Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. október 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reykjavíkurborg hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014

Hús í Reykjavík
Byggingar í Reykjavík.

Reykjavík hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014 við verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í kvöld. 

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund danskra króna. það var verðlaunahafi síðasta árs, Selina Juul, sem afhenti verðlaunin í ráðhúsinu í Stokkhólmi. 

Hún las jafnframt upp rökstuðning dómnefndarinnar sem er á þessa leið: „Reykjavíkurborg hlýtur verðlaunin fyrir víðtækt og markvisst starf sveitarfélagsins að umhverfismálum Það sama má segja um ýmsa aðra af þeim sem tilnefndir voru, en Reykjavíkurborg hefur einnig gert ýmislegt sem hún er ein um og sem getur orðið öðrum innblástur. 

Reykjavík hefur náð góðum árangri á mörgum sviðum. Íbúafjöldinn og landfræðileg lega borgarinnar hefur hjálpað til, en mikið af því markverðasta sem gert hefur verið má rekja til aðdáunarverðra og markvissra aðgerða. 

Í Reykjavík hefur um langt skeið verið unnið að þróun umhverfisvænnar nýtingar neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita. Borgin hefur jafnframt framfylgt þeirri stefnu að nota svæði sem ekki eru nýtt til annars, eða þar sem á að byggja síðar, í „grænum“ tilgangi til að koma í veg fyrir að þau verði gerð að bílastæðum. 

Og þrátt fyrir að Reykjavík sé lítil borg ganga 87% ökutækja sveitarfélagsins fyrir rafmagni eða gasi. Við vitum ekki af neinum sveitarfélögum sem hafa nálægt því eins umhverfisvænan bílaflota. 

Reykjavíkurborg hefur um langt skeið átt í samstarfi um eftirlit og verndun vatnsbóla og er nú eina höfuðborg Norðurlanda þar sem öll hús hafa aðgang að ómeðhöndluðu drykkjarvatni í háum gæðaflokki. 

Vegna þess víðtæka umhverfisstarfs sem innt er af hendi með langtímasjónarmið að leiðarljósi, markvissrar vinnu með umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita er Reykjavíkurborg verðugur handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014.“

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar Reykjavíkurborg hjartanlega til hamingju með verðlaunin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum