Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. september 2014 Forsætisráðuneytið

Sigurður Hr. Sigurðsson - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar

Athugasemdir um áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar.

Ágætu nefndarmenn í stjórnarskrárnefnd,

Í 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar er velt upp ýmsum spurningum og álitaefnum um fjögur umfjöllunarefni í nýrri stjórnarskrá. Nú er það svo að í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og skýringum með því er flestum þessum álitaefnum gerð prýðileg skil.

http://stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf

Það þarf varla að minna nefndarmenn á að haldin var lögmæt þjóðaratkvæðagreiðsla að frumkvæði Alþingis þann 20. október 2012 (á fimmtugsafmæli mínu) þar sem tillögur Stjórnlagaráðs fengu grænt ljós frá 2/3 hlutum kjósenda. Að virða ekki þá niðurstöðu viðlits er það sama og að gefa frat í lýðræðislegar kosningar. Það er einkennileg þversögn fólgin í því að valdhafar hafi miklar áhyggjur af minnkandi kjörsókn á sama tíma og þeir leyfa sér að hunsa afgerandi vilja kjósenda í svo mikilvægu máli. Halda þeir virkilega að fólk muni flykkjast á kjörstað til að greiða atkvæði sem ekkert mark væri tekið á?

Þó svo að ég gæti hæglega svarað spurningum og álitaefnum stjórnarskrárnefndar lið fyrir lið ætla ég ekki á láta hafa mig út í þann leik. Á sínum tíma sendi ég inn erindi til Stjórnlagaráðs og einnig til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þegar frumvarpið var þar til umfjöllunar. En með þjóðaratkvæðagreiðslunni lauk umsagnarferlinu.

Að lokum vil ég hvetja ykkur öll í stjórnarskrárnefnd til að skila frumvarpi Stjórnlagaráðs til Alþingis þar sem það bíður staðfestingar. Að öðrum kosti væruð þið að grafa undan lýðræðinu í landinu. 

Með vinsemd,

Reykjavík 29. september 2014.

Sigurður Hr. Sigurðsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum