Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. maí 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra styður þjóðarátak

Stattu með taugakerfinu

Félög fólks með taugasjúkdóma og mænuskaða á Íslandi funduðu með forsætisráðherra í Stjórnarráðinu á miðvikudag, til að vekja athygli á þjóðarátakinu „Stattu með taugakerfinu“.  Með fundinum vildu félögin leita eftir stuðningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og ríkisstjórnarinnar við átakið. Markmið þess er að nýju þróunarmarkmiði verði bætt við hjá vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að auka skilning á virkni taugakerfisins.

Fulltrúar félaganna óskuðu eftir því við forsætisráðherra að hann hvetti stjórnvöld annarra Norðurlandaþjóða til að styðja beiðnina um nýtt þróunarmarkmið. Um einstakt tækifæri væri að ræða fyrir Íslendinga að taka höndum saman og skrifa undir áskorun til Ban Ki-moon aðalritara Sameinuðu þjóðanna vegna þessa. Forsætisráðherra tók vel í beiðnina og hyggst koma skilaboðunum á framfæri við kollega sína á Norðurlöndum enda verðugt verkefni að tala fyrir.

Ísland hefur um árabil talað máli mænuskaddaðra á vettvangi Norðurlandaráðs, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (World Health Organization (WHO)) og Sameinuðu þjóðanna. Margt hefur áunnist í þeirri barráttu líkt og norrænt samstarf, alþjóðlegur upplýsingabanki um mænuskaða og þingsályktun Alþingis Íslendinga sem samþykkt var í maí á síðastliðnu ári. Jafnframt hefur utanríkisráðuneytið og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum leitað allra leiða til að fylgja eftir tilmælum þingsályktunarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. 

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er áætlað að yfir milljarður manna um allan heim þjáist af sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Auk heila- og mænuskaða er fjöldi  tauga- og geðsjúkdóma eins og Alzheimer, flogaveiki, MND, MS, Parkinson, heilaglöp og heilaskaði vegna heilablóðfalls. 

Forsætisráðherra tekur undir með félögunum sem standa að átakinu og vona að með átaki íslensku þjóðarinnar, Sameinuðu þjóðanna og stuðningi alþjóðasamfélagsins verði hægt að stuðla að því að gera lækningu að veruleika. Félögin hvetja íslensku þjóðina til að styðja við ofangreinda beiðni en henni verður komið á framfæri með opinberu bréfi frá samtökunum til aðalritarans.  

Rafræn undirskriftarsöfnun er á vefsíðunni taugakerfid.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum