Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2015 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin minntist afmælis kosningaréttar kvenna á fundi sínum í morgun og samþykkti fimm ára áætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð

Á þessu ári minnast Íslendingar þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur og verkamenn fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Ríkisstjórnin minntist þess á fundi sínum í morgun en þessara tímamóta verður minnst með margvíslegum hætti víða um land og verður svo áfram á þessu ári. Þá samþykkti ríkisstjórnin sérstaka fimm ára áætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Með kynjaðri fjárlagagerð er stefnt að því að réttlæti og sanngirni haldist í hendur við efnahagslega velferð.

Afmælisnefnd, sem kjörin var samkvæmt ályktun Alþingis 11. mars 2013 hefur haft um þetta efni samráð við félagasamtök, sveitarfélög og einstaklinga um land allt. Hápunktur afmælisársins er í dag, 19. júní, en þann dag 1915 staðfesti Kristján X. Danakonungur stjórnarskipunarlögin sem veittu konum, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi. Árið 1920 var stjórnarskránni breytt og þá varð kosningaréttur karla og kvenna jafn. Ártölin 1915 og 1920 marka því bæði mikilvæga áfanga í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í lýðræðissamfélagi.

Almennur kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis eru forsenda þeirrar lýðræðisskipunar sem Íslendingar búa við. Þessi réttindi eru jafnframt hluti af lýðræðisvitund þjóðarinnar því að í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif á mótun samfélagsins. Alþingi hefur því ríka ástæðu til að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna með veglegum hætti. Í því sambandi er horft til þess að sú réttarbót sem konur hlutu árið 1915, var um leið þýðingarmikið skref í jafnréttismálum kynjanna. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að afmælisins verði minnst með því að stofna Jafnréttissjóð Íslands. Sjóðnum er ætlað að starfa í fimm ár og hafa það hlutverk að fjármagna eða styrkja fjölþætt verkefni sem ætlað er að stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála hérlendis og efla stöðu kvenna á alþjóðavísu. 

Með hliðsjón af þeim fjölþættu verkefnum sem Jafnréttissjóði Íslands er ætlað að sinna þykir heppilegt að stjórnsýsla sjóðsins, bæði varsla sjóðsins og dagleg umsýsla, heyri undir forsætisráðuneytið. Innan ráðuneytisins er nú starfandi rannsóknarsjóður en með hliðsjón af þingsályktunartillögunni tekur Jafnréttissjóður Íslands við rannsóknarverkefnum þess sjóðs þann tíma sem Jafnréttissjóður Íslands starfar. 

Það er einkar ánægjulegt að Ísland hefur síðastliðin sex ár skipað efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðssins yfir kynjajafnrétti. Sú niðurstaða endurspeglar þann árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu áratugum. Það er hins vegar óumdeilt að fjölmargt má betur fara í jafnréttismálum. Nauðsynlegt er að takast á við þessi verkefni og halda þannig áfram uppbyggingu samfélags jafnréttis og lýðræðis. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að aukið jafnrétti getur aukið lífsgæði allra því aukið kynjajafnrétti hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og efnahagsstöðugleika auk þess að bæta samkeppnisstöðu ríkja. 

Þegar litið er til góðs árangurs Íslendinga á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði er rökrétt að Íslendingar leggi sitt af mörkum til þess að styðja enn frekar við jafnréttisstarf á á alþjóðavísu. 

Nánari upplýsingar um innleiðingaráætlun kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerð má finna á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum