Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillaga að vinnumarkaðsstefnu afhent ráðherra

Vinnumál
Vinnumál

Nefnd sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði í september á liðnu ári til að móta vinnumarkaðsstefnu og fjalla um skipulag vinnumarkaðsmála hefur skilað ráðherra tillögum sínum. Markmiðið er að stuðla að velferð fólks á vinnumarkaði og tryggja atvinnuþátttöku sem flestra.

Stefnumótunarvinnan hefur verið unnin í víðtæku samráði, þar sem í nefndinni áttu sæti fulltrúar samtaka launafólks, atvinnurekenda, sveitarfélaga, stjórnmálaflokka, ráðuneyta og stórra félagasamtaka eins og Geðhjálpar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins.

Samkvæmt tillögum nefndarinnar til ráðherra er gert ráð fyrir að vinnumarkaðsstefnan taki til áranna 2015–2020 en verði endurskoðuð og uppfærð í lok árs 2018. Sérstaklega er tekið fram að tillagan hafi verið unnin með jafnrétti á vinnumarkaði að leiðarljósi, þar með töldu jafnrétti kynjanna, auk áherslu á jöfn tækifæri ólíkra einstaklinga til atvinnuþátttöku óháð búsetu.

Helstu tillögur og áhersluþættir eru eftirfarandi:

  • Velferð þátttakenda á vinnumarkaði og virk atvinnuþátttaka flestra verði tryggð í því skyni að auka samkeppnishæfni Íslands.
  • Þríhliða samstarf stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins í vinnumarkaðsmálum verði eflt.
  • Atvinnuþátttaka um land allt verði aukin.
  • Vinnumarkaðurinn verði reiðubúinn að veita einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til að starfa á innlendum vinnumarkaði.
  • Erlendir ríkisborgarar, sem hafa aðgengi að innlendum vinnumarkaði, njóti sömu tækifæra og íslenskir ríkisborgarar til atvinnuþátttöku.
  • Gott starfsumhverfi til lengri tíma litið verði tryggt í því skyni að stuðla að betri líðan og heilsu starfsmanna sem og að auka vilja og möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína.
  • Atvinnuleitendur fái einstaklingsmiðaða og faglega þjónustu með það að markmiði að þeir verði að nýju virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
  • Menntunarstig á íslenskum vinnumarkaði verði hækkað og þá sérstaklega á landsbyggðinni.
  • Tengsl menntakerfisins við atvinnulífið verði efld á grunnskólastigi og þannig byggð brú milli skóla og atvinnulífs snemma á lífsleiðinni.
  • Dregið verði úr kynbundnu náms- og starfsvali.
  • Þátttakendum á vinnumarkaði verði ekki mismunað, hvorki beint né óbeint, svo sem á grundvelli kyns fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta.
  • Vinnumarkaðsrannsóknir hér á landi verði efldar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum