Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. júlí 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 14120069 Umhverfismat áætlana, deiliskipulag Dyrhólaeyjar

Þann 3. júlí 2015 var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Með stjórnsýslukæru Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 2. nóvember 2014, til ráðuneytisins var kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. september 2014 þess efnis að breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Kæruheimild er í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006.


I. Málavextir.

Umrædd tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst á heimasíðu Mýrdalshrepps 25. júlí 2014 undir heitinu „Mýrdalshreppur, Dyrhólaey, deiliskipulagsbreyting – tillaga, greinargerð og viðbótarskipulags- og byggingarskilmálar“. Í tillögunni kemur fram að breytingin nái yfir svæði á Lágey Dyrhólaeyjar og felist í því að heimila byggingu salernis- og þjónustuhúss vegna stóraukinnar ásóknar ferðamanna inn á svæðið. Jafnframt sé gert ráð fyrir nýrri staðsetningu bílastæða ofar og norðvestur en núverandi stæði austast á Lágey. Afmörkuð lóð fyrir bygginguna sé rúmlega 1000 m² og innan byggingarreits sé heimilt að byggja allt að 100 m² byggingu á einni hæð. Vegna byggingarinnar þurfi að bora eftir neysluvatni ofan við bílastæði og byggingu, koma þurfi rotþró fyrir neðan við bygginguna og leggja þurfi rafstreng í jörð að byggingunni u.þ.b. 2,5 km leið. Þá muni núverandi vegur niður á Lágeyna nýtast sem aðalgöngustígur niður að útsýnisstöðum á Hamrinum, Skorpunefi og Brestnefi og muni hann jafnframt nýtast sem þjónustuleið og neyðaraðkoma. Nýir viðbótarskipulags- og byggingarskilmálar eru tilgreindir í kafla 2.8 um lóðir, 2.9 um byggingarreiti, 2.10 um salernisbyggingu, 2.11 um veitur, þ.e. vatn, rafmagn og fráveitu, og að lokum eru umhverfisáhrif tilgreind í kafla 2.12. Einnig er um að ræða almenna skilmála í kafla 3, nánar tiltekið í almennum kafla 3.1, kafla 3.2 um hönnun og uppdrætti, kafla 3.3 um mæliblöð, kafla 3.4 um sorpgeymslur og sorpgáma og kafla 3.5 um frágang lóða. Að lokum eru sérákvæði í kafla 4, þ.e. almennum kafla 4.1 og kafla 4.2 um salernisbyggingu. Í kafla 2.12 um umhverfisáhrif kemur fram að gerð sé grein fyrir áhrifum deiliskipulagsins á umhverfið í samræmi við 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Helstu framkvæmdir séu bygging salernisbyggingar og að- og fráveitukerfi tengt henni ásamt bílastæðum og lagfæringum/breytingum á vegum og göngustígum. Ekki sé gert ráð fyrir að áhrif byggingarinnar á landslag og ásýnd að svæðinu verði veruleg þar sem hæð byggingar sé takmörkuð og útlit þannig ákvarðað að sem best falli að umhverfi. Þá sé ekki talið að mengandi áhrif verði vegna fráveitu. Bílastæðin verði færð fjær austurbrún Lágeyjar og þeim þannig komið fyrir í landi að það ætti að draga úr áhrifum þeirra á umhverfið. Mögulegt sé að jákvæð áhrif verði vegna uppbyggingar salernisbyggingar og bílastæða þar sem verið sé að skapa aðstöðu fyrir ferðamenn og þjónustu við þá. Þá geti áhrif á náttúrufar verið jákvæð þar sem gert sé ráð fyrir að umferð gangandi verði stýrt betur en nú sé með betur skilgreindu stígakerfi um svæðið. Að lokum segir að ekki sé talið að framfylgd deiliskipulagsbreytingarinnar hafi veruleg neikvæð umhverfisáhrif.

Með bréfi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands til Skipulagsstofnunar, dags. 5. september 2014, var óskað eftir því að stofnunin tæki ákvörðun um hvort auglýst breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar félli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Skipulagsstofnun tók þann 29. september 2014 hina kærðu ákvörðun þar sem niðurstaðan var sú að breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar félli ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Í hinni kærðu ákvörðun segir að í gildandi deiliskipulagi Dyrhólaeyjar séu helstu framkvæmdir sem gert sé ráð fyrir; vegir, stígar og bílastæði, auk þess sem heimilt sé að breyta gömlu fjárhúsi og hlöðu á Háeynni í gestastofu. Í breytingu á deiliskipulaginu felist að núverandi bílastæði á Lágeynni verði lögð af og þau færð fjær hömrunum. Bílastæðið verði stærra að flatarmáli en verið hafi og ekki sé um nýjar vegaframkvæmdir að ræða. Við bílastæðið sé gert ráð fyrir allt að 100 m² húsi fyrir salerni. Borað verði eftir köldu vatni fyrir salernin og rotþró komið fyrir. Þá verði rafstrengur frá Loftsölum í Dyrhólahverfi plægður niður meðfram vegi að þjónustuhúsinu og lagðir nýir göngustígar.

Í hinni kærðu ákvörðun segir að í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sé ekki skýrt nánar hverskonar uppbygging og þjónusta falli undir lið 12. c í 2. viðauka laganna. Ákvæðið byggi hinsvegar á ákvæði 12(c) í viðauka II tilskipunar 2011/92/EU ,,Holiday villages and hotel complexes outside urban areas and associated developments“. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé þetta ákvæði innleitt með tveimur aðskildum ákvæðum, þ.e. í c-lið 12. tölul. 2. viðauka þar sem kveðið sé á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi og í d-lið 12. tölul. 2. viðauka þar sem kveðið sé á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi. Að mati Skipulagsstofnunar ber að skýra umrædd ákvæði með hliðsjón af ákvæði tilskipunarinnar. Því falli sú uppbygging sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi Dyrhólaeyjar hvað varðar umfang og eðli ekki undir skilgreiningu laga um mat á umhverfisáhrifum um þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að umrædd breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Í tilefni af framangreindri stjórnsýslukæru var af hálfu ráðuneytisins aflað umsagna frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Mýrdalshreppi, með bréfum dags. 15. desember 2014. Bárust ráðuneytinu umsagnir með bréfi dags. 8. janúar 2015 frá Skipulagsstofnun, bréfi dags. 7. janúar 2015 frá Umhverfisstofnun og bréfi dags. 18. desember 2014 frá Mýrdalshreppi. Með bréfi, dags. 29. janúar 2015, var kæranda sendar fyrirliggjandi umsagnir vegna málsins og gefinn kostur á því að koma að frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust ráðuneytinu hins vegar ekki. 


II. Málsástæður kæranda og umsagnir um kæru.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands vísa til þess í framlagðri kæru að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé ekki skýrt nánar hvers konar uppbygging og þjónusta falli undir lið 12c í 2. viðauka við lögin en þar sé talað um „þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi“. Hins vegar telji stofnunin að skýra verði þetta ákvæði með hliðsjón af ákvæði 12(c) í viðauka II við tilskipun 2011/92/EU, þar sem ákvæði laganna um mat á umhverfisáhrifum sé ætlað að innleiða þetta ákvæði tilskipunarinnar. Telja samtökin að umrætt ákvæði íslensku laganna sé víðara en ákvæði tilskipunarinnar þar sem í íslenska ákvæðinu sé talað um þjónustumiðstöðvar almennt án þess að tiltekið sé sérstaklega að þær tengist frístundahúsum eða öðrum gististöðum. Telja verður að sú uppbygging sem gert sé ráð fyrir í breytingu á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar feli í sér að sett verði upp þjónustumiðstöð í jafnvíðum skilningi þess orðs og lesa megi úr ákvæði íslensku laganna. Því hljóti íslensku lögin að gilda.

Í umsögnSkipulagsstofnunar segir að áréttað sé það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Í gildandi deiliskipulagi Dyrhólaeyjar frá árinu 2005 sé mörkuð stefna um vegi, stíga og bílastæði, auk þess sem heimilt sé að breyta gömlu fjárhúsi og hlöðu á Háeynni í gestastofu. Í breytingu á deiliskipulaginu árið 2014 felist að núverandi bílastæði á Lágeynni verði lögð af en nýtt og stærra bílastæði verði staðsett fjær hömrunum ásamt allt að 100 m² húsi fyrir salerni. Auk þess sé heimilt að leggja nýja göngustíga frá bílastæðinu. 

Skipulagsstofnun telur að skýra verði ákvæði í c-lið 12. tölul. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum með hliðsjón af ákvæði tilskipunarinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, eins og það hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 138/2014 sem breyttu lögum nr. 106/2000. Að mati Skipulagsstofnunar fellur sú uppbygging sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi Dyrhólaeyjar hvað varðar umfang og eðli ekki undir orðalagið sem mælt sé fyrir um í umræddum c-lið 12. tölul. í 2. viðauka, þ.e. „þjónustumiðstöðvar“ fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi, eins og það verður skýrt með hliðsjón af framangreindu ákvæði tilskipunarinnar. Einnig falli sú uppbygging sem gert sé ráð fyrir í breytingu á deiliskipulagi, hvað varðar umfang og eðli, ekki undir orðalag í c-lið 12. tölul. í 2. viðauka, eins og það verði skýrt með hliðsjón af ákvæði tilskipunarinnar. 

Er það því niðurstaða Skipulagsstofnunar að umrædd breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana þar sem segir að ákvæði laganna gildi um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Í umsögnUmhverfisstofnunar segir að í greinargerð Mýrdalshrepps frá júlí 2014 vegna tillögu um breytingu á deiliskipulagi fyrir Dyrhólaey komi fram heimild til byggingar salernis- og þjónustuhúss vegna stóraukinnar ásóknar ferðamanna á svæðið. Hafi umrædd tillaga verið unnin í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun. Færa þurfi bílastæði, bora eftir neysluvatni, koma fyrir rotþró og leggja rafstreng að salernisbyggingunni. Séu breytingarnar m.a. til þess fallnar að stuðla að ánægjulegri upplifun ferðamanna og friðsæld svæðisins. Við nánari skoðun feli skilmálarnir að mati stofnunarinnar ekki í sér byggingu þjónustumiðstöðvar sem veiti víðtæka þjónustu fyrir ferðamenn, heldur sé einungis um að ræða salernisbyggingu ásamt spennustöð, sbr. gr. 2.10 og 4.2 í greinargerðinni. Að mati Umhverfisstofnunar falli salernisbyggingin ekki undir hugtakið þjónustumiðstöð samkvæmt orðanna hljóðan eða við skoðun á markmiði og uppruna ákvæðisins í lið 12c. í 2. viðauka við lög nr. 106/2000. Það er því niðurstaða Umhverfisstofnunar að umrædd breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir lög um umhverfismat áætlana hvort sem litið er til markmiðs ákvæðisins eða orðalags þess.

Í umsögn Mýrdalshrepps segir að vegna vaxandi fjölda ferðamanna sem heimsæki Dyrhólaey hafi þörfin fyrir rúmbetri bílastæði, góða salernisaðstöðu og greiða göngustíga aukist verulega. Breytingunni á deiliskipulagi eyjarinnar sé ætlað að opna á möguleika til að bæta þar úr. Bílastæðin verði færð frá klettabrún Lágeyjar og nokkru ofar í landið þar sem meira rými sé til staðar og þar komið fyrir 100 m² salernisaðstöðu og rotþró. Þá verði lagðir göngustígar um svæðið sem m.a. eigi að tryggja bætt aðgengi fatlaðra að svæðinu, borað verði eftir vatni og lagður að svæðinu rafstrengur sem verði plægður niður í vegkantinn frá Loftsölum og að salernishúsinu. Sérstaklega hafi verið um það rætt í ráðgjafahópi um Dyrhólaey að eingöngu verði byggt salernishús á Lágeynni en ekki þjónustumiðstöð í þeim skilningi að þar verði um að ræða aðstöðu til sölu á veitingum eða varningi. Í umsögninni segir að sveitarstjórn Mýrdalshrepps sé sammála því áliti Umhverfisstofnunar að umrædd breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.


III. Forsendur ráðuneytisins.

Sá ágreiningur sem er til úrlausnar í máli þessu varðar gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og það álitaefni hvort umrædd tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem  auglýst var á heimasíðu Mýrdalshrepps 25. júlí 2014 undir heitinu „Mýrdalshreppur, Dyrhólaey, deiliskipulagsbreyting – tillaga, greinargerð og viðbótarskipulags- og byggingarskilmálar“, falli undir gildissvið laga nr. 105/2006. 

Í 3. gr. laga nr. 105/2006 er fjallað um gildissvið laganna og er 1. mgr. svohljóðandi: „Ákvæði laga þessara gilda um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Skipulags- og framkvæmdaáætlanir skulu vera undirbúnar og/eða samþykktar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.“ 

Í máli þessu liggur fyrir að umrædd tillaga felur í sér breytingu á skipulagsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem um er að ræða breytingu á deiliskipulagi. Ágreiningur í máli þessu snýr eingöngu að því hvort umrædd tillaga uppfylli það skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 að „marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“. Nánar tiltekið hvort tillagan marki stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar voru í c-lið 12. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000, þ.e. „Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi“. Á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin voru í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum tilgreindar framkvæmdir sem kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skylt var að tilkynna til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. 

Með lögum nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000 var viðaukum laganna m.a. breytt sem og ákvæðum um tilkynningarskyldar framkvæmdir. Þar á meðal var breytt ákvæði um þær framkvæmdir sem tilgreindar voru í c-lið 12. tölul. 2. viðauka laganna. Í því sambandi segir eftirfarandi í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 138/2014: „Í lið 12.05 er fjallað um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis. Í ákvæði 12(c) í viðauka II tilskipunar 85/337/EBE segir: „Holiday villages and hotel complexes outside urban areas and associated developments.“ Í núgildandi lögum er þessu ákvæði tilskipunarinnar skipt upp í tvo aðskilda liði. Í c-lið 12. tölul. 2. viðauka laganna er kveðið á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi. Í d-lið 12. tölul. 2. viðauka laganna er kveðið á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi. Eru íslensku ákvæðin ólík texta tilskipunarinnar og taka ekki á þeim framkvæmdum sem tilskipunin nefnir. Gerir ESA athugasemd við ákvæðin en ekki liggur fyrir hvers vegna orðalagið er með þessum hætti og engar athugasemdir er að finna í núgildandi lögum sem útskýrir það. Hér er því lagt til að c- og d-liður 12. tölul. verði sameinaðir í einn lið með beinni þýðingu á texta tilskipunarinnar ásamt því að séríslensk ákvæði eru látin halda sér.“

Tilskipun 85/337/EBE var felld úr gildi með tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Ákvæði sambærilegt ákvæði því sem var í c-lið 12. tölul. II viðauka  tilskipunar 85/337/EBE er nú að finna í c-lið 12. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB.

Eins og áður segir þá er álitaefnið það hvort umrædd tillaga um breytingu á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar marki stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem falli undir skilgreininguna „þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi“. Eins og fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar þá er nú þegar í gildandi deiliskipulagi Dyrhólaeyjar gert ráð fyrir helstu framkvæmdum á svæðinu, þ.e. vegum, stígum og bílastæði, auk þess sem heimilt er að breyta gömlu fjárhúsi og hlöðu á Háeynni í gestastofu. Í umræddri tillögu að breytingu á deiliskipulaginu felst að núverandi bílastæði á Lágeynni verða lögð af og bílastæðið fært fjær hömrunum auk þess sem það verður stærra. Ekki er gert ráð fyrir nýjum vegaframkvæmdum. Í tillögunni er nánar gerð grein fyrir þeirri byggingu sem um ræðir í gr. 2.10 og gr. 5.2 sem bera yfirheitið „salernisbygging“. Gert er ráð fyrir að hámarki 100 m² byggingu á einni hæð fyrir neðan áætluð bílastæði á Lágeynni og að hún muni hýsa snyrtingar fyrir gesti svæðisins ásamt spennistöð. Í greinargerð tillögunnar er salernisbyggingin nefnd salernis- og þjónustuhús og kemur þar fram að hún muni standa á 1000 m² lóð. Borað verði eftir köldu vatni fyrir salernin og rotþró komið fyrir. Þá verði rafstrengur frá Loftsölum í Dyrhólahverfi plægður niður meðfram vegi að þjónustuhúsinu og lagðir nýir göngustígar.

Á netslóðinni www.snara.is, þar sem er að finna safn orðabóka, er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu þjónustumiðstöð. Hins vegar er þar m.a. að finna í Íslenskri orðabók skilgreiningu á hugtakinu „verslunarmiðstöð“, sem er skilgreind sem miðstöð verslunar á ákveðnu svæði eða staður þar sem margar verslanir, veitingastaðir og þjónustufyrirtæki eru undir sama þaki. Að mati ráðuneytisins getur hugtakið þjónustumiðstöð samkvæmt orðanna hljóðan ekki tekið til svo afmarkaðrar þjónustubyggingar sem salernisaðstaða fyrir ferðamenn felur í sér heldur eingöngu umfangsmeiri þjónustustarfsemi þar sem boðið er uppá fjölbreyttari þjónustu fyrir ferðamenn á viðkomandi svæði, s.s. sölu veitinga, varnings eða upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn. Hafa má til hliðsjónar í því sambandi áðurgreinda skilgreiningu á hugtakinu verslunarmiðstöð. Ljóst er í þessu sambandi að sú bygging sem hér um ræðir er ekki umfangsmikil, þ.e. 100 m². Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið ber að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Eins og fram hefur komið var hins vegar, á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin, lítið samræmi á milli c-liðar 12. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 og c-liðar 12. tölul. II. viðauka tilskipunar 85/337/EBE, sbr. nú tilskipun 2011/92/ESB, þar sem tilskipunin vísar til orlofssvæða og hótelþyrpinga utan þéttbýlissvæða og framkvæmda sem tengjast þeim en íslenska lagaákvæðið til þjónustumiðstöðva fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi. Af tilskipuninni má þó ráða að verið sé að vísa til mun umfangsmeiri framkvæmda en felst í þeirri tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem um ræðir í máli þessu. Við samanburð á hinni íslensku löggjöf og umræddum tilskipunum verður þó ætíð að hafa í huga að samkvæmt 3. tölul. aðfararorða tilskipunar 2011/92/ESB er aðildarríkjum heimilt að setja strangari reglur í því skyni að vernda umhverfið. Að mati ráðuneytisins hefur samanburður á umræddu lagaákvæði og tilskipun 2011/92/ESB ekki áhrif á þá niðurstöðu ráðuneytisins að hugtakið þjónustumiðstöð geti ekki samkvæmt orðanna hljóðan tekið til svo afmarkaðrar þjónustubyggingar sem salernisaðstaða fyrir ferðamenn felur í sér ásamt öðrum þeim framkvæmdum sem tilgreindar eru í umræddri tillögu.

Að öllu framangreindu virtu falla þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í umræddri tillögu að deiliskipulagsbreytingu Dyrhólaeyjar í Mýrdalshreppi, þ.m.t. umrædd salernis- og þjónustubygging, að mati ráðuneytisins ekki undir þær framkvæmdir sem tilgreindar voru í c-lið 12. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin, þ.e. „Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi“ eða aðrar framkvæmdir sem tilgreindar voru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Umrædd tillaga að deiliskipulagsbreytingu markar því að mati ráðuneytisins ekki stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í umræddum lögum og fellur þar af leiðandi ekki undir gildissvið 3. gr. laga nr. 105/2006.


IV. Niðurstaða

Í samræmi við þær forsendur sem fram koma í III. kafla er það mat ráðuneytisins að tillaga að breytingu á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar í Mýrdalshreppi dags. í júlí 2014, sem var auglýst á heimasíðu Mýrdalshrepps 25. júlí 2014 undir heitinu „Mýrdalshreppur, Dyrhólaey, deiliskipulagsbreyting – tillaga, greinargerð og viðbótarskipulags- og byggingarskilmálar“, falli ekki undir gildissvið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006, og því beri ekki að meta áætlunina í samræmi við kröfur laganna um umhverfismat áætlana. Í því sambandi ber að líta til þess að þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í tillögunni eru ekki umfangsmiklar auk þess sem í gildandi deiliskipulagi Dyrhólaeyjar er gert ráð fyrir helstu framkvæmdum á svæðinu. Að mati ráðuneytisins uppfyllir tillagan ekki það skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 106/2005 að marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar voru í lögum um  mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin. Þær framkvæmdir sem um ræðir falla ekki samkvæmt orðanna hljóðan eða lýsingu í tillögunni undir það að vera þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæði á láglendi, sbr. c-lið 12. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000, eða aðrar framkvæmdir tilgreindar í lögunum á umræddum tíma.  


Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. september 2014, sem auglýst var þann 1. október 2014, þess efnis að breyting á deiliskipulagi Dyrhólaeyjar falli ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana er staðfest.

Sigrún Magnúsdóttir

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum