Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

VERA: Ný vídd í þjónustu heilsugæslunnar

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Stórmerkilegur áfangi sem tengist áætluninni Betri heilbrigðisþjónustu var kynntur í liðinni viku þegar heilbrigðisupplýsingagáttin VERA var opnuð við Heilsugæslustöðina í Glæsibæ. Með VERU er opnað fyrir öruggan rafrænan aðgang einstaklinga að margvíslegum upplýsingum um eigið heilsufar og meðferð. Í lok nóvember verður hún orðinn hluti af þjónustu allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og í febrúar á heilbrigðisstofnunum um allt land. Þar með verður hún aðgengileg öllum landsmönnum. Síðar er stefnt að innleiðingu VERU á sjúkrahúsum og einkareknum læknastofum.

Það er óumdeilt að þurfi fólk á heilbrigðisþjónustu að halda næst bestur árangur taki það sjálft virkan þátt í meðferðinni og sé vel upplýst um hvað í henni felst. Aukin notkun upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni eykur öryggi sjúklinga og skilvirkni og gæði þjónustunnar. Áætlunin Betri heilbrigðisþjónusta sem ég kynnti í byrjun þessa árs felur í sér nokkur stór verkefni sem öll hafa öryggi, gæði og aukna skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar að markmiði. Það er ánægjulegt að sjá góða uppskeru líta dagsins ljós með opnun VERU en ég mun á næstunni kynna stöðu fleiri verkefna.

Merkur áfangi og miklir framtíðarmöguleikar

Sjúklingar eiga rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá og upplýsingum um eigin lyfjanotkun. Opnun VERU er fyrsta skrefið að því að veita fólki greiðan aðgang að þessum upplýsingum. Til að byrja með er í VERU hægt að sjá upplýsingar um stöðu lyfseðla í lyfjagátt, endurnýjun lyfja og sögu um lyfjanotkun, upplýsingar um bólusetningar og skráð ofnæmi ef því er að skipta. Sömu upplýsingar um börn yngri en fimmtán ára eru aðgengilegar foreldrum eða forráðamönnum þeirra. Jafnramt getur fólk pantað tíma á heilsugæslunni í gegnum VERU.

Það eru ekki fyrst og fremst upplýsingarnar sem VERA veitir nú þegar sem fela í sér merkan áfanga, heldur ekki síður ávinningurinn sem felst í þeim tæknilegu lausnum, hönnunarvinnu og öryggisprófunum sem eru að baki og hafa gert VERU að veruleika. Eftir því sem fram líða stundir verður aukið við upplýsingar í gáttinni. Nefna má mælingar vegna hækkaðs blóðþrýstings og sykursýki, upplýsingar tengdar mæðravernd, notkun hreyfiseðla o.s.frv. Möguleikar á eftirliti með heilsufari og meðferð aukast við þetta. Upplýsingar um komur á heilbrigðisstofnanir, legur, aðgerðir, sjúkdómsgreiningar og rannsóknir er einnig það sem koma skal eftir því sem þróun VERU miðar áfram.

Tækifærin sem felast í VERU til framtíðar eru trúlega meiri en hægt er að sjá fyrir. Eitt er þó víst að stöðugar framfarir í upplýsingatækni og heilbrigðistækni með öruggum gagnvirkum samskiptum hafa þegar haft mikil áhrif á þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í dag og sú þróun mun halda áfram.

Augljósir kostir

Kostur á rafrænni beiðni sjúklinga um lyfjaendurnýjun í gegnum VERU sparar tíma heilbrigðisstarfsfólks og fólk getur komið beiðninni á framfæri hvenær sem því hentar í stað þess að vera háð ákveðnum símatímum. Aðgangur fólks að lyfjaupplýsingum með tilheyrandi leiðbeiningum um notkun lyfja sem það notar er augljós kostur. Sama máli gegnir um skráðar upplýsingar um ofnæmi sem fólk getur séð og komið upplýsingum á framfæri ef skráningu vantar. Þessi atriði geta skipt geysilega miklu um örugga meðferð sjúklinga.

Að VERA eða ekki vera...

Samtengd rafræn sjúkraskrá er eitt af stórum verkefnum áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónusta. Áhersla er lögð á markvissa þróun upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu og samnýtingu upplýsinga til að auka gæði, öryggi, hagkvæmni og skilvirkni. Af mörgum brýnum verkefnum tel ég þetta eitt hið mikilvægasta og hyggst því auka fjárframlög til þess á næsta ári, eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að framtíð heilbrigðisþjónustunnar veltur að mörgu leyti á því hve vel okkur tekst að þróa og nýta kosti upplýsingatækninnar.

Embætti landlæknis sem ber ábyrgð á þróun upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu, hefur þróað VERU í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software. Strangar öryggiskröfur gilda um aðgang að gáttinni sem krefst því rafrænna skilríkja. Ég hvet fólk til að afla sér þeirra og nýta sér þessa mikilvægu upplýsingagátt frá upphafi. Um ávinninginn af VERU leikur enginn efi.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum