Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. desember 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dregið verði úr hormónaraskandi efnum í umhverfinu

Krem

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur fyrir hönd umhverfisráðherra á Norðurlöndum, sent framkvæmdastjórum umhverfis-, heilsu- og neytendamála hjá Evrópusambandinu hvatningu um að móta aðgerðir til að stemma stigu við hormónaraskandi efnum í vinnu við áætlun um eiturefnalaust umhverfi árið 2018. Þetta er gert til að fylgja eftir nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem áhrif efnanna eru greind og mat lagt á hvað það kostar samfélagið að hafast ekki að til að fyrirbyggja og draga úr notkun þeirra.

Málið var til umræðu á fundi norrænu umhverfisráðherranna og var niðurstaða ráðherranna  sú að fela Sigurði Inga, sem formanni norræna ráðherraráðsins í umhverfismálum, að senda bréf varðandi það. Í þeim er hvatt til þess að Evrópusambandið grípi til aðgerða til að draga úr notkun og áhrifum hormónaraskandi efna.

Í skýrslunni kemur fram að árlegur kostnaður Evrópuríkja af veikindaleyfum og auknu álagi á heilbrigðiskerfið vegna áhrifa hormónaraskandi efna nemi að minnsta kosti 4,5 milljörðum danskra króna.  Í skýrslunni er sérstaklega horft til áhrifa efnanna á kynheilsu karla svo sem krabbameins í eistum, ófullnægjandi sæðisgæða og tveggja tiltekinna fæðingargalla í kynfærum sveinbarna. Eru þá ótalin ýmis önnur áhrif efnanna á heilsu karla og kvenna.

Hormónaraskandi efni finnast í lágum styrk í fjölda venjulegra heimilisvara. Þessi efni geta haft áhrif á hormónakerfi líkamans. Áhrif þeirra eru margvísleg, allt frá fæðingargöllum af ýmsu tagi og efnaskiptavandamálum til krabbameina. Efnin geta einnig haft áhrif á þroska fóstra í móðurkviði frá getnaði til myndunar fullþroska nýbura sem og á kynþroska barna og unglinga. Hormónaraskandi efni hafa einnig víðtæk áhrif í umhverfinu og á öll spendýr, en mest er athyglin á skaðsemi þeirra á sæðisframleiðslu karla, kyngetu og krabbameina í eistum, blöðruhálskirtli og brjóstum.

Skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar um hormónatruflandi efni – The Cost of Inaction 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum