Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. september 2015 Innviðaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsókn samgönguslysa til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 18/2013, um rannsókn samgönguslysa, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er að samræma íslensk lög við ákvæði tilskipunar 2009/18/EB um rannsókn sjóslysa og reglugerð (ESB) nr. 996/2010 um rannsókn flugslysa. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 2. október nk. og skulu þær sendar á póstfangið [email protected]

Með frumvarpinu er tekið tillit til athugasemda ESA og lögin færð betur til samræmis við framangreindar EES-gerðir eftir yfirferð Eftirlitsstofnunar EFTA og íslenskra stjórnvalda. Við yfirferðina kom í ljós að ósamræmi á nokkrum stöðum kallaði á lagabreytingar. Eftirfarandi breytingar og viðbætur eru því lagðar til:

  • Skilgreiningar 
    Lagt er til að bætt verði við þremur nýjum skilgreiningum, þ.e. alvarlegt sjóslys, mjög alvarlegt sjóslys og flugatvik.
  • Ákvörðun um rannsókn máls
    Lagt er til að bætt verði við lögin ákvæði sem mælir fyrir um að rannsóknarnefndin skuli taka tillit til ákveðinna sjónarmiða við ákvörðun um hvort efni séu til rannsóknar samgönguslysa eða ekki.
  • Rannsóknarskylda
    Lagt er til að í vissum tilvikum samgönguslysa og samgönguatvika muni rannsóknarnefndin ekki geta ákveðið á sitt einsdæmi hvort af rannsókn verður eða ekki.
  • Lögsaga nefndarinnar við rannsókn sjóslysa og sjóatvika
    Lögð er til breyting á ákvæði um lögsögu rannsóknarnefndarinnar við rannsókn sjóslysa og -atvika.
  • Þátttaka erlendra ríkja
    Lagt er til að 18. gr. laganna um þátttöku erlendra ríkja í rannsókn sjóslysa og sjóatvika verði breytt.
  • Gögn undanþegin aðgangi 
    Við 27. gr. laganna, sem fjallar um takmarkanir á aðgengi að upplýsingum, er lagt til að bætt verði við fjórum nýjum flokkum upplýsinga.
  • Einfölduð skýrsla, bráðabirgðaskýrsla og bráðabirgðayfirlýsing
    Lagt er til að rannsóknarnefndinni verði heimilað að ljúka rannsókn máls með einfaldaðri skýrslu (e. simplified report). Um er að ræða einfaldari útgáfu af lokaskýrslu rannsóknar. Þá er einnig lagt til að rannsóknarnefndin gefi út bráðabirgðaskýrslu eða bráðabirgðayfirlýsingu ef ekki tekst að gefa út lokaskýrslu innan árs frá samgönguslysi eða samgönguatviki.
  • Greiningarvinna 
    Lagt er til að rannsóknarnefndin skuli, eftir því sem við á, gefa út tilmæli í öryggisátt á grundvelli kannana, greininga, heildarniðurstaðna eða annarra aðgerða.
  • Endurupptaka máls að beiðni ráðherra og sérstakur rökstuðningur
    Lagt er til að felld verði brott heimild ráðherra til að beina því til rannsóknarnefndarinnar að endurupptaka mál ef fram koma ný gögn eða upplýsingar. Þess í stað er lagt til að nefndinni beri að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir um að endurupptaka mál eða ekki á grundvelli hinnar almennu heimildar um endurupptöku mála.
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 18/2013, um rannsókn samgönguslysa, með síðari breytingum

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum