Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. apríl 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þingsályktun um Landsskipulagsstefnu 2015 - 2026

Úr Skaftafelli

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015-2026. Landsskipulagsstefnan verður sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi verði hún samþykkt.  

Landsskipulagsstefna er samræmd stefna stjórnvalda um landnotkun byggð á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum.  Með henni eru samþættar áætlanir á vegum stjórnvalda um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra landnýtingu. Með tilkomu hennar hafa sveitarfélög landsins aðgang að stefnu ríkisvaldsins um skipulagsgerð á einum stað. 

Tillagan var unnin af Skipulagsstofnun í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök og var auk þess auglýst og kynnt opinberlega. Hún felur í sér fjórar meginstefnur, þ.e. stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, stefnu um skipulag í dreifbýli, stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar og loks stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum. Leiðarljósin eru að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, það sé sveigjanlegt gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum og stuðli að lífsgæðum fólks og styðji enn fremur samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.

Lagt er til að hverju markmiði stefnunnar sé fylgt eftir með tilmælum og aðgerðum sem beint er til sveitarfélaga við skipulagsgerð. Auk þess er ýmsum verkefnum beint til opinberra stofnana.  Dæmi um þetta er að við skipulagsgerð verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda viðkomandi svæðis með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu og einnig að Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi forgöngu um reglulega uppfærslu á korti af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu.

Landsskipulagsstefna er stefnuskjal sem er gert ráð fyrir að sé fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Í skipulagslögum er því mælt fyrir um að samræma skuli skipulagsáætlanir sveitarfélaga landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum