Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Sjálfbær landnýting mikilvæg til framtíðar

Gunnar Bragi á ráðherrafundi um landnýtingu.

Gunnar Bragi Sveinsson tók í dag þátt í ráðherrafundi um sjálfbæra landnýtingu sem Ísland stóð fyrir ásamt Qatar, Marokkó og Þýskalandi. Fundurinn fór fram í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þar sem sérstök áhersla er á meðal annars á loftslagsbreytingar.

Í ræðu sinni fór Gunnar Bragi yfir mikilvægi landgræðslu fyrir heiminn og þekkingu Íslands í þeim efnum. Síðastliðin 100 ár hafi Ísland svo náð miklum árangri í landgræðslu og deili þeirri þekkingu sem hefur áunnist með öðrum þjóðum meðal annars gegnum landgræðsluskóla háskóla SÞ á Íslandi.

Ráðherrann sagði að landeyðing og eyðurmerkurmyndun væri mest þar sem mannfólkinu fjölgar hraðast sem aftur leiddi til rýrari matvælaframleiðslu á þeim svæðum. Á hverjum áratugi breytast 1,2 milljón ferkílómetra af landi í eyðimörk. Það er fjórum sinnum stærð Þýskalands. Þetta væri því mikilvægt málefni sem snerti á fæðuöryggi og loftlagsbreytingum.

Monique Barbut, framkvæmdastýra Eyðurmerkursamnings Sameinuðu þjóðanna, stýrði fundinum. Fram kom í máli hennar að árið 2013 hafi 13 milljón manna farið á vergang vegna náttúruhamfara og þar sé þurrkur stærsti áhrifavaldurinn. Landgræðsla skipti því miklu.

Ísland ásamt Namibíu stofnaði fyrir ári síðan vinahóp landa sem vilja vinna gegn landeyðingu og eyðurmerkurmyndun og hefur látið til sín taka í undirbúningi nýrra þróunarmarkmiða, m.a. sendu utanríkisráðherrar Íslands og Namibíu bréf til aðalframkvæmdastjóra SÞ til að vekja athygli hans á þessu máli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum