Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. nóvember 2014 Utanríkisráðuneytið

Óskað heilla 

Kristín A. Árnadóttir í Helsinki
Kristín A. Árnadóttir

Í vikunni bárust fréttir af því að skipaður hefði verið nýr utanríkisráðherra Eistlands, Keit Pentus-Rosimannus. Hún tekur við embætti af Urmas Paet sem sagði af sér í byrjun nóvember. Þá lýsti hann því yfir að níu og hálft ár í embætti væri langur tími, og breytingar væru tímabærar. Samt er Urmas Paet kornungur, fertugur á þessu ári, og tók fyrst við ráðherraembætti 2003. Keit Pentus-Rosimannus er svo sem ekki komin til ára sinna, hún er fædd 1976.

Fréttirnar um ráðherraskiptin og ungur aldur ráðherranna leiða hugann að því hve miklum árangri Eistar hafa náð í þróun lýðræðis og samfélags á síðustu áratugum. Margt kemur til, m.a. þetta: í fyrsta lagi að eftir endurheimt sjálfstæði horfðu Eystrasaltsríkin þrjú til Norðurlandanna sem fyrirmyndar, í öðru lagi var horft þangað og til Evrópu um náin tengsl, og í þriðja lagi má svo nefna að í Eistlandi var stokkað upp í stjórnkerfi landsins, gömlu valdaklíkunni skipt út og nýtt fólk tók við keflinu. Þetta var liður í að stokka upp frá grunni, slíta hagsmuna- og valdatengsl,  og um leið liður í því að uppræta landlæga spillingu. Ungt og vel menntað fólk hefur sett mark sitt á samfélagsuppbyggingu, en þó hefur þar, eins og víðast annars staðar, farið mun minna fyrir færum konum en hollt er samfélagi í örri þróun. Skipun Keit er vonandi tímanna tákn en í nágrannaríkinu sem Eistar horfa gjarnan til, Finnlandi, eru nú tíu af sautján ráðherrum konur.

Þetta leiðir svo aftur hugann að Úkraínu sem nú stendur á tímamótum. Þar hafa verið gefin skýr fyrirheit um umbætur að vestrænni fyrirmynd. Allt veltur nú á því að staðið verði við áform um upprætingu spillingar og umbótum ekki frestað í skjóli þess að við margt er að etja í því hrjáða landi.

Það er áhyggjuefni að endurnýjunar gætir aðeins að litlu leyti í stjórnmálum og stjórnkerfi Úkraínu og efast margir um að árangur náist á meðan svo er. Í þessu samhengi er það kannski líkt og að nefna snöru í hengds manns húsi að vísa til kvenna sem mikilvægra þátttakanda í endurreisn samfélaga, með hliðsjón af frammistöðu forystukonunnar Júlíu Tímósjénkó, sem var sökuð um að gefa gírugustu körlum ekkert eftir. En lögmálið gildir, jafnræði og jafnvægi þarf að tryggja ef árangur á að nást.

En aftur að Eistlandi. Fyrsta embættisverk Keit Pentus-Rosimannus á erlendri grundu er að funda með utanríkisráðherra Lettlands í Riga. Það er táknrænt, og Eystrasaltsríkin snúa þessa dagana bökum saman. Öryggi þeirra stafar ógn af þróun mála í austri, og ástandið í Úkraínu liggur eins og mara á fólki í samfélögum sem hafa fært miklar fórnir fyrir sjálfstæði sitt og frelsi.

Ástæða er til að óska leiðtogum og forystufólki í umbrotasamfélögum alls hins besta, og ekki síður að orðum fylgi athafnir líkt og verið hefur í samskiptum Íslands við Eystrasaltsríkin allt frá því að þau endurheimtu sjálfstæði sitt – og ríkulega hefur verið ítrekað við Úkraínu á liðnu ári.  Því er ekki að neita að hjarta undirritaðrar slær núna með nýrri konu við stjórnvölinn í utanríkisráðuneytinu í Tallinn - sem stendur við Íslandstorg númer eitt.


Kristín A. Árnadóttir er sendiherra Íslands í Helsinki

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum