Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjagreiðslukerfið og reynslan af því

Lyf
Lyf

Um 4.000 einstaklingar hafa náð hámarksþakinu sem er á greiðsluþátttöku sjúklings í lyfjagreiðslukerfinu sem tók gildi í maí 2013. Kerfið virðist stuðla að hagkvæmari notkun lyfja og draga úr sóun eins og að var stefnt. Um 1.000 samningar hafa verið gerðir um greiðsludreifingu vegna kaupa einstaklinga á lyfjum.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa tekið saman upplýsingar um fengna reynslu af lyfjagreiðslukerfinu. Með gildistöku þess voru gerðar grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi greiðsluþátttöku sjúklinga og sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. Í grófum dráttum leiddi kerfið til þess að þeir sem alla jafna nota lítið af lyfjum greiða meira en áður, en þeir sem þurfa mikið af lyfjum eða nota dýr lyf greiða minna en áður. Sett var þak á hámarkskostnað sjúklinga fyrir lyf innan hvers 12 mánaða tímabils til að verja fólk fyrir miklum kostnaði. Þegar þakinu er náð greiða sjúkratryggingar lyfjakostnaðinn að fullu þar til 12 mánaða tímabilinu lýkur og nýtt hefst.

Samkvæmt upplýsingum SÍ hefur rekstur lyfjagreiðslukerfisins gengið hnökralítið frá fyrsta degi og tæknilegir örðugleikar verið litlir. Útreikningar á kostnaðarskiptingu sjúkratrygginga og sjúklinga gagnvart apótekunum er einfaldari en áður og álitamálum við afgreiðslu lyfjaskírteina hefur fækkað. Helstu vandamál sem upp hafa komið við útreikninga snúa að barnafjölskyldum þegar börn flytjast á milli fjölskyldna, t.d. við skilnað foreldra eða þegar ný sambúð hefst. Ástæðan er sú að öll börn í sömu fjölskyldu greiða sem eitt barn og miðast útreikningurinn við fjölskyldunúmer samkvæmt þjóðskrá.

Lyfjanotkun hefur dregist saman

Meginmarkmiðið með upptöku greiðslukerfisins var að stemma stigu við mjög háum útgjöldum sjúklinga vegna lyfjakostnaðar og stuðla að réttlátara kerfi sem m.a. mismunaði ekki sjúklingahópum. Þess var einnig vænst að kerfið myndi stuðla að hagkvæmari notkun lyfja, stuðla að ávísun ódýrari lyfja og draga úr sóun. Þótt ekki megi draga of víðtækar ályktanir af 17 mánaða reynslutíma virðast þessar væntingar hafa ræst. Þetta má m.a. ráða af því að notkun lyfja með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga, mæld í dagskömmtum (DDD), hefur dregist saman um 0,8% á 12 mánaða tímabili. Til samanburðar jókst notkun lyfja með greiðsluþátttöku um 3% ár ári að meðaltali árin 2011 – 2013. Líkt og að var stefnt hefur hlutfallsleg skipting lyfjaútgjalda milli sjúkratrygginga og lyfjanotenda haldist svipuð í nýja kerfinu og var fyrir tilkomu þess.

Um 4.000 einstaklingar hafa náð hámarksþaki lyfjakostnaðar innan 12 mánaða tímabils og verið varðir fyrir frekari kostnaði því sjúkratryggingar greiða eftir það lyf viðkomandi að fullu þar til greiðslutímabilinu lýkur. Flestir í þessum hópi eru elli- eða örorkulífeyrisþegar.

Greiðsludreifing

Þeir sem kaupa lyf borga þau fullu verði upp að tiltekinni fjárhæð í byrjun hvers 12 mánaða tímabils en eftir það taka sjúkratryggingar þátt í stærstum hluta kostnaðarins. Til að mæta upphafskostnaðinum getur fólk sótt um greiðsludreifingu og hafa verið gerðir um 1.000 slíkir samningar frá því að kerfið tók gildi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum