Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Alþingi samþykkir lagabreytingu vegna frestunar á nauðungarsölum

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um nauðungarsölur en innanríkisráðherra lagði frumvarp þessa efnis fyrir Alþingi síðastliðinn miðvikudag sem samþykkt var óbreytt. Í lögunum er heimilað að gerðarþoli sem sótt hefur um leiðréttingu fasteignaveðlána en hefur ekki fengið endanlega niðurstöðu varðandi umsókn sína geti óskað eftir fresti á nauðungarsölu. Heimildin fyrir sýslumann til að taka ákvörðun um frestun fellur niður 1. október 2015.

Skilyrðin fyrir því að sýslumaður geti frestað nauðungarsölu samkvæmt þessum lögum eru öll þau sömu og samkvæmt lögum nr. 94/2014. Þannig er gert að skilyrði að um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda sem og að gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili. Eins og áður getur gerðarþoli án samþykkis kröfuhafa óskað eftir fresti á því að framhald uppboðs verði ákveðið eða að það fari fram. Jafnframt verði með samþykki allra gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda unnt að fresta uppgjöri til kröfuhafa á fasteign sem seld hefur verið við framhald uppboðs en er enn í svokölluðum samþykkisfresti.

Þar sem þessi frestun nauðungarsölu er sérstaklega ætluð þeim sem sótt hafa um leiðréttingu en hafa ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu er einnig gert að skilyrði að gerðarþoli bíði endanlegrar niðurstöðu ríkisskattstjóra á umsókn sinni um leiðréttingu þannig að niðurstaðan sé tilbúin til samþykkis eða að hann hafi fengið niðurstöðu og kært hana til úrskurðarnefndar. Hafi umsækjandi gert athugasemdir við niðurstöðu ríkisskattstjóra telst hann ekki hafa fengið endanlega niðurstöðu á umsókn sinni. Sýslumanni er heimilt að fresta nauðungarsölu í allt að þrjá mánuði í senn. Þannig er unnt að fá frestinn oftar en einu sinni að því tilskildu að viðkomandi sýni fram á að hann hafi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu. Gerðarþola ber því ávallt að leggja fram með beiðni um frest staðfestingu á því að ríkisskattstjóri hafi ekki endanlega tekið ákvörðun um leiðréttingu eða að niðurstaða ríkisskattstjóra hafi verið kærð til kærunefndar. Ekki er unnt að fá frest í öðrum tilvikum, s.s. ef umsækjandi hefur fengið endanlega niðurstöðu ríkisskattstjóra en hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann samþykki niðurstöðu eða kæri eða hafi umsækjandi samþykkt niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum