Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. september 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir breytingum á lögum um náttúruvernd

Blágresi og sóleyjar
Blágresi og sóleyjar

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur mælt á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 sem taka eiga gildi 15. nóvember næstkomandi.  Breytingarnar miðast að því að skýra betur framkvæmd laganna, ná betri samstöðu um málefni nýrra náttúruverndarlaga og styrkja þannig náttúruvernd í landinu frá því sem nú er.

Helstu breytingarnar eru þær að gildissvið varúðarreglu er skýrt og gert er ráð fyrir að útfært verði í reglugerð hvernig henni verði beitt. Þá eru lagðar til breytingar á almannaréttarkafla laganna þar sem leitast er við að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um óræktað land á sama tíma og sett eru ítarlegri ákvæði um heimildir til að takmarka umferð á grundvelli nýtingar landeigenda og í verndarskyni.

Í kafla um akstur utan vega og skrá yfir vegi í náttúru Íslands er gert ráð fyrir að birting kortagrunns um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands verði í höndum Vegagerðarinnar. Ákvæði laganna um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja er styrkt frá því sem er í núgildandi lögum en komið er til móts við þær athugasemdir og ábendingar um að réttaráhrif þess ákvæðis megi ekki ganga eins langt og boðað var í lögum nr. 60/2013.

Í frumvarpinu gert ráð fyrir að kafli laganna um framandi tegundir verði endurskoðaður með það að markmiði að sameina stjórnsýslu Umhverfisstofnunar á þeim málaflokki við stjórnsýslu Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með innflutningi dýra og ýmiss konar meindýrum.

Í frumvarpinu er einnig að finna minniháttar breytingar sem snúa m.a. að verkaskiptingu stofnana, breytingum á skilgreiningum hugtaka og breytingum á ákvæðum laganna er snúa að friðlýsingu svæða.

Alþingi samþykkti í sumar að fresta gildistöku nýrra náttúruverndarlaga til 15. nóvember næstkomandi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum