Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. desember 2014 Dómsmálaráðuneytið

Umfangsmiklar breytingar á umdæmum sýslumanna og lögreglu í gildi um áramót

Hinn 1. janúar breytast umdæmamörk embætta sýslumanna og lögreglu í landinu þegar umdæmum sýslumanna fækkar úr 24 í 9 og umdæmum lögreglu úr 15 í 9. Þetta eru umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á þessum embættum á síðari áratugum. Undirbúningur hefur staðið lengi yfir og stjórnvöld áttu víðtækt samráð við fjölmarga aðila í aðdraganda breytinganna.

Hér sjást nýju umdæmamörkin og skrifstofur embættanna í hverju umdæmi.
Hér sjást nýju umdæmamörkin og skrifstofur embættanna í hverju umdæmi.

Á vefjum embættanna sem verið er að uppfæra má sjá nánari umfjöllun um umdæmin og þjónustu þeirra:

Forsagan                                               

Endurskipulagning sýslumannsembættanna á sér langan aðdraganda en strax á tíunda áratug síðustu aldar heyrðust raddir í röðum sýslumanna sem vildu breyta því rekstrarfyrirkomulagi sem haldist hefur lengi vel. Alloft hefur verið byrjað að hreyfa við endurskoðun en verkefnið ekki náð fram að ganga af fullum krafti fyrr en nú. Með breyttri skipan lögregluembætta frá 2007 hefur það þótt sýna sig að ef vel ætti að vera mætti ekki skilja sýslumannsembættin eftir óbreytt þar sem starfsemi þessara embætta er samofin. 

Undirbúningur

Íslensk stjórnsýsla hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Ríkar kröfur eru um öfluga,  gagnsæja, óháða og sterka en einfalda stjórnsýslu. Í málaflokkum sýslumanna og lögreglu hefur verið talið að óháð stjórnsýsla sýslumanna eigi ekki samleið með eftirliti og framkvæmd löggæslu. Nýskipan embættanna er liður í að mæta þessum kröfum og móta öflugri stofnanir sem eru enn hæfari til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Á undirbúningstímanum hefur farið fram víðtækt samráð stjórnvalda meðal annars við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og ýmsa hagsmunaaðila. Þá hafa verið haldnir fjölmargir fundir víða um landið með þessum aðilum og hafa setið þá af hálfu ráðuneytisins bæði innanríkisráðherra og sérfræðingar á viðkomandi sviðum.

Markmið með breytingum á umdæmaskipaninni eru þessi:

Sýslumenn:

  • Auka faglegan styrk embættanna en jafnframt stækka þau og fækka þeim.
  • Auka hagkvæmni og bæta nýtingu fjármuna sem til embættanna fara.
  • Skýra verkaskiptingu, bæta þjónustu, árangur og auka sveigjanleika.
  • Auka tækifæri til að færa ný verkefni til sýslumanna.
  • Skapa heildstæða framtíðarsýn með stefnumótun sýslumanna.

Löggæslan:

  • Að standa vörð um grunnþjónustu lögreglunnar.
  • Að styrkja og efla starfsemi lögreglu.
  • Að auka samhæfingu og samstarf innan lögreglunnar um allt land.
  • Að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem varið er til löggæslu.
  • Að efla stjórnun innan lögreglu og gera lögreglustjóra kleift að sinna alfarið lögreglustjórn.
  • Hér sjást nýju umdæmamörkin og skrifstofur embættanna í hverju umdæmi.

Minnt er á að á vefjum embætta sýslumanna annars vegar og lögregluembættanna hins vegar má sjá hina nýju umdæmaskipan og ýmsar hagnýtar upplýsingar um starfsemi þeirra og þjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum