Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. desember 2014 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórninni  afhent tillaga að stefnumótun um rafbílavæðingu Íslands ásamt aðgerðaáætlun

Ríkisstjórnin og fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands
Ríkisstjórnin og fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands

Fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands afhentu að loknum ríkisstjórnarfundi í dag Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, og Ragnheiði Elínu Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tillögur sínar að stefnumótun um rafbílavæðingu Íslands ásamt aðgerðaáætlun og greinargerð. 

Í framhaldi af ávarpi forsætisráðherra á ráðstefnu rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) þann 13. nóvember sl.  varð það að samkomulagi að RVFÍ skipaði starfshóp til að vinna tillögur um rafbílavæðingu Íslands. Starfshópurinn hefur nú lokið þessari vinnu. Leitað var álits margra hagsmunaaðila og jafnframt voru nýttar ábendingar fyrirlesara og þátttakenda í pallborðsumræðum á fyrrgreindri ráðstefnu.

Starfshópur RVFÍ telur rafbíla vænlegan kost fyrir Íslendinga til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta vistvæna innlenda orkugjafa með tilheyrandi bættum þjóðarhag. 

Forsætisráðherra þakkaði starfshópnum fyrir hve skjótt hefði verið brugðist við og fagnaði tillögunum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði að tillögurnar yrðu teknar til frekari úrvinnslu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og tengdar þeirri vinnu sem unnin hefði verið undir merkjum grænnar orku.

Hópurinn sem afhenti tillögurnar var skipaður eftirtöldum aðilum: Kristinn Andersen, formaður Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ), Kjartan T. Hjörvar formaður RVFÍ og Árni B. Björnsson framkvæmdastjóri VFÍ.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum