Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. apríl 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi UST 2015

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Umhverfisstofnunar sem haldinn var 17. apríl 2015.


Ágætu starfsmenn Umhverfisstofnunar og aðrir gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ársfund Umhverfisstofnunar. Á þessum ársfundi er kastljósinu beint að hlutverki stofnunarinnar sem þjónustustofnunar undir yfirskriftinni – Verndum og þjónum.

Umhverfisstofnun er ekki bara að þjóna fyrirtækjum og almenningi, heldur og ekki síður er hún að þjóna náttúrunni og ber að stuðla að verndun umhverfisins.

Það eru miklar áskoranir fólgnar í því að þjóna þeim mikla fjölda ferðamanna sem sækir okkur heim. Náttúran er það sem helst dregur erlenda ferðamenn hingað til lands.

Vernd náttúrunnar er ekki bara mikilvæg náttúrunnar vegna.  Ferðamenn gera ráð fyrir ákveðnum náttúrugæðum og okkur ber að tryggja að ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, bíði það sem þeir búast við að sjá og upplifa. Mikil verðmæti eru fólgin í náttúru- og menningarminjum sem tengjast sögu okkar.

Við þurfum að láta hendur standa fram úr ermum, og byggja upp og vernda vinsæl ferðamannasvæði með viðunandi hætti. Því miður höfum við ekki náð að fylgja eftir auknum fjölda ferðamanna hvað varðar verndun náttúrunnar og ganga sumir jafnvel svo langt að tala um ferðamannavá, þróunin er svo ör.

Við getum ekki leyft okkur að bíða lengur því brýnt er að kortleggja hvernig við viljum dreifa álagi á okkar ágæta landi.

Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu í ráðuneytinu ásamt viðkomandi stofnunum um að móta stefnu og kortleggja bráðaaðgerðir um uppbyggingu til verndar náttúru og menningarminjum á vinsælum ferðamannasvæðum ásamt forgangsröðun þeirra.

Sú vinna fellur að frumvarpi um uppbyggingu innviða í náttúru Íslands sem ég mælti fyrir á Alþingi fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan.

Afar brýnt er að taka málið föstum tökum og bind ég miklar vonir við afgreiðslu frumvarpsins frá Alþingi sem allra fyrst.

Við ætlum ekki að sitja með hendur í skauti og bíða eftir að ásættanleg gjaldtökuútfærsla finnist. Verndun náttúrunnar krefst fjármagns, nú þegar.

Í stefnumótun um uppbyggingu og rekstur svæða er mikilvægt að hugsa til framtíðar. Þegar svæði eru friðlýst þurfum við einnig að hafa langtímahugsun að leiðarljósi, en nú þegar búið er að friðlýsa um 20% af landinu. Friðlýsing er skuldbinding til framtíðar og mér finnst meiri ávinningur af því að vernda ákveðin svæði fremur en mörg og að þau fái þá í framhaldinu fjármagn til vöktunar og eftirlits.

Í upphafi starfs míns valdi ég mér tvö lykilorð sem leiðarljós í starfi – nýtni og umgengni.

Á ársfundinum hér eru lykilorðin tvö, verndum og þjónum.

Góð umgengni um auðlindir okkar er grundvallarþáttur í að vernda náttúru okkar og umhverfi. Lengi vel var engu hent. Nú er þessi hugsun að einhverju leyti að ryðja sér til rúms aftur. Það er heilmikil áskorun falin í því fyrir allt samfélagið að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til yfir langan tíma og mikilvægt að sporna við almennri sóun á öllum stigum.

Matarsóun er einn angi af þessu. Í næstu viku, í tilefni af Degi umhverfisins, mun starfshópur sem er að fjalla um matarsóun skila skýrslu um sína vinnu. Hlutverk hópsins er leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun og benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur.

Ávinningurinn af því að draga úr matarsóun er margvíslegur. Má þar nefna minni orkunotkun, minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni notkun efna sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Ég hef því góðar væntingar til þessarar vinnu og tillagna hópsins.

Í þessu sambandi vil ég einnig nefna að afar mikilvægt er að umhverfisvitund sé efld hjá almenningi, hjá ferðamönnum og ferðaþjónustaðilum. Nauðsynlegt er því að öll fræðsla sé aukin um mikilvægi þess að gengið sé vel um landið og að rusl sé ekki skilið eftir á víðavangi.

Góðir gestir,

ég kom til starfa í ráðuneytinu í upphafi þessa árs. Það er ánægjulegt að segja frá því að mín fyrsta heimsókn var í Umhverfisstofnun. Þar varð ég vör við að þetta er skemmtilegur og litríkur og lifandi vinnustaður. Jafnframt sá ég að þar er vel og markvisst er unnið að bættri umhverfisvitund almennings.

Sérstaka athygli mína vakti að stofnunin hefur skrifað undir svokallaða „Græna leigu“ sem felst í því að bæði leigusali og leigutaki skuldbinda sig til að starfrækja húsnæði með vistvænum hætti til að stuðla að sjálfbærari rekstri og viðhaldi bygginga ásamt því að skapa heilnæmara umhverfi fyrir starfsfólk.

Að lokum fæ ég hér það ánægjulega hlutverk að afhenda Umhverfisstofnun viðurkenningarskjal fyrir að stofnunin hefur nú uppfyllt öll grænu skrefin í ríkisrekstri í höfuðstöðvum sínum og er komin áleiðis í sömu átt í fjórum starfstöðvum sínum úti á landi. Umhverfisstofnun er fyrsta stofnunin á Íslandi sem lýkur öllum skrefunum fimm.

Um leið og ég óska starfsfólki stofnunarinnar innilega til hamingju með grænu skrefin og þennan glæsilegan árangur í umhverfismálum langar mig að biðja forstjóra Umhverfisstofnunar, Kristínu Lindu Árnadóttur, um að koma hingað til að taka á móti viðurkenningaskjölum um Grænu skrefin.

Góðir ársfundagestir,

að lokum vil ég þakka starfsfólki Umhverfisstofnunar fyrir vel unnin störf. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við ykkur í framtíðinni.

Kærar þakkir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum