Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. september 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulagsdeginum 2015

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á Skipulagsdeginum 2015,  árlegum samráðsfundi Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna, sem haldinn var 17. september 2015.

 

Ágætu gestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur á skipulagsdeginum.

Við sem störfum á sviði skiplagsmála erum meðvituð um þá ábyrgð sem þeim fylgir. Í markmiðum skipulagslaga endurspeglast það sjónarmið að vernd og nýting getur farið saman, sem styður við fjölbreytt atvinnulíf og eðlilega endurnýjun. Stuðla þarf að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Eins og ykkur er kunnugt um þá er landsskipulagsstefnan eitt af mínum áherslumálum og mun ég mæla fyrir henni á Alþingi í dag.

Ég bind miklar vonir við að stefnan, sem felur í sér heildstæða sýn í skipulagsmálum, verði að veruleika á komandi vetri með samþykki Alþingis á tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu.

Vil ég hér nota tækifærið og þakka Skipulagsstofnun fyrir góða og mikla vinnu og fyrir virka þátttöku ykkar.

Talsverðar breytingar hafa átt sér stað síðustu áratugi á nýtingu lands í dreifbýli. Vaxandi eftirspurn er eftir fjölbreyttari nýtingu lands, svo sem til ræktunar, ferðaþjónustu og útivistar, í sátt við náttúru og landslag.

Langtímasýn um nýtingu og vernd er afar mikilvæg þar sem horft er til umhverfis- og menningargæða. Stuðla þarf að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu í sátt við umhverfið, svo sem að land sem hentar vel til ræktunar verði almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti.

Þá þarf val á svæðum til skógræktar að taka mið af landslagi og að sjónarmið skógræktar, annars landbúnaðar og útivistar séu samþætt ef mögulegt er.

Gaman er að segja frá því að áhugaverðar tilraunir hafa verið í gangi með skógarbeit samhliða sauðfjárrækt þar sem kannað er hvort hægt sé að finna jafnvægi á milli friðunar og beitar og ekki síst til að auka afrakstur af hvorri grein fyrir sig.

Ferðaþjónustan er orðinn einn af burðarásum íslensks atvinnulífs á Íslandi. Ferðamenn leggja land undir fót til að njóta íslensku náttúrunnar, menningar og fjölbreyttrar afþreyingar. Allt bendir til þess að stór hluti uppbyggingar í dreifbýli á komandi árum verði í tengslum við ferðaþjónustuna og komi til með að auka fjölbreytni starfa í bæjum sem áður höfðu eingöngu lífsviðurværi sín af landbúnaði og sjávarútvegi.

Brýn þörf er fyrir markvissa stefnumörkun og aðgerðir til að tryggja að uppbyggingin og aukinn ferðamannastraumur komi ekki niður á þeim verðmætum sem eru fólgin í landi okkar og að Ísland haldi sérstöðu sinni og aðdráttarafli.

Það er hagsmunamál fyrir uppbyggingu atvinnulífs í dreifbýli að sveitarfélögin greini sína sérstöðu og styrkleika þar sem vernd náttúru er lögð til grundvallar. Fjölmörg tækifæri eru til staðar í formi ýmis konar afþreyingar og unnt að auka gæði þjónustunnar til að efla atvinnu og samfélag. Þetta er mikið forgangsmál sem vinna þarf í nánu samstarfi við íbúa.

Miðhálendið er eitt af áherslumálum landsskipulagsstefnu þar sem lögð er áhersla á varðveislu víðerna og náttúru. Erlendir gestir sýna óspilltri náttúru mikinn áhuga og hefur það örugglega komið mörgum þeirra á óvart hve auðvelt er að upplifa kyrrð og ró rétt við túnjaðar þéttbýlisins. Ferðamenn þurfa því ekki endilega að sækja vatnið yfir lækinn ef svo má segja til að fá þá upplifun að vera einn í heiminum.

Mest um vert er að landnýting á hálendinu sé sjálfbær og að hún valdi ekki gróður- eða jarðvegseyðingu eða hamli gróðurframvindu á illa förnu landi.

Vindmyllur eru ný áskorun í skipulagsmálum hér á landi. Ísland á áfram að vera fyrirmynd annarra þjóða sem nýta endurnýjanlega orku. Virkjun vatnsfallorku og jarðhita hafa reynst þjóðinni happadrjúg búbót. Fyrirsjáanlegt er að mikil framþróun verði í rannsóknum og nýsköpun á nýjum grænum orkugjöfum svo sem virkjun sjávar- og ölduorku.

Aukinn áhugi er fyrir vindmyllum í dreifbýli og nú er í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar rammaáætlunar tveir slíkir virkjunarkostir á miðhálendinu, þ.e. Búrfellslundur og Blöndulundur. Slíkum mannvirkjum fylgja ákveðin umhverfisáhrif og þarf að gæta að því að þau nýtist sem best, um leið og vandað er til staðarvals og hönnunar út frá landslagi, náttúru og byggingarhefðum.

Í tillögu að landsskipulagsstefnu er því beint til sveitarfélaga að taka afstöðu til möguleika á orkuframleiðslu með vindorku, í sátt við náttúru og samfélag.

Til að fylgja eftir markmiðum um þróun þéttbýlis í landskipulagsstefnu er gert ráð fyrir ýmsum verkefnum sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Sem dæmi að sveitarfélögin marki stefnu um uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis sem taki mið af þörfum samfélagsins til framtíðar. Auka þarf fjölbreytni húsnæðis, svo sem húsagerðir og stærðir og hugað verði sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir alla tekjuhópa.

Í þessu sambandi langar mig að nefna að í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sl. vor skipaði ég starfshóp til að fara yfir byggingarreglugerðina sem fékk það hlutverk að finna leiðir til að lækka kostnað vegna byggingar íbúðarhúsnæðis.

Taka þarf skrefið lengra og þurfa ríki og sveitarfélög að nálgast verkefnið til að mynda út frá markmiði um hve mikið húsnæði má kosta fyrir tekjuminni hópa. Efnið verður til umfjöllunar á málþingi sem blásið verður til í byrjun október.

Ágætu fundargestir,

Til að ljúka yfirferð á landskipulagsstefnu þá hefur á undanförnum árum aukist áhugi á framkvæmdum á haf- og strandsvæðum og þar með þörfin á heildrænni sýn og stjórnun hvað varðar vernd og nýtingu þessara svæða. Í dag er að störfum nefnd um gerð frumvarps til laga um skipulag haf- og strandsvæða og bind ég miklar vonir við að geta lagt fram frumvarp á komandi vorþingi.

Eins og dagskrá þessa dags ber með sér eru viðfangsefnin mörg sem þarft er að ræða á þessum vettvangi. Er ég því fullviss um að fundurinn í dag verði bæði áhugaverður og gagnlegur.

Góðan skipulagsdag.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum