Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. september 2015 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherraopnaði formlega nýjan kafla á Vestfjarðavegi

Nýr og endurbyggður kafli á Vestfjarðavegi var tekinn formlega í notkun í dag þegar Ólöf Nordal innanríkisráðherra klippti á borða ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra. Með þessum áfanga sem er á milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði lýkur enn einum áfanganum í endurbyggingu Vestfjarðavegar.

Innanríkisráðherra og vegamálastjóri opnuðu formlega í dag nýjan kafla á Vestfjarðavegi.
Innanríkisráðherra og vegamálastjóri opnuðu formlega í dag nýjan kafla á Vestfjarðavegi.

Nýi vegurinn þverar Mjóafjörð og Kjálkafjörð og er heildar lengd hans 16 km en gamli vegurinn var 24 km langur malarvegur og lá fyrir botn Mjóafjarðar og Kjálkafjarðar. Leiðin styttist því um 8 km á þessum kafla Vestfjarðavegar. Verkið var boðið út í febrúar 2012. Samið var við Suðurverk hf. um framkvæmdina og hófust framkvæmdir í júní sama ár. Undirverktaki við brúarsmíðina var ÞG Verk ehf. Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga sá um niðurrekstur staura undir sökkla brúnna. Undirverktaki í efnisvinnslu var Tak-Malbik ehf. og Borgarverk lagði bundna slitlagið. Umsjón og eftirlit með framkvæmdinni var í umsjá Vestursvæðis Vegagerðarinnar.

Vegagerðin bauð til samsætis í Flókalundi eftir að vegurinn hafði formlega verið opnaður og fluttu þar ávörp meðal annrs Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Norðvesturkjördæmis, Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni og þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kristján L. Möller og Ólína Þorvarðardóttir og fleiri.

Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra meðal annars að þó að þessi nýi kafli væri nú tekinn formlega í notkun væri ekki lokið endurbyggingu Vestfjarðavegar, lokaáfanginn væri framundan. Hún kvaðst ekki geta sagt með vissu hvenær sá áfangi yrði boðinn út enda málið ekki komið í endanlegan farveg þar sem enn væri beðið niðurstöðu varðandi Teigsskóg. Kvaðst ráðherra vona að það yrði þó fyrr en síðar.

Nýr kafli á Vestfjarðavegi var formlega opnaður í dag.

Vestfjarðavegur er aðal samgönguæð sunnanverðra Vestfjarða og Dalabyggðar og megin tenging þess svæðis við stofnvegakerfi landsins, auk þess að tengja saman sunnanverða og norðanverða Vestfirði. Undanfarna tvo áratugi hefur verið unnið markvisst að endurbyggingu Vestfjarðavegar milli Hringvegar við Dalsmynni og Flókalundar svo og á Barðastrandarvegi að Patreksfirði. Vegagerð á þessari leið er víða erfið og kostnaðarsöm vegna bratta og fjalla. Helstu stóru verkefnin sem unnin hafa verið á þessu tímabili eru m.a. vegur um Bröttubrekku 2003, um Svínadal 2007, þverun Gilsfjarðar 1999, vegur um Klettsháls 2004, úr Kjálkafirði í Vatnsfjörð 2010 og Kleifaheiði 2002.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum