Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. mars 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2015

 

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Hótel Selfossi 12. mars 2015.

 

 

 

 Ágætu slökkviliðsstjórar og aðrir góðir gestir

 

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag til að setja árlega ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Íslandi.

 

Með lögum um mannvirki sem tóku gildi í ársbyrjun 2011 tók til starfa Mannvirkjastofnun, sem var falið að fara með með málefni brunamála, rafmagnsöryggis og byggingarmála og vera umhverfis- og auðlindaráðherra til ráðgjafar í þessum mikilvægu málaflokkum sem varða öryggi fólks og mannvirkja.

 

Ráðuneytið hefur unnið að ýmsum endurbótum á regluverki  sem varðar starfsemi slökkviliðanna sem ég ætla hér að gera betur grein fyrir.  Ég tel víst að um þessi mál verði fjallað með einum eða öðrum hætti á þessari ráðstefnu.

 

Í janúar síðastliðnum mælti ég fyrir frumvarpi á Alþingi til nýrra laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

 

Markmið þess frumvarps er að tryggja öryggi og heilsu fólks, koma í veg fyrir eignatjón og draga úr mengun og skaða á umhverfinu, en frumvarpið tekur til ýmissa þátta, svo sem öryggis, brunavarna, mengunarmála og náttúruverndar.

 

Gert er ráð fyrir að sinubrennum verði settar þrengri skorður með frumvarpinu þó svo að niðurstaðan hafi ekki orðið sú að banna þær alfarið.

 

Einnig verður tekið betur á meðferð elds utandyra til að koma í veg fyrir gróðurelda sem geta valdið tjóni á umhverfinu og eignum. Þá er opnað fyrir möguleika sveitarfélaganna til að banna meðferð opins elds og sinubrennur á tilteknum svæðum með afmörkun í brunavarnaáætlun vegna hættulegra aðstæðna eins og t.d. geta verið í Skorradal og Grímsnesinu þar sem mikil byggð er samofin mikilli skógrækt.

 

Þá vil ég nefna að unnið hefur verið talsvert að endurbótum á reglum slökkviliðsmanna hvað varðar öryggismál. Gefin var út endurgerð reglugerð um hlífðarbúninga slökkviliðsmanna 2009 og árið 2013 tók svo gildi ný reglugerð um reykköfun sem hefur bein áhrif á starfsumhverfi slökkviliðsmanna.

 

Þær reglur sem nú gilda um reykköfun endurspegla kröfur nútímans um heilsu starfsmanna og til rekjanleika allra þátta við jafn hættuleg störf og reykköfun er.

 

Einnig hefur verið unnið að því að setja lágmarkskröfur um tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða. Ráðuneytið hefur unnið að að þessu máli í samvinnu við Mannvirkjastofnun, sveitarfélög og slökkviliðsstjóra. 

 

Í ráðuneytinu er nú verið að  fara yfir umsagnir sem bárust við drög að reglugerð um þessar mikilvægu kröfur til slökkviliða. 

 

Ég hef lengi unnið að sveitarstjórnarmálum og veit um þær skyldur sem hvíla á sveitarfélögunum, en starfsemi slökkviliða er ein af þeim mikilvægu skyldum. Það er von mín að við getum á þessu ári náð að skapa sameiginlega sýn og sátt um um þær reglur sem eiga að gilda um starfsemi slökkviliða. Verkefnum slökkviliða fjölgar stöðugt sem og kröfum sem varða starfsemi þeirra. Þetta er sama þróun og á sér stað alls staðar í löndunum í kringum okkur.

 

Meðal annarra breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum má nefna viðbrögð við mengunarslysum og björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum sem nú eru orðin lögbundin hlutverk slökkviliða.  Í áratug eða áratugi hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessum verkefnum. Það má því segja að slökkviliðin séu, og hafi verið, allsherjar björgunarþjónusta síns sveitarfélags. Þau eru kölluð út í öll möguleg verkefni þar sem beita þarf margs konar tækjum og verkfærum og krefst menntunar og þjálfunar á ýmsum sviðum.

 

Helsta markmið allrar þessarar starfsemi er að standa dyggan vörð um öryggi almennings og jafnframt að tryggja öryggi slökkviliðsmanna við störf sín samtímis sem hagræðis sé gætt. Þar er hlutur brunavarna í byggingum og eldvarnaeftirlits mikill en nefna má sem dæmi að brunatjón eru talin vera tæplega 2 milljarðar króna á ári hverju hér á landi. Því er óhætt að segja að þjóðhagslega hagkvæmt er að stuðla að góðum brunavörnum í mannvirkjum.

 

Þegar skoðaðar eru tölur um tjón af völdum eldsvoða á Íslandi og þær bornar saman við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar, kemur í ljós að manntjón af völdum eldsvoða eru um helmingi færri á íbúa hér á landi en í nágrannalöndunum. Það sama gildir yfirleitt um fjárhagslegt tjón vegna eldsvoða. Ég tel óhætt að fullyrða að hér eiga slökkviliðin í landinu hlut að máli.  Þau eru almennt að standa sig vel og slökkviliðsstjórar að sinna sínu starfi með prýði. Þegnarnir og atvinnulífið njóta góðs af þessum störfum.

Ég óska ykkur að lokum ánægjulegra og lærdómsríkra daga á þessari ráðstefnu og jafnframt farsældar í mikilvægum störfum ykkar í þágu öryggis fólksins í landinu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum