Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. janúar 2015 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Farið að áliti kærunefndar lausafjár- og þjónustu kaupa í færri tilvikum hérlendis en hjá nágrannaríkjum

Farið er eftir áliti kærunefndar lausafjár- og þjónustkaupa í mun færri tilvikum hérlendis en til dæmis í Noregi eða Danmörku samkvæmt nýrri skýrslu nefndarinnar þar sem þessi tölfræði hefur verið tekin saman. Árin 2011 til 2013 var farið eftir áliti nefndarinnar í 35% til 43% tilvika en til samanburðar má geta þess að í Noregi var árið 2013 farið að álitum nefndarinnar í 98% tilvika og 84% tilvika í Danmörku.

Árið 2013 bárust kærunefndinni alls 119 beiðnir um álit og fjölgaði úr 109 frá árinu 2012. Ágreiningsefnin 2013 vörðuðu í langflestum tilvikum eða í 76 málum lög um neytendakaup og í 13 málum lög um lausafjárkaup. Þá var 12 málum vísað frá nefndinni þar sem þau féllu ekki undir fyrrgreinda lagabálka.

Á síðasta ári var ráðist í könnun á því hvort farið væri að álitum kærunefndarinnar en slík könnun hafði ekki farið fram frá árinu 2008. Fékkst fjárveiting frá innanríkisráðuneytinu til könnunarinnar sem starfsmaður nefndarinnar annaðist. Kannað var hver úrslit þeirra mála urðu þar sem kærunefndin féllst á kröfur álitsbeiðanda í heild eða hluta og náði könnunin til áranna 2011 til 2013.

Í skýrslu kærunefndarinnar má sjá töflu á bls. 2 um niðurstöður mála allt frá árinu 2006. Könnunin leiddi í ljós að árið 2011 var farið eftir áliti nefndarinnar í 15 málum eða í 35% tilvika, árið 2012 í 14 málum eða 42% tilvika og árið 2013 í 16 málum sem eru 43% tilvika. Í skýrslunni segir að fylgni við álti sambærilegra kærunefnda á Norðurlöndunum sé mun meiri þar en hér á landi og ljóst að grípa þurfi til einhverra úrræða sé vilji til þess að auka fylgni við álit kærunefndarinnar. Einnig er bent á að heppilegra væri ef upplýsinga um fylgni við álit kærunefndar væri aflað með reglubundnum hætti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum