfall ríkissjóðs af landsframleiðslu hefur einnig farið stöðugt lækkandi og verður 74% í lok árs 2015. Skattkerfisbreytingar byggjast nú á þeim grundvallarforsendum að þær eigi að auka ráðstöfunartekjur allra og einkum þeirra tekjulægri og stuðla að lækkun á vísitölu verðlags. 

Í þessu fellst grundvallarbreyting frá skattahækkunum síðasta kjörtímabils og meirihlutinn er tilbúinn til að gera hverjar þær breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem þörf gæti verið á til að verja þessar grunnforsendur. 

Atvinnuþátttaka eykst stöðugt og atvinnuleysi er nú með því allra minnsta í Evrópu eða rúm 3% samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar, saman borið við yfir 10% í Evrópusambandinu og hátt í 12% á evrusvæðinu. 

Ríkissjóður hefur nú endurfjármagnað Norðurlandalánin með hagstæðu skuldabréfaútboði í evrum. Þetta eru stórtíðindi sem spara munu ríkissjóði umtalsverð vaxtagjöld og eru til marks um aukið traust á stjórn efnahagsmála. 

Áhersla hefur verið lögð á að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og það er ánægjulegt að fjölgun nýrra fyrirtækja er nú umtalsvert meiri en á undanförnum árum og gjaldþrotum fækkar um fimmtung milli ára. 

Þrátt fyrir aðhald í ríkisfjármálum hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Þannig var nærri þriggja milljarða króna hækkun barnabóta varin milli ára og tekjuskattur lækkaður um fimm milljarða. 

Framlög í þágu eldri borgara og öryrkja voru aukin um sex milljarða og framlög til heilbrigðisþjónustunnar og tækjakaupa um fjóra milljarða. 

Upptalning á tölum um efnahagslegan bata segir ekki mikið ein og sér en staðreyndin er sú að hver þessara þátta hefur í för með sér raunverulega bót á hag heimilanna og kjarabót í daglegu lífi fólks með beinum eða óbeinum hætti.

Þessi góði og gríðarlega mikilvægi árangur leggur því sterkari grunn að enn frekari sókn í átt til betri lífskjara almennings á Íslandi.  Það tækifæri ætlum við að nýta vel. 

En til að nýta tækifæri framtíðarinnar verðum við að sjá fyrir okkur hvert við stefnum, hafa skýra sýn á það hvers konar samfélag við viljum byggja á grunni þess góða sem við búum við í dag. 

Veröldin mun óhjákvæmilega breytast mikið á næstu árum og áratugum.Við lifum á tímum óvissu og átaka á alþjóðavettvangi, en um leið framfara í tækni og vísindum sem við verðum að nýta til að takast á við sífellt hraðari breytingar í umhverfi okkar og náttúru og til að bæta samfélagið. 

Markmið okkar verður ætíð að vera að samfélagið haldi áfram að batna, kynslóð fram af kynslóð. Hið sama á við um landið okkar, náttúruna sem er okkur svo gjöful og auðlindirnar sem við verðum að nýta á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. 

Því verðum við að horfa inn í framtíðina og spyrja: Hvernig viljum við að framtíðarlandið Ísland verði?   

Og þó okkur greini stundum á um leiðirnar að markmiðinu erum við flest sammála um hvernig samfélag við viljum byggja upp. 

Á Íslandi eiga fjölskyldurnar að ná endum saman um mánaðamót, öryrkjar eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og eldriborgarar eiga að fá notið afraksturs ævistarfsins. 

Á Íslandi eiga allir að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Allir eiga að hafa jafna möguleika á menntun og starfsframa og langtíma atvinnuleysi á ekki að líðast. 

Ungt fólk á að geta fengið vinnu við hæfi í framhaldi af námi og líta á Ísland sem vænlegan framtíðarstað, finna að hér er gott að búa og að hér er gott að stofna fjölskyldu og ala upp börn. 

Íslendingar þurfa sjálfir að trúa á framtíð landsins til að við getum byggt á grunni þeirra styrkleika sem samfélagið býr nú þegar yfir. 

Við viljum að á Íslandi séu allir metnir að verðleikum án tillits til þess sem gerir okkur ólík og að allir séu jafnir fyrir lögum. Við viljum að samfélagið virði frelsi og drifkraft einstaklingsins til að móta eigið líf en að einnig sé þess gætt að enginn sé skilinn eftir. 

Stjórnvöld eiga að leggja höfuðáherslu á að skapa þetta jákvæða og heilbrigða umhverfi, svo einstaklingar og fjölskyldur geti betur uppfyllt drauma sína og vonir. 

Þó að saga Íslands á síðustu öld sé einhver mesta framfarasaga sem þekkist er mikið starf óunnið, enda viljum við stöðugt ná lengra jafnóðum og árangur næst. 

Til þess þarf skynsemi og rökhyggju, samvinnu og staðfestu. Það þarf að vinna á skuldavanda ríkisins og fjármagnshöftunum, gera atvinnulífinu kleift að ráða fleira fólk til starfa á betri kjörum og auka verðmætasköpunina sem samfélagið þarf á að halda til að standa undir velferð fyrir alla. 

Framtíðarlandið Ísland byggir tilveru sína á því að við berjumst saman fyrir því að nýta auðlindirnar, tækifærin, þekkinguna og mannauðinn á skynsamlegan hátt, til að skapa það samfélag velferðar, jöfnuðar, atvinnu og réttlætis sem við viljum tilheyra. 

Góðir landsmenn. 
Tækifæri okkar eru vissulega mörg en til að nýta þau verða stjórnvöld að búa svo um hnútana að hér vilji menn fjárfesta og starfa. Pólitískur stöðugleiki er þar ekki síður mikilvægur en efnahagslegur. 

Einnig þarf að bæta aðstæður svo ný fyrirtæki geti vaxið innanlands og skapað ný og áhugaverð störf sem ungt og vel menntað fólk sækir í. 

Ný aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs felur m.a. í sér stóraukið framlag í samkeppnissjóði og ráðstafanir til að auðvelda atvinnulífinu að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.Þessum aðgerðum er ætlað að styðja við atvinnulíf framtíðarinnar og framsækna menntastefnu í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar. 

Hugtakið nýsköpun vísar ekki aðeins til þeirra fyrirtækja sem við köllum stundum hátæknifyrirtæki. 

Til að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, góðu heilbrigðiskerfi, skynsamlegri nýtingu auðlinda og framúrskarandi menntastofnunum þarf nýsköpun að vera til staðar í öllum atvinnugreinum, bæði hjá einkafyrirtækjum og hinu opinbera. 

Menntun þjóðarinnar er eitt mikilvægasta viðfangsefni  okkar til framtíðar litið. Framtíðarsýn okkar er að ungt fólk á Íslandi hafi traustan undirbúning og góða möguleika til þess að búa og starfa í síbreytilegum heimi. 

Helsti styrkur íslensks menntakerfis,  sem við ætlum að standa vörð um,  er að námsárangur er nokkuð jafn milli skóla, nemendum líður almennt vel og skólakerfið er bæði sveigjanlegt og laust við mikla miðstýringu. 

Á þeim grunni þarf að vinna markvisst að því að bæta árangur í lestri, flýta námsframvindu í framhaldsskólum og efla verk- og tækninám.  

Við eigum að vera stolt af menningararfi þjóðarinnar og nýta hann meðal annars í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi til frambúðar. 

Nú þegar stöðugt fleiri ferðamenn sækja okkur heim er það okkur enn mikilvægara að styðja við og styrkja menningarlegar rætur okkar.   

Við viljum í samvinnu við heimamenn á hverjum stað horfa til menningartengdrar uppbyggingar og þróunar sérstakra verndarsvæða í byggð sem styrki heildaruppbyggingu á  viðkomandi  svæðum. 

Ég hef óskað eftir því að slíku samstarfi verði komið á fót og unnið er að undirbúningi þess í forsætisráðuneytinu. 

Við verðum að bregðast við vexti ferðaþjónustunnar til að tryggja að helstu náttúruperlur okkar bíði ekki skaða vegna aukins álags. Það hefur ríkisstjórnin þegar gert en aldrei hefur eins miklu fjármagni verið veitt í þennan málaflokk og nú á þessu ári. 

Samkeppnishæfni landbúnaðarins hefur aukist. Framleiðsla á mjólk hefur stóraukist og hafinn er undirbúningur að því að auka framleiðslu á nautakjöti. Þar og á öðrum sviðum eru gríðarlegir möguleikar fyrir íslenska bændur. 

Eitt af markmiðum nýrra búvörusamninga er að einfalda stuðningskerfið, hvetja til nýsköpunar, nýliðunar og hagræðingar.  

Sjávarútvegur er og verður ein af meginstoðum velferðar hér á landi. Unnið hefur verið að því að bæta rekstrarumhverfi framleiðslu sjávarafurða og stutt við sjálfbærar veiðar. 

Þá er einnig í vinnslu í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu frumvarp til laga um fiskveiðistjórnun og verður það stærsta einstaka mál ráðuneytisins á komandi vetri. 

Sem fyrr hefur samráð verið haft þá sem starfa í greininni og leitast verður við að skapa sem víðtækasta sátt um kerfið til framtíðar.   

Framlag landsbyggðarinnar er meira en margir átta sig á í fljótu bragði. Það vita sjálfsagt ekki allir að á Austurlandi verður til nær fjórðungur af útflutningstekjum þjóðarinnar. 

Ekki síst með slíkar staðreyndir í huga er afar mikilvægt að framfylgja stefnumótandi byggðaáætlun til ársins 2017. 

Markmið áætlunarinnar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og aðgang að þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. 

Heilbrigðisþjónustan þarf áfram að standast alþjóðlegan samanburð og því ber að hlúa gaumgæfilega að grunnþáttum hennar.  Á  fjárlögum þessa árs voru framlög til heilbrigðismála aukin verulega og er það í fyrsta skipti í mörg ár sem það hefur  verið gert. 

Sérstaklega verður unnið að því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.Í því skyni hefur í fyrsta sinn verið sett á fót ráðherranefnd um lýðheilsumál sem hefur það markmið að efla og bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. 

Vinna við heilbrigðisáætlun til ársins 2020 er í mótun þar sem meðal annars er lögð áhersla á að landsmenn búi við sem jafnastan kost í heilbrigðismálum. Gert er ráð fyrir að áætlunin líti dagsins ljós á haustdögum. 

Öllum er ljóst að breytinga er þörf á húsnæðismarkaðnum. Byggja þarf upp virkan langtímaleigumarkað, skapa samvinnu- og sameignarstefnunni traustari grundvöll en búa jafnframt þeim sem geta og vilja kaupa eigið húsnæði eðlileg skilyrði til þess.Öll heimili eiga að búa við öryggi, óháð búsetuformi

Samkvæmt tillögum sérfræðihóps og samþykkt ríkistjórnar er unnið að afnámi verðtryggingar á neytendalánum. 

Stefna um framtíðarskipan húsnæðismála hefur verið mótuð með vönduðum tillögum verkefnisstjórnar. 

Félags- og húsnæðismálaráðherra stefnir að því að leggja fram fjögur lagafrumvörp á þessu þingi sem miða að því að bæta skipan húsnæðismála til mikilla muna. 

Þá hefur verið ákveðið að fyrningarfrestur á kröfum, eða þeim hluta krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrot muni áfram verða tvö ár. Jafnframt verður áfram unnt að óska eftir fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar vegna kostnaðar við gjaldþrotaskipti. 

Virðulegur forseti.
Ísland hefur búið við fjármagnshöft í næstum sex ár. Það skjól sem þau hafa veitt var nauðsynlegt til að fást við afleiðingar fjármálahrunsins árið 2008.Varin frá þeim ólgusjó sem hefur geysað í Evrópu og víðar tókst Íslendingum með  þrautseigju og miklum fórnum að koma efnahagslífinu á réttan kjöl. 

Náðst hefur þróttmikill hagvöxtur og mikilsverður árangur í peningamálum, ríkisfjármálum og atvinnumálum. En þó að almennt jafnvægi sé á rekstri þjóðarbúsins, þá er enn mikill þrýstingur til staðar. Auk þess valda viðskiptahindranir haftanna tortryggni við mat á fjárfestingu á Íslandi. Af þessum ástæðum er það leiðarljós í stefnu ríkisstjórnarinnar að vinna að afnámi fjármagnshafta og koma fótfestu undir hagkerfið okkar aftur, í eðlilegu fjármagnsumhverfi.Þar verða hagsmunir þjóðarbúsins í forgrunni. 

Í samráði við helstu hagsmunaaðila í samfélaginu verður unnið að lausn sem er ekki aðeins efnahagslega möguleg, heldur einnig samfélagslega ásættanleg.Stjórnvöld munu ekki samþykkja lausnir sem hafa í för með sér enn frekari skerðingu á lífskjörum.Að þessu markmiði starfar nú framkvæmdahópur, sem mun gera tillögur að leiðum til að létta fjármagnshöftum af íslensku efnahagslífi.Sú vinna byggir á tillögum ráðgjafahóps um heildstæða lausn sem tekur á öllum þáttum fjármagnshaftanna og fyrri vinnu á vegum stjórnvalda.Stjórnvöld hafa sér til aðstoðar afar færa erlenda sérfræðinga á sviði lögfræði auk efnahagslegra ráðgjafa sem aðstoða við mótun þjóðhagslegra skilyrða.Efnahagsstefna stjórnvalda við afnám fjármagnshafta verður byggð á þessum skilyrðum ásamt ítarlegri greiðslujafnaðargreiningu. 

Reiknað er með að niðurstöður og tillögur til Alþingis um lagasetningu verði lagðar fram á næstu mánuðum. Slíkt ætti meðal annars að ryðja brautina að lyktum skuldaskila slitabúa föllnu bankanna. Komast þarf að niðurstöðum sem eru ávallt í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldaskilareglur en samrýmist um leið efnahagslegum stöðugleika Íslands og vexti, til framtíðar. 

Góðir landsmenn. 
Eins og náttúran minnir okkur á núna fylgja því ávallt áskoranir að búa á Íslandi. En sagan hefur sýnt okkur að þegar við berum gæfu til að nýta tækifærin sem landið og þjóðin hafa upp á að bjóða getum við náð undraverðum árangri. Uppbyggingarstarf fyrri kynslóða og árangur liðinna áratuga hafa gert Ísland að einu þeirra landa  þar sem best þykir að búa í veröldini. Enn bíða okkar þó óleystar áskoranir og mikil sóknarfæri. Hinir miklu styrkleikar og kostir íslensks samfélags þýða að við höfum aðstöðu til að gera það enn betra. Að því skulum við vinna í sameiningu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum