Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. apríl 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðtal við umhverfis- og auðlindaráðherra í Tímanum - Góðir hundrað dagar

Eftirfarandi viðtal við Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, birtist í Tímanum 11. apríl 2015.


Góðir hundrað dagar 

-mörg spennandi og fjölbreytt viðfangsefni

Sigrún Magnúsdóttir hefur starfað í pólitík hátt í fimmtíu ár en hún tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á gamlársdag. Umhverfisráðuneytið var stofnað 1990 í tíð þáverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins Steingríms Hermannssonar, en frá stofnun þess hafa 13 ráðherrar gegnt því embætti og er Sigrún 6. umhverfisráðherrann fyrir Framsóknarflokkinn. Það mun vera einstakt hér á landi að hjón hafi gegnt bæði ráðherraembættum en Páll Pétursson eiginmaður Sigrúnar var félagsmálaráðherra í átta ár.

Það eru um 100 dagar síðan Sigrún Magnúsdóttir tók við ráðuneytinu en hún mun leggja fram umfangsmikil mál nú á vorþingi, endurskoðun náttúruverndarlaga og landskipulagsstefnu. Þá mun Ísland einnig leggja fram loftslagsmarkmið sín á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í París í árslok.

“Umhverfismálin skipta okkur sífellt meira máli og eiga að vera samtvinnuð okkar daglega lífi. Menn þurfa að huga vel að umhverfismálum og að viðhalda gæðum auðlinda til að hafa forsendur til að skapa verðmæt störf um leið og stuðlað er að sjálfbærri þróun. Þegar ég kom í ráðuneytið ákvað ég að góð umgengni mannsins  við náttúruna og nýtni yrði mér leiðarljós í starfi” segir Sigrún.

“Nýtni getur birst í svo mörgu, okkar daglega lífi og athöfnum. Áður fyrr var nýtni svo mikil að engum hlut mátti henda sem að gagni gat komið þegar hefðbundnu hlutverki hans var lokið. Nú er þessi hugsun að einhverju leyti að ryðja sér til rúms aftur, að nýta vel alla hluti og passa upp á náttúruna og umhverfið.Það er heilmikil áskorun því í því felst að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til yfir langan tíma.“

Félagslegi þátturinn er mikilvægur

„Ég hef alltaf haft þann neista að vilja taka þátt í félagsstarfi, móta tillögur og eiga samtal við fólk úr ólíkum áttum og flokkum. Trúlega hefur sá eiginleiki átt hvað mestan þátt í því hve lengi ég hef verið í pólitísku starfi. Við verðum að hafa þann þroska að hefja okkur upp fyrir dægurþrasið og eiga málefnalegar umræður. Síðan er skilyrði að hafa gaman í vinnunni og er félagslegi þátturinn ekki síst mikilvægur. Menn verða að geta slegið á létta strengi annað slagið þrátt fyrir að stundum sé tekist á.“

Sigrún segir að stjórnmál hafi breyst mikið frá því hún byrjaði í pólítík, fólk sé upplýstara og taki virkari þátt í samfélagsumræðunni og geri aðrar kröfur nú en áður fyrr.

„Netsamskiptin breytast hratt svo maður má hafa sig allan við að fylgjast með tækninni. Við stjórnmálamenn þurfum að vera meðvitaðir um breytt umhverfi og vera tilbúnir til að taka þátt í umræðunni á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.“

Spornað við sóun

„Ég hef alltaf haft áhuga á umhverfinu og náttúrunni og hef t.d. flokkað sorp árum saman. Umhverfismálin byrja og enda hjá okkur sjálfum svo það er undir okkur komið hvernig til tekst. Ég reyni að leggja mitt af mörkum og kenni barnabörnum mínum það sama. Margt lítið getur gert eitt stórt sem leiðir hugann að því hvernig við getum spornað við hverskonar sóun, eins og matarsóun sem ég tel afar mikilvægt því hún hefur víðtæk áhrif á sóun annarra auðlinda á borð við jarðveg og orku. Matur sem hefur verið fluttur mörg þúsund kílómetra að, eykur á gróðurhúsaáhrifin. Daglegt líf og hegðun hefur því allt að segja um það hvernig til tekst við að draga úr sóun.“

Ísland er ríkt af auðlindum, bæði til sjávar og lands og er náttúran undirstaðan í okkar atvinnugreinum. „Við verðum að hlúa vel að auðlindunum og nýta þær af skynsemi með langtíma hugsun að leiðarljósi. Skynsamleg nýting er áskorun en það felast fjölbreytt sóknarfæri í því að nýta hráefni betur og endurvinna.“

Landið kortlagt

Aukin ásókn í takmarkaðar auðlindir krefst meiri samræmingar í skipulagsgerð. Mörg stór álitamál hafa verið í umræðunni sem varða skipulagningu og kortlagningu mismunandisvæða. Ráðherra mun mæla fyrir landskipulagsstefnu 2015-2026 nú á vordögum, en henni er ætlað að samræma skipulagsgerð sveitarfélaga.

„Að vissu leyti stöndum við á tímamótum og mörgum spurningum þarf að svara. Það er oft gott að sjá fyrir sér myndrænt hvernig staðan er á hverjum tíma, hve mikið land fer í landgræðslu, ferðaþjónustu, landbúnað, endurheimt votlendis, orkumál og friðlýst svæði. Við þurfum að horfa á heildarmyndina og samþætta ýmis sjónarmið. Landskipulagsstefnan á að hjálpa okkur að svara spurningum eins og hvað á að vernda, hvað á að nýta, hvernig á að nýta og hvað telst sjálfbær nýting. Um þetta er tekist á í okkar samfélagi.“

Ferðamannasvæði í brennidepli

Eitt fyrsta málið sem Sigrún mælti fyrir á Alþingi sem ráðherra tekur á uppbyggingu og kortlagningu ferðamannastaða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið sem um ræðir felur í sér að lögfest verði gerð stefnumarkandi áætlunar til 12 ára vegna uppbyggingar innviða í náttúru Íslands. Er markmiðið að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um slíka uppbyggingu og viðhaldi ferðamannsvæða, ferðamannastaða og ferðamannaleiða á Íslandi með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

„Það má segja að við höfum verið gripin í bólinu með það hvaða staði við viljum gera betur við og hvernig kortlagning nýrra staða á að vera til að dreifa álaginu á okkar ágæta landi. Því miður höfum við ekki náð að fylgja eftir hraðri aukningu ferðamanna hvað varðar verndun náttúrunnar. Sumir ganga jafnvel svo langt að tala um ferðamannavá, þróunin er svo ör. Ásættanleg gjaldtökuútfærsla verður að finnast sem allra fyrst því verndun náttúrunnar krefst fjármagns.“

Vernd og nýting í jafnvægi

„Í friðlýsingum þurfum við einnig að hafa langtímahugsun að leiðarljósi, nú þegar búið er að friðlýsa um 20% af landinu. Eins og önnur landnýting er friðlýsing skuldbinding til framtíðar. Ég vil gjarnan friðlýsa, en mér finnst meiri ávinningur af því að vernda stærri svæði fremur en mörg minni og að þau fái þá fjármagn til reksturs í framhaldinu, svo sómi sé að.“

Í þessu samhengi hafa virkjanamál löngum verið umdeild og hefur rammaáætlun ekki skapað að fullu þá víðtæku sátt sem henni var ætlað.

„Ég vil leita sátta í orkumálum eins og í mörgum öðrum málum. Það eru margir ónýttir möguleikar í orkuöflun sem við þurfum að rannsaka og þróa betur. Þekking er grundvallaratriði, bæði til að geta tekið ákvarðanir um ónýttar náttúruauðlindir, s.s. vindorku, sem þarf að skoða betur út frá umhverfisjónarmiðum, og ekki síst til að beina sjónum okkar frá einhliða umræðu um virkjanir. Við vitum t.d. of lítið um smávirkjanir en þær hafa marga kosti. Ég vil hafa ákveðna samfellu að því leyti að byggja upp atvinnu og byggð í landinu. Nú er verkefnisstjórn rammaáætlunar með til umfjöllunar tæplega þrjátíu kosti sem verða flokkaðir á næstu mánuðum. Nýr ferill er hafinn og raunverulega loksins er komið að því að vinna í samræmi við markmið laganna. Eftir u.þ.b. ár verður komin tillaga að niðurstöðu í þessum áfanga. Ef við segjum að fimm til tíu kostir fari í vernd, svipaður fjöldi í nýtingu og annað eins í bið þá erum við bara nokkuð vel sett í nánustu framtíð og höfum farið bil beggja sjónarmiða. Þegar búið er að setja kosti á ás verndar eða nýtingar er brýnt að virða þá niðurstöðu, á hvorum endanum sem er.“

Skógrækt og landgræðsla

Skógrækt er ein af þeim aðgerðum sem unnt er að beita til að ná markmiðum um samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Í ráðuneytinu er unnið að endurskoðun laga um landgræðslu og skógrækt og samhliða því þarf að skoða hvort hægt sé að einfalda boðleiðir og verklag í þessum geirum. Verulega hefur dregið úr framkvæmdum síðastliðin ár. Það er slæm þróun og getur meðal annars haft áhrif á skuldbindingar og markmiðssetningu Íslands í loftslagsmálum. Ísland stefnir að því að ná skuldbindingum sínum bæði með minnkun í losun og með kolefnisbindingu. Ef bindingin verður minni en að var stefnt þarf að mæta þeim skuldbindingum á annan hátt, með því að draga meira úr losun eða jafnvel með því að kaupa losunarheimildir erlendis frá.

„Ég hef lengi haft áhuga á skógrækt og átt margar góðar stundir við að pota niður birki og lerki í skógarreit norður í Blöndudal. Ég og samstarfsfólk mitt í ráðuneytinu erum að skoða hvernig við getum aukið framkvæmdir sem landeigendur, skógræktar- og landgræðslufélög, bændur og sveitarlög koma að. Það þarf að vera ákveðinn stígandi í framkvæmdum og fjármagni á næstu árum sem leiðir til nýsköpunar og aukinna landgæða. Skógar eru mikilvægir fyrir vistkerfið og ekki síst samfélagið. Halda þarf áfram að byggja upp skógarauðlindina og nýta afurðir sem geta stuðlað að nýsköpun og fjölbreyttum störfum víða um land. Í því sambandi mætti nefna ræktun jólatrjáa sem er spennandi verkefni og gaman væri að ná betri tökum á“

Málefni hafsins mikilvæg

Í nóvember sl. kom forveri ráðherra á fót klasasamstarfi sem ber heitið Hafið – öndvegissetur sem hefur sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins að leiðarljósi. Markmiðið er að efla samstarf fyrirtækja, háskóla, rannsóknarstofnana og stjórnvalda um rannsóknir og þróun.

„Ísland er að mörgu leyti eftirbátur annarra ríkja í erlendu samstarfi þegar kemur að hafinu. Klasasamstarf er ágætisform sem leiðir saman fyrirtæki og fræðigreinar fram til sóknar og hafa reynst heilladrjúgir landi og þjóð. Þekking hafsins skiptir okkur það miklu máli að við megum á engan hátt dragast aftur úr í þeim efnum. Mér hlotnaðist sá heiður að stjórna fyrsta stjórnarfundi Hafsins á mínum fyrstu dögum í embætti og bind miklar við að rödd Ísland verði kröftugri erlendis á þessu sviði en verið hefur hingað til.“

Umhverfismálin í víðu samhengi

“Það er að mörgu að hyggja í umhverfismálum  og það er  nauðsynlegt að skoða þau í víðu samhengi, en ekki út frá þröngu sjónarhorni ákveðinna málaflokka. Það eru auknar kröfur uppi um umhverfisvernd og fyrir okkur sem byggjum þetta land felst áskorun í því viðhalda gæðum og sjálfbærni auðlindanna. Það eitt og sér hefur óhjákvæmilega áhrif á daglegt líf og hegðun fólks. Afkoma og líf okkar byggist á hreinu hafi, lofti, vatni og frjósamri mold sem nærir undirstöðuatvinnugreinar okkar, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Við þurfum að fá betri yfirsýn yfir auðlindir okkar, bæði skilgreiningar á þeim og einnig yfir umgengni um þær. Fyrr getum við ekki svarað spurningum um hvað telst sjálfbær nýting. Að því vil ég vinna svo möguleikar okkar nýtist sem best til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum