Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. október 2014 Innviðaráðuneytið

Margar ástæður nefndar fyrir minnkandi kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum í vor

Enginn flokkur í framboði í mínu sveitarfélagi höfðaði til mín, mér fannst of margir flokkar vera í framboði, mér fannst ekki skipta máli hver yrði kosinn í sveitarstjórn, ég taldi að atkvæði mitt myndi ekki hafa áhrif á úrslit kosninganna. Allt eru þetta ástæður sem fram komu í svörum kjósenda í rannsókn á ástæðum fyrir minnkandi kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor.

Skýrsla um rannsókn á dræmri kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum 2014 var kynnt í innanríkisráðuneytinu í dag.
Skýrsla um rannsókn á dræmri kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum 2014 var kynnt í innanríkisráðuneytinu í dag.

Skýrsla um rannsóknina ber heitið: Sveitarstjórnarkosningar 2014: Hverjar eru ástæður dræmrar kjörsóknar? Voru niðurstöður kynntar á fundi í innanríkisráðuneytinu í dag. Við upphaf kynningarinnar sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra nokkur orð og lýsti yfir áhuga á að framhaldi yrði á samstarfi þessar aðila varðandi rannsóknir á kosningum og framkvæmd þeirra og þróun lýðræðisins og sagði að þar lægu án efa frekari rannsóknarverkefni. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sagði brýnt að hafa ráðist í þessa könnun strax á liðnu sumri.

Skýrsla um rannsókn á dræmri kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum 2014 var kynnt í innanríkisráðuneytinu í dag.Í skýrslunni eru birtar fjölmargar töflur um niðurstöður einstakra þátta bæði um svarendur, svo sem um kyn, menntun, tekjur og síðan um afstöðu til kosningaþátttöku og ástæður fyrir því að ekki var kosið. Spurt var um ástæður þess að kjósendur kusu ekki og settar fram nokkrar fullyrðingar: Enginn flokkanna í mínu sveitarfélagi höfðaði til mín – og sögðu 41% svarenda að það ætti mjög vel eða frekar vel við um þá; mér fannst of margir flokkar vera í framboði – og sögðu 23% svarenda þetta eiga mjög eða frekar vel við um sig; mér fannst ekki skipta máli hver yrði kosinn í sveitarstjórn – og sögðu 32% að þetta ætti mjög eða frekar vel við sig; ég nennti því ekki – og sögðu 30% svarenda að það ætti mjög eða frekar vel við sig.

Net- og símakönnun

Rannsóknin er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar HÍ og doktorsnema við Háskólann í Mannheim í Þýskalandi. Sambandið og ráðuneytið fjármögnuðu framkvæmdina og grunnúrvinnslu en háskólarnir hina fræðilegu vinnu að öðru leyti.

Undirbúning og gagnaöflun önnuðust Eva Heiða Önnudóttir, Grétar Þór Eyþórsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Hafsteinn Einar Birgisson, Ólafur Þ. Harðarson og Viktor Orri Valgarðsson. Könnunin var bæði net- og símakönnun og alls voru 5 þúsund manns í úrtaki. Fór hún fram á tímabilinu 9. júní til 2. september. Alls svöruðu 3.402 og er svarhlutfall 70%.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum