Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. september 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ofanflóðagarðar vígðir í Bolungarvík

Frá vígsluathöfn varnargarðanna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði formlega ný snjóflóðamannvirki í Traðarhyrnu í Bolungarvík við hátíðlega athöfn um helgina. Þar með er lokið gerð og frágangi ofanflóðavarna í Bolungarvík.

Hættusvæði vegna ofanflóða ná til nokkuð stórs hluta byggðarinnar í Bolungarvík en eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri 1995 sáu menn nauðsyn þess að huga að snjóflóðahættu úr Traðarhyrnu.  Eftir hættumat, umfangsmikinn undirbúning, hönnun og útboð hófst vinna við gerð garðanna árið 2008 og lauk framkvæmdum árið 2012.

"" Áhersla er á útlit mannvirkjanna, uppgræðslu og gerð göngustíga. .

Varnargarðarnir eru hluti af bæjarlandslaginu og var því þegar við undirbúning verksins lögð áhersla á útlit mannvirkjanna, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu. Um leið hafa garðarnir bætt aðstöðu til útivistar og eru orðnir fastir viðkomustaðir ferðafólks. Þá hafa mannvirkin þegar sannað gildi sitt. Tíðar rýmingar voru á efstu húsum í Bolungarvík en með tilkomu garðanna hefur það breyst.


Vígsluathöfnin fór fram undir varnargörðunum þar sem komið hefur verið fyrir upplýsingaskilti um mannvirkin. Auk ráðherra ávarpaði Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir forseti bæjarstjórnar vígslugesti.  Garðarnir voru formlega vígðir af séra Ástu Ingibjörgu Pétursdóttur og þeim gefin nöfnin Vörður og Vaki.

"" Séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir vígði garðana og var þeim gefin nöfnin Vörður og Vaki. .



Að lokinni vígslu snjóflóðavarnarmannvirkjanna bauð Bolungarvíkurkaupstaður til kaffisamsætis þar sem fulltrúar Tónlistarskóla Bolungarvíkur léku fyrir gesti. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum