Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. maí 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ræðir norðurslóðir og stöðu smáríkja í Sviss

Pallborðsumræður um stöðu smáríkja í heiminum á ráðstefnu í St. Gallen háskólanum í Sviss
Pallborðsumræður um stöðu smáríkja í heiminum á ráðstefnu í St. Gallen háskólanum í Sviss

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tók í dag þátt í pallborðsumræðum um stöðu smáríkja í heiminum á ráðstefnu í St. Gallen háskóla í Sviss. Með ráðherra í pallborði voru forsætisráðherra Möltu, utanríkisráðherra Gana og ríkisstjóri Delaware fylkis í Bandaríkjunum. Í máli forsætisráðherra kom meðal annars fram að staða smáríkja í samfélagi þjóða væri sterk og þau gætu byggt á sérstöðu sinni og sveigjanleika til að koma góðum málum til leiða. 

  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Stephen Sackur þáttastjórnandi á BBC
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Stephen Sackur þáttastjórnandi á BBC

Forsætisráðherra flutti einnig ræðu um stöðu Íslands á norðurslóðum og tók í framhaldinu þátt í umræðum við áhorfendur úr sal og stjórnanda umræðunnar, Stephen Sackur, þáttastjórnanda á BBC sjónvarpsstöðinni. Sagði forsætisráðherra meðal annars stöðu Íslands á norðurslóðum sterka og ræddi mikilvægi þess að þróunin á norðurslóðum verði sjálfbær og íbúum norðurskautsins til hagsbóta.

Þá áttu forsætisráðherra og varaforsætisráðherra Sviss, Johann Schneider-Ammann, tvíhliða fund þar sem rædd voru tvíhliða samskipti Íslands og Sviss, sem og málefni EFTA, en bæði ríki leggja ríka áherslu á gerð fríverslunarsamninga undir merkjum EFTA. Evrópumál voru sömuleiðis til umfjöllunar, líkt og málefni norðurslóða en Sviss hefur sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Þá var staða mála í Úkraínu til umræðu.

Forsætisráðherra fundaði einnig með forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat. Ræddu ráðherrarnir meðal annars Evrópumál og aukna möguleika á samstarfi ríkjanna. Þá þakkaði forsætisráðherra Möltu Íslandi sérstaklega fyrir framlag sitt og aðstoð við að mæta vanda flóttamanna á Miðjarðarhafinu.Þá hefur forsætisráðherra veitt viðtöl við erlenda fjölmiðla í tengslum við ráðstefnuna.

Á morgun mun forsætisráðherra heimsækja Liechtenstein og eiga fundi með forsætisráðherra landsins, þar sem málefni EES-samningsins verða ofarlega á baugi. Ennfremur mun forsætisráðherra eiga fundi með krónprinsi Liechtenstein og forseta þingsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum