Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. mars 2015 Forsætisráðuneytið

Stjórnarráðið verði ávallt eftirsóttur vinnustaður

Frá Stjórnarráðsdeginum 2015
Frá Stjórnarráðsdeginum 2015

Aukið samstarf milli ráðuneyta, samræming og ímynd stjórnsýslunnar var meðal þess sem rætt var á Stjórnarráðsdeginum, sem haldinn var í fyrsta sinn á dögunum. Þar komu um 500 starfsmenn allra ráðuneyta saman til fundar sem var liður í þeirri viðleitni að efla samkennd, stuðla að aukinni samvinnu starfsmanna Stjórnarráðsins og bæta þjónustuna við almenning.  

Frá Stjórnarráðsdeginum 2015Heiðursgestur fundarins var Richard Heaton,  ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Bretlands. Hann flutti erindi um reynslu Breta af aukinni samhæfingu milli ráðuneyta og mikilvægi góðrar þjónustu við almenning.  Hann fjallaði meðal annars um nýjan þjónustuvef hins opinbera, GOV.UK, þar sem opinber þjónusta hefur verið gerð aðgengileg á einni vefgátt til þæginda fyrir notendur. Þá ræddi hann um stjórnsýsluna sem vinnustað og mikilvægi þess að hugað væri að ímynd hennar til að laða til sín og halda hæfileikaríku starfsfólki. 

Í umræðum að loknum fyrirlestrum var eindregið tekið undir þau sjónarmið og m.a. rætt hvernig stjórnsýslan gæti aukið þekkingu almennings á hlutverki hennar. Innan stjórnsýslunnar væri unnið af fagmennsku og  hæfileikaríkt fólk fengi að takast á við skemmtilegar áskoranir á góðum vinnustað.  Margir þátttakendur töldu þó að ímynd stjórnsýslunnar endurspeglaði ekki raunveruleikann og rétt væri að bregðast við því með aukinni kynningu. 

Frá Stjórnarráðsdeginum 2015Stjórnarráðsdagurinn var samstarfsverkefni allra ráðuneytana sem forsætisráðuneytið stofnaði til. Samkvæmt viðhorfskönnun meðal starfsfólks er mikil ánægja með viðburðinn og áhugi á að endurtaka hann að ári. Verkefnishópur sem skipaður er fulltrúum allra ráðuneyta mun vinna úr niðurstöðum dagsins og skila tillögum sínum til ráðuneytisstjóra til frekari úrvinnslu. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum