Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2014 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþing

Norðurlandaráðsþing verður sett á morgun, þriðjudag, í Stokkhólmi og mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra taka þátt í störfum þingsins og ráðherrafundum þeim tengdum. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja fundi í aðdraganda þings Norðurlandaráðs og fer fundurinn fram nú síðdegis. Meðal fundarefna eru ýmis Evrópumál, málefni Úkraínu og staða mála í Írak og Sýrlandi.

Í fyrramálið munu forsætisráðherrar Norðurlandanna funda í eigin ranni um loftslagsmál, málefni norðurslóða, öryggismál og þróunarmál og síðar um morguninn með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja um ýmis norræn málefni. Einnig munu forsætisráðherrarnir funda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Forsætisráðherra Íslands mun stýra fundum forsætisráðherranna, en Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014.

Síðla þriðjudags verður Norðurlandaþingið sett og mun forsætisráðherra taka þátt í umræðu um þróun Norðurlandasamstarfsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum