Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2014 Forsætisráðuneytið

Samráðshópur um viðbrögð við náttúruvá skipaður

Á fundi sínum í dag ákvað ríkisstjórn Íslands að tillögu forsætisráðherra að skipa samráðshóp fimm ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruvá. Hópurinn mun yfirfara fjárþörf og kostnað aðila og einstakra stofnana vegna eldgossins í Holuhrauni og jarðhræringa í og við öskju Bárðarbungu og í Dyngjujökli. Hópnum er jafnframt falið að fjalla um álitamál sem upp kunna að koma, sem og aðgerðir sem mögulega þarf að grípa til eða taka ákvarðanir um eðli máls samkvæmt. Hópurinn mun gera tillögur til ríkisstjórnarinnar samhliða framvindu mála til frekari umræðu og ákvarðanatöku á ríkisstjórnarfundum. 

Samráðshópurinn er skipaður ráðuneytisstjórum frá fimm ráðuneytum; forsætisráðuneytinu, sem leiðir starf hópsins, innanríkisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Fleiri ráðuneytisstjórar verða kallaðir inn í samráðshópinn eftir málefnum og þörfum. Með samráðshópi ráðuneytisstjóranna munu starfa líkt og áður fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og fulltrúar ríkislögreglustjóra vegna almannavarna. 

Á umliðnum árum hefur slíkur samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúrvá tekið til starfa þegar alvarlegt ástand kemur upp sem bregðast þarf skjótt við og þegar aðkomu ríkissjóðs er þörf. Hjá Stjórnarráðinu hefur því byggst upp verðmæt þekking, reynsla, verklag og ferlar vegna viðbragða við hættuástandi í kjölfar náttúruhamfara sem hefur reynst skilvirk. Með slíkri tilhögun hefur yfirsýn yfir stóra atburði og aðkomu ríkisins verið tryggð. Forsætisráðuneytið hefur haldið utan um og leitt starf ráðuneytisstjórahópsins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið starfar með samráðshópnum og annast tæknilega útfærslu varðandi öflun útgjaldaheimilda, og nauðsynlegar greiðslur, auk þess sem fulltrúar ríkislögreglustjóra vegna almannavarna starfa með hópnum. Hópurinn hefur haft umboð ríkisstjórnar og leitað eftir fulltingi og aðkomu fleiri ráðneytisstjóra, forstöðumanna, sveitarstjórna eða forsvarsmanna félaga eða íbúa allt eftir þörfum eða aðstæðum. 

„Það er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að halda af öryggi og festu utanum mál af þessu tagi til þess að tryggja yfirsýn, ekki síst ríkisstjórnarinnar, yfir þróun og stöðu mála frá degi til dags, og því er mjög gott að þessi hópur hafi nú þegar tekið til starfa,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að afloknum ríkisstjórnarfundi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum