Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Ríki heims tryggi áframhaldandi árangur í baráttunni gegn fátækt og ójafnræði.

Gunnar Bragi í ræðustól

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í dag þar sem hann ræddi mikilvægi þess að ríki heims tryggi áframhaldandi árangur í baráttunni gegn fátækt og ójafnræði. 

Gunnar Bragi ræddi um ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem taka eiga gildi eftir 2015. Hann sagði áherslur Íslands vera á fæðuöryggi þar sem sjálfbær nýting auðlinda hafsins og vannýtt tækifæri í sjávarútvegi geta skipt miklu. Þá muni Ísland beita sér fyrir því að ný þróunarmarkmið fjalli um mikilvægi landgræðslumála. Rjúfa þurfi vítahring loftslagsbreytinga og eyðimerkurmyndunar sem leiðir til þess að á hverju ári eyðist land á stærð við Suður-Afríku. 

Þá ræddi Gunnar Bragi mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa fyrir ný þróunarmarkmið. Í samstarfi við Alþjóðastofnun um endurnýjanlega orkugjafa (IRENA) og Alþjóðabankann hefur Ísland sett nýtingu jarðhita á oddinn í alþjóðasamstarfi. Í ræðu sinni hvatti Gunnar Bragi önnur ríki til að ganga til liðs við Ísland og mynda bandalag um jarðhitanýtingu á heimsvísu. 

Gunnar Bragi lagði þunga áherslu á mikilvægi jafnréttismála í ræðu sinni. Hann ítrekaði mikilvægi þess að ríki heims framfylgi þeim ákvörðunum sem teknar voru á kvennaráðstefnunni í Peking fyrir tæpum 20 árum. Ísland styður sérstakt átak UN Women á afmælisárinu þar sem kastljósinu verður beint að valdeflingu kvenna. Þá tilkynnti Gunnar Bragi um málþing um kynjajafnrétti sem haldið verður í New York í janúar í boði Íslands. Málþingið verður einstakt í sinni röð þar sem eingöngu karlar munu koma saman og ræða jafnrétti kynjanna. 

Í ræðunni sagði Gunnar Bragi það áhyggjuefni hversu mörg dæmi eru um alvarleg brot á alþjóðalögum. Versta dæmið séu hin skelfilegu ofbeldisverk hryðjuverkasamtakanna ISIS í Írak og Sýrlandi. Hann sagði Ísland taka undir að brugðist sé við ódæðisverkum ISIS. Ekkert ríki geti litið undan þegar villimennskan og grimmdin séu svo yfirþyrmandi og Ísland muni leggja sitt af mörkum með framlögum til mannúðaraðstoðar á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Gunnar Bragi sagði annað dæmi um virðingarleysi fyrir alþjóðalögum vera hersetu og mannréttindabrot ísraelskra stjórnvalda í Palestínu. Þá hafi tilgangslaust stríð á Gaza síðastliðið sumar kostað fjölda mannslífa. Hann fordæmdi eldflaugaárásir Hamas á Ísrael og valdbeitingu Ísraelshers. Hann sagði hernámi Ísraela í Palestínu verða að ljúka. Lausn vandans felist í tveggja ríkja lausninni með víðtækum stuðningi grannríkjanna og öflugu friðargæsluliði. 

Þá sagði hann ólöglega innlimun Rússlands á Krímskaga ógna öryggi og stöðugleika í Evrópu. Lýsti hann áhyggjum að trúverðugleika öryggisráðsins sé teflt í tvísýnu með framferði eins af fastaríkjum ráðsins og að ráðið hafi reynst ófært um að takast á við stór úrlausnarefni eins og hernám og beitingu efnavopna.

 Ræða utanríkisráðherra

Upptaka af ræðu ráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum