Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2014 Forsætisráðuneytið

Ávarp á málþingi Jafnréttissjóðs, Kyn og fræði - ný þekking verður til

Stjórn Jafnréttissjóðs, forsætisráðherra og styrkþegar
Stjórn Jafnréttissjóðs, forsætisráðherra og styrkþegar

Fundarstjóri, frú Vigdís Finnbogadóttir og góðir fundargestir
Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur við þessa dagskrá Jafnréttissjóðs, sem er tvíþætt að venju. Í fyrsta lagi veitist mér sá heiður að afhenda fjóra styrki úr Jafnréttissjóði og í öðru lagi að hlýða á erindi styrkþega fyrri ára þar sem þeir gera grein fyrir rannsóknarniðurstöðum sínum. Ég verð þó líklega að yfirgefa samkomuna áður en henni lýkur þar sem föstudagsmorgnar eru fastir fundartímar ríkisstjórnarinnar.

Jafnréttissjóður er vistaður í forsætisráðuneytinu og hefur verið frá upphafi en á 30 ára afmæli kvennafrídagsins, 24. október 2005, tók þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þá ákvörðun með stuðningi ríkisstjórnarinnar að koma þessum sjóði á fót. 

Sjóðurinn var kynntur sem gjöf til jafnréttis- og kvennahreyfingarinnar í landinu og þakklætisvottur fyrir það afl, frumkvæði  og nýsköpun sem í henni hefði falist til framfara, mannréttinda og almennrar velsældar í samfélagi okkar. 

Ísland er eins og við vitum leiðandi á heimsvísu á sviði jafnréttis kynjanna. Í fimm ár í röð hefur Ísland skipað efsta sætið á lista Alþjóða efnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttis kynjanna í heiminum, en það mat byggir á sextán mælikvörðum á sviði vinnumarkaðar, menntunar, heilbrigðismála og stjórnmálaþátttöku. 

Um margra ára skeið hafa erlendir blaðamenn, fræðimenn og áhugafólk líka, leitað hingað og spurt: Hvernig getur það verið að hér á landi er atvinnuþátttaka kvenna mest miðað við OECD löndin, vinnutíminn einna lengstur, fæðingartíðnin hæst og konur hafa náð svo langt sem raun ber vitni í forystusætum? 

Þetta land átti fyrsta þjóðkjörna kvenforsetann. Fæðingarorlof feðra vekur heimsathygli – ekki bara að rétturinn skuli vera til staðar heldur ekki síður að íslenskir feður nýta þennan rétt sinn nánast til fullnustu og atvinnulífið hefur fyrir löngu aðlagað sig því. Notuð eru orð eins og ofurkonur, ofurmæður, ofurfeður, ofurfjölskyldur.

Íslenskt fræðafólk, stjórnmálafólk og aðrir lenda oft í þeirri skemmtilegu stöðu þegar það mætir á alþjóðlega jafnréttisviðburði eða ráðstefnur, að njóta mikillar athygli og aðdáunar fyrir framlag Íslands og þjóðarstoltið margfræga, sem er okkur flestum sameiginlegt, innifelur gleðina yfir þeim árangri sem við höfum náð á vettvangi jafnréttismálanna.

Svo förum við heim og vinnum áfram að því að halda þeirri stöðu sem við höfum náð og því að ná enn meiri árangri. Við megum aldrei láta staðar numið og verkefnin eru næg. Samfélagið er aldrei í kyrrstöðu, við þurfum sífellt að þróa það áfram – og við þurfum ekki síst að bera kyndilinn áfram til næstu kynslóða.

Eitt af þeim sviðum sem Alþjóða-efnahagsráðið mælir ekki, vegna skorts á áreiðanlegum samanburðartölum,  er kynbundið ofbeldi.  Samt er það líklega sá þáttur sem hefur einna mest neikvæð áhrif á líf kvenna um heim allan, kemur í veg fyrir að þær njóti réttinda sinna, atorku og hæfileika til fulls, og er mikil ógn við heilbrigði þeirra, barna þeirra og heilu samfélaganna. 

Konur um heim allan hafa skorið upp herör gegn kynbundnu ofbeldi. Umræðan hefur þróast frá því að einblína á þolendur yfir á gerendur. Á sama tíma og konur vilja ekki lengur búa við það að ofbeldið sé þeirra mál eingöngu, málefni þolendanna eingöngu og kalla á þátttöku karla í umræðunni, hafa margir karlar veigrað sér við að taka þátt í henni.

Íslendingar með utanríkisráðherrann í broddi fylkingar hafa nú ákveðið að nýta þann sess sem þjóðin hefur alþjóðlega - sem ríki sem á er hlustað á sviði jafnréttismálanna – til að taka þessa umræðu á alþjóðavettvangi.  

Í lok september tilkynnti utanríkisráðherra í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að Ísland hygðist í samstarfi við Surinam efna til ráðstefnu í New York í byrjun næsta árs þar sem karlar kæmu saman til að ræða kynjajafnrétti og framlag karla til að bæta stöðu kvenna í heiminum. Á ráðstefnunni verður sérstaklega fjallað um kynbundið ofbeldi. Það óvenjulega við þessa ákvörðun um karlaráðstefnuna, sem var gefið nafnið Rakarastofan, er ekki það að boðað skuli til jafnréttisráðstefnu karla. 

Frú Vigdís Finnbogadóttir lagði fram slíka tillögu árið 2004 og varð hún til þess að Árni Magnússon þáverandi félagsmálaráðherra stóð fyrir slíkri ráðstefnu í Salnum í Kópavogi ári síðar undir heitinu Karlar um borð. Eftir því sem ég kemst næst var hún þriðja ráðstefnan hérlendis sem miðaði við þátttöku karla eingöngu, sú fyrsta var 1997. 

Frú Vigdís vildi að karlaráðstefnur yrðu haldnar á heimsvísu. Nú er skrefið stigið. Hið óvenjulegasta við væntanlega karlaráðstefnu er fyrst og fremst það að í henni felst að kynbundið ofbeldi skuli rætt af körlum á heimsvísu. 

Umræðuefnið er brýnt og nauðsynlegt, en um leið finnum við að það telst ögrandi og jafnvel óviðeigandi í sumum heimshlutum. Við vonum að ráðstefnan takist vel og opni á umræðuna víða um heim.

Annað svið sem ég vil nefna þar sem við höfum látið til okkar taka á alþjóðavettvangi á sviði jafnréttis, svo eftir er tekið, er stuðningur íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar allrar við UN Women, þá stofnun Sameinuðu þjóðanna sem sinnir málefnum kvenna og stúlkna um allan heim.

UN WOMEN er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem Ísland leggur mest fé til. Ísland er eina ríki heims sem forgangsraðar stuðningi sínum við stofnanir Sameinuðu þjóðanna á þennan hátt. 

Það gerir það að verkum að landsnefnd UN Women á Íslandi er þriðja veltumesta landsnefnd UN Women í heiminum öllum í peningum talið. Nýlega hratt UN Women af stað herferðinni HEforSHE þar sem markmiðið er að safna undirskriftum karla gegn kynbundnu ofbeldi um allan heim. 

Þrátt fyrir gagnrýni á átakið, m.a. málfræðilega, mun það vonandi hjálpa til við að vekja athygli á því að jafnrétti sé málefni allra. 

Markmiðið er sett á milljarð undirskrifta í júní á næsta ári. 8040 íslenskir karlar hafa skrifað undir og eru íslenskar undirskriftir í tölum talið næstflestar, aðeins í Bretlandi eru undirskriftirnar fleiri. Og meðal þeirra sem reglulega borga styrktarframlag til UN Women á Íslandi er þriðjungurinn karlar.  

Kæru gestir
Ég hlakka til að heyra erindin sem hér verða flutt á eftir til kynningar á nýjum rannsóknarniðurstöðum. Stjórn Jafnréttissjóðs  þakka ég starfið og vænti þess að fá að heyra í þeim sem munu hér á eftir veita styrkjum viðtöku á málþingi sjóðsins að ári. 

Til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum