Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2014 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tekur þátt í störfum Norðurlandaráðsþings og ráðherrafundum

Norrænir forsætisráðherrar á fréttamannafundi í Stokkhólmi
Norrænir forsætisráðherrar á fréttamannafundi í Stokkhólmi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók þátt í störfum Norðurlandaráðsþings, sem sett var í dag í þinghúsinu í Stokkhólmi. Flutti ráðherra meðal annars ræðu um þróun Norðurlandasamstarfs og tók þátt í þingumræðum.

Í morgun stýrði ráðherra fundum forsætisráðherra Norðurlandanna og gerði grein fyrir áherslum Íslands í málefnum norðurslóða. Í máli sínu lagði forsætisráðherra áherslu á samvinnu norðurskautsríkja, ekki síst innan Norðurskautsráðsins, og sjálfbærni þegar horft er til þróunar á svæðinu. Á fundinum voru einnig loftslagsmál, samstarf í Barentsráðinu, þróunarmál, Ebólu-faraldurinn í vestanverðri Afríku og öryggis- og varnarmál til umræðu.

Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna með formönnum heimastjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja og leiddi forsætisráðherra umræðu um formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Þykir formennska Íslands hafa tekist vel til, en lögð var meðal annars áhersla á norræna lífhagkerfið, velferðarvaktina og norræna spilunarlistann á formennskutímabilinu, sem lýkur um næstu áramót. Á fundinum var ennfremur rætt um þróun mála á norðurslóðum og Norðurlöndin sem vörumerki. Þá var fundað með forsætisnefnd Norðurlandaráðs um stjórnsýsluhindranir og önnur norræn málefni.

Í gærkveldi stýrði forsætisráðherra svo fundi forsætisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þar voru tekin fyrir brýn alþjóðamál, t.d. staða mála í Írak og Sýrlandi og ástandið í Úkraínu, en einnig málefni innan Evrópu, þ.m.t. tilvonandi formennska Lettlands í Evrópusambandinu, hugmyndir um innri stafrænan markað og viðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslun og fjárfestingar.

Það kemur í hlut Íslands að skipuleggja Norðurlandaráðsþing á næsta ári, en formennska í Norrænu ráðherranefndinni verður í höndum Dana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum