Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2015 Innviðaráðuneytið

Rætt um eflingu sveitarstjórnarstigsins, fjármál og velferðarmál á fundi samstarfsráðs ríkis og sveitarfélaga

Fundur samstarfsráðs ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag en í ráðinu sitja innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig sátu fundinn embættismenn og sérfræðingar ráðuneytanna og Sambandsins. Meðal helstu umræðuefna fundarins, sem innanríkisráðherra stýrði, var efling sveitarstjórnarstigsins, þróun og horfur í efnahagsmálum, fjármál og verkefni sveitarfélaga og velferðarmál.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag.
Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra ræddi í inngangi sínum um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sagði sveitarfélög hafa eflst undanfarin ár. Hún sagði mörg sveitarfélög fámenn og æskilegt að frekari sameiningar ættu sér stað en lagði áherslu á að íbúar ákveði sjálfir mögulega sameiningu. Setti ráðherra fram þá tillögu að ráðuneytin og Sambands íslenskra sveitarfélaga settu saman hóp til að greina leiðir og tækifæri til að efla sveitarstjórnarstigið. Verkefni hópsins yrði einnig að þróa aðferðir tl að láta stjórnsýslustigin og sveitarfélögin sjálf vinna betur saman að hagsmunamálum sem varða marga aðila og með markmið um valddreifingu og gæði þjónustu við borgarana að leiðarljósi. Hópnum væri falið vinna að þessu næstu 12 mánuðina og samstarfsráðið gæti síðan rætt aðgerðir í framhaldinu. Út úr þeirri vinnu gæti komið sameiginleg aðgerðaráætlun til 10 ára eða svo.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi þróun og horfur í efnahagsmálum og sagði lækkandi verðbólgu og aukinn kaupmátt mikilvæg skref í þá átt að styrkja efnahagslífið og brýnt væri að viðhalda stöðugleika. Einnig gat hann um þá fyrirhuguðu breytingu sem yrði með innleiðingu á nýjum lögum um opinber fjármál.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði að spá um afkomu sveitarfélaga á þessu ári sýndi að þau stefndu í lakari útkomu en á síðasta ári en hann sagði sveitarfélög leggja mikla áherslu á lækkun skulda og á meðan væru fjárfestingar þeirra í lágmarki. Einnig ræddi hann um flutning á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaga og þá endurskoðun sem nú stæði yfir á verkefninu. Sagði hann ljóst að þjónusta við fatlað fólk hefði aukist sem hann sagði jákvæða þróun.

Á síðasta hluta fundarins var rætt um velferðarmál, m.a. þjónustu við fatlað fólk og húsnæðismál og tók Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þátt í þeim hluta fundarsins. Í framhaldinu urðu síðan umræður um það sem fram kom í inngangserindunum.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í gær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum