Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 2015 Forsætisráðuneytið

Afnám fjármagnshafta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands í dag.

Í ræðu sinni vék forsætisráðherra meðal annars að umfangi opinbera geirans, einföldun regluverks, launaþróun, jöfnuði, verðmætasköpun, samkeppnisstöðu Íslands, alþjóðaviðskiptum, alþjóðasamskiptum og fjármagnshöftum.

„Opinber þjónusta stendur undir 20 prósentum framleiðslu í hagkerfinu og hátt að þriðjungi starfa. Þótt hlutdeild hins opinbera í umsvifum samfélagsins hafi vaxið, aukast enn kröfur samfélagsins til ríkisins og sveitarfélaga, t.d. vegna tækniframfara, nýrra staðla, nýrra þarfa, aukinnar neytendaverndar og aukins eftirlits. Lýðfræðilegir þættir munu einnig setja aukinn þrýsting á opinber útgjöld á næstu áratugum, svo sem vegna fjölgunar aldraðra.“

Forsætisráðherra benti á að fámennið á Íslandi skapar einnig áskorun fyrir hið opinbera, bæði vegna þeirrar nauðsynjar að halda uppi innviðum og þjónustu í strjálbýlu landi en ekki hvað síst vegna þess mikla fasta kostnaðar sem er samfara því að viðhalda nútíma velferðarsamfélagi með auknum kröfum um þjónustu og aukinni stöðlun, regluverki og eftirliti.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórninni væri mjög umhugað um aðhald í ríkisrekstrinum og ábyrga fjármálastjórn. „Gamlir kunningjar sem við höfum ekki alltaf verið sátt við, lánshæfisfyrirtæki og alþjóðastofnanir, hafa lokið lofsorði á ríkisfjármálastefnuna á síðustu mánuðum. Það sem mestu máli skiptir er þó að trúverðug stefna í ríkisfjármálum er farin að skila sér í hagstæðari lánakjörum ríkissjóðs. Það þýðir að auðveldara verður fyrir ríkið að standa undir velferð í samfélaginu.“

Forsætisráðherra sagði að ríkið hefur ekki verið leiðandi í launaþróun að undanförnu. „Því hefur verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og að hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. Því fer fjarri. Tölulegar upplýsingar um launaþróun styðja ekki slíkar fullyrðingar.“ 

Forsætisráðherra benti á að á Íslandi væri ójöfnuður tekna einna minnstur í heiminum. Það sýndi  alþjóðlegur samanburður og hefði gert lengi.  „Við eigum að stefna að því að bæta samfélag okkar enn meira með markvissum aðgerðum til lengri tíma. Við höfum vonandi lært það af reynslunni að sígandi lukka er best. Við bætum ekki hag fólksins með því að draga tennurnar úr frumkvöðlum og atvinnurekendum því atvinnulíf og félagsleg velferð haldast í hendur. Öflugt atvinnulíf sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum að allir landsmenn búi við.“ 

Forsætisráðherra benti á að staða Íslands í samfélagi þjóðanna litast af fjármagnshöftum sem voru ill nauðsyn á sínum tíma. „Þrýstingur á að losa um höftin kemur ekki frá heimilunum því fæst þeirra finna fyrir þeim  með beinum hætti í daglegu lífi. Og þegar fjármagnshöft hafa verið við lýði í svo langan tíma er hætta á að okkur fari að líða vel í því skjóli sem þau veita. Í kringum höftin verður til iðnaður fólks, hverra hæfileikar væru betur nýttir í virðisaukandi starfsemi, verð á mörkuðum bjagast vegna þeirra, samkeppnishæfni þjóðarinnar rýrist, trúverðugleiki Íslands ber hnekki og þau gera okkur erfiðara um vik að skapa þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi ákjósanleg skilyrði til að búa á Íslandi.“

Forsætisráðherra benti á það í lok ræðu sinnar að losun haftanna væri í góðum farvegi. „Þar er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta til margra samverkandi þátta, en allir sem hér sitja þekkja að það er nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi haftanna að skuldaskilum fallinna banka sé lokið með þeim hætti að þau ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Af því verður enginn afsláttur gefinn.“

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í heild sinni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum