Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. nóvember 2014 Forsætisráðuneytið

Ungmenni hitta ríkisstjórnina

Fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra ásamt ungmennum.
Fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra ásamt ungmennum.

Þann 20. nóvember næstkomandi verður 25 ára afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna haldinn hátíðlegur. Af því tilefni hittu sex ungmenni, fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF og fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns barna ríkisstjórnina og ræddu um málefni sem varða sáttmálann og hagsmuni barna. Hópinn skipuðu Bjartur Thorlacius, Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir, Kristján Helgason, Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, Lilja Reykdal Snorradóttir og Sara Mansour. 

Hópurinn er á aldrinum 14 til 18 ára og nýttu ungmennin tækifærið til að ræða við ríkisstjórnina um þau mál sem brenna á þeim. Margt bar á góma og ungmennin gerðu meðal annars að umræðuefni mikilvægi þess að samráð sé haft við börn og ungmenni um málefni sem þau varða, sem þeim fannst oft á tíðum skorta á. Einnig ræddu þau menntamál, stjórnmál, heilbrigðis- og velferðarmál og eineltismál. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði mjög ánægjulegt að fá tækifæri til þess að hlýða á ungmennin og ekki síst að heyra hve mikla áherslu þau leggja á praktíska nálgun í námi s.s. varðandi samfélagið, stjórnmál og fjármál. ,,Það er alltaf gott fyrir ráðherra og þingmenn að hlusta meira á yngri kynslóðir og heyra um þeirra sýn á lífið því þau eru jú sérfræðingar á sínu sviði, að vera börn," sagði forsætisráðherra að afloknum fundi.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur af allsherjaráði SÞ í New York þann 20. nóvember 1989. Hann tók gildi 2. september 1990 og var fullgiltur á Íslandi 1992 eftir breytingar á viðeigandi lögum. Sáttmálinn hefur haft mikið gildi hvað varðar löggjöf, en einnig í framkvæmd og er þekking barna á barnasáttmálanum nú orðið formlegt viðmið í skólakerfinu svo dæmi sé tekið. Með lögum nr. 19/2013 varð Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna að lögum á Íslandi. Með lögfestingunni öðlaðist sáttmálinn enn aukið vægi í íslensku samfélagi. 

Eins og áður segir þá verða 25 ár liðin frá samþykkt samningsins 20. nóvember nk. Í tilefni af því hefur undirbúningsnefnd með fulltrúum Íslandsdeildar UNICEF, Barnaheilla- Save the Children á Íslandi, Umboðsmanns barna og forsætis-, velferðar-, mennta- og menningamála- og innanríkisráðuneyta undirbúið afmælisveislu sem haldin verður í Laugarlækjarskóla þann 20. nóvember nk. Mennta- og menningamálaráðherra hefur sent öllum skólum og stofnunum á landinu erindi þar sem hann hvetur til þess að afmælisdagurinn verði haldinn hátíðlegur. 

Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt á fundi sínum í morgun að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði hafður til hliðsjónar við alla stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku á vegum stjórnvalda. Utanríkisráðuneytinu hefur verði falið að upplýsa viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna um lögfestingu barnasáttmálans og afnám fyrirvara íslenskra stjórnvalda við 37. gr. samningsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum