Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Örmyndband: Hvernig heimi viljum við búa í 2030?

Ormyndband

Hvernig heimi viljum við búa í árið 2030, þegar við verðum þrítug? Hvað ætlum við að leggja af mörkum til þess? Hvernig getum við tryggt að enginn jarðarbúi þurfi að búa við hungur og hvernig getum við minnkað matarsóun? Þetta eru dæmi um spurningar sem 9. bekkingar í Salaskóla og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ræddu um undir styrkri stjórn Friðriks Dórs Jónssonar söngvara, á líflegum fundi fyrir stuttu. Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York tók einnig þátt með fjarfundabúnaði.

Níundu-bekkingarnir eru fæddir árið 2000 en það ár settu Sameinuðu þjóðirnar sér fyrst markmiðspakka í þróunarmálum, hin svokölluðu Þúsaldarmarkmið. Á næsta ári taka gildi ný markmið SÞ um sjálfbæra þróun og gilda til 2030. Nemendur Salaskóla kynntu sér tillögu að þeim 17 markmiðum um sjálfbæra þróun sem SÞ vinna nú með og kynntu sínar hugmyndir um heiminn okkar árið 2030. „Það verður spennandi að sjá hvernig heimurinn þróast þar til þessir duglegu krakkar verða þrítugir. Það er greinilegt að þau eru með hjartað á réttum stað og gera sér fyllilega grein fyrir hvaða grundvallargildi skipta máli til að bæta heiminn,“ segir Gunnar Bragi.


Samningaviðræður um þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna eftir 2015 standa nú sem hæst. Burðarásinn í áætluninni verða markmiðin um sjálfbæra þróun. „Við Íslendingar þurfum að leggja okkar af mörkum að til að markmiðin náist. Það er mikilvægt að kynna markmiðin og þá ekki síst fyrir þeim sem framtíðin byggir á
,” segir Gunnar Bragi.

Þrír sigurvegarar myndabandakeppni kynningarátaksins „Þróunarsamvinna ber ávöxt”, þær Ingunn Anna, Urður Helga og Lilja úr Garðaskóla unnu þetta fagmannlega ör-myndband frá viðburðinum í Salaskóla.  Utanríkisráðuneytið þakkar þeim, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem og skólastjóra, kennurum og nemendum Salaskóla fyrir samstarfið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum