Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Heilbrigðisstofnun B

 

Kærandi, sem er karl, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu konu í starf C en sálfræðiréttindi voru áskilin til starfsins. Kærunefnd taldi málsmeðferð áfátt varðandi viðtöl við umsækjendur. Báðir umsækjendur höfðu að baki langa starfsreynslu sem sálfræðingar. Þegar metin var heildstætt starfsreynsla þeirra, meðal annars með börnum og á sviði stjórnunar, taldi kærunefndin að kærandi hefði í það minnsta verið jafnhæfur þeirri er ráðin var. Með tilliti til kynjahlutfalls í tilteknum störfum hjá kærða taldi nefndin að við ráðningu C í X 2015 hefði kærði brotið gegn 1. mgr. 26. laga nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 13. október 2015 er tekið fyrir mál nr. 6/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, móttekinni 7. maí 2015, kærði A ákvörðun Heilbrigðisstofnunar B um að ráða konu í starf C hjá D hjá stofnuninni.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Heilbrigðisstofnun B með bréfi, dagsettu 13. maí 2015. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dagsettu 15. júní 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. júní 2015. Athugasemdir bárust frá kæranda 24. júní 2015 og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar sama dag. Með bréfi, dagsettu 7. júlí 2015, bárust athugasemdir frá kærða og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. júlí 2015. Með bréfi, dagsettu 10. ágúst 2015, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum frá kærða og bárust þær með bréfi, dagsettu 24. ágúst. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 26. ágúst 2015, voru viðbótargögnin send kæranda til kynningar. Með bréfi, dagsettu 29. september 2015 óskaði kærunefndin eftir upplýsingum um kynjahlutföll í störfum hjá kærða. Svar við þeirri fyrirspurn barst með bréfi kærða, dagsettu 7. október.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti þann X laust starf C hjá D hjá Heilbrigðisstofnun B. Í auglýsingu kom fram að óskað væri eftir sálfræðingi með klíníska reynslu til starfa í 70-80% starfshlutfalli. Tekið var fram að teymið sinnti börnum að 18 ára aldri og fjölskyldum þeirra en einnig verðandi mæðrum. Teymið væri hluti af almennri sálfélagslegri þjónustu stofnunarinnar og ynni þverfaglega, viðfangsefni væru meðal annars uppeldisráðgjöf, meðferð við tilfinningavanda og fjölskyldumeðferð, megináhersla væri á sálfélagslegan vanda. Þá var tekið fram að teymið byði upp á einstaklings- og fjölskyldumeðferð, námskeið og fræðslu. Í auglýsingu voru kröfur til umsækjenda jafnframt skilgreindar svo: Óskað var eftir einstaklingi með réttindi til að starfa sem sálfræðingur á Íslandi. Reynsla af meðferðarvinnu var talin nauðsynleg, reynsla af stjórnun talin æskileg, hæfni í mannlegum samskiptum og sveigjanleiki og vilji til að taka þátt í uppbyggingu og skapandi starfi. Tekið var fram að viðkomandi þyrfti að vera sjálfstæður og hafa frumkvæði í starfi ásamt því að hafa áhuga á að vinna í þverfaglegu starfsumhverfi. 

  6. Fimm umsækjendur sóttu um starfið og voru tveir þeirra metnir hæfir til að sinna því, karl og kona, og voru þau bæði boðuð í viðtal. Tekin var ákvörðun um að ráða konuna í starfið og var kærandi upplýstur um það X 2015.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi greinir frá því að hann hafi óskað eftir skýringum vegna ráðningarinnar og fengið þær upplýsingar að það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið að konan hafi lokið EMDR námi sem vanti tilfinnanlega í teymið. Hún hafi einnig meðferðarmenntun í PMT-foreldrafærni og hafi unnið síðastliðin 14 ár með börnum og ungmennum. Þá hafi hún unnið á svæði Heilbrigðisstofnunar B og þekki því svæðið að hluta til og tilvísanakerfi þess. Kærandi bendir á að hvorki í auglýsingu né viðtali hafi verið tekið fram að kunnátta um þessar aðferðir væri sérstaklega æskileg. EMDR sé ein af mörgum aðferðum sem sé notuð við að aðstoða fullorðna vegna áfalla en hann hafi sjálfur lært þá aðferð upp úr síðustu aldamótum á meðferðarstofnun fyrir fórnarlömb pyndinga í E. PMT sé ein margra aðferða til að þjálfa foreldra í hlutverki sínu og þá aðferð þekki kærandi mjög vel. Hann hafi beitt sér fyrir innleiðingu hennar við göngudeild fyrir börn og unglinga í F fyrir áratug. Um aðferðirnar báðar gildi að þeim sé beitt við sérstakar aðstæður og útvalinn foreldrahóp.

  8. Kærandi rekur menntun sína og starfsreynslu og telur að gengið hafi verið fram hjá sér við veitingu stöðunnar. Það sé venjulega svo að andlegar kaunir barna og unglinga verði til í samskiptum þeirra við hina fullorðnu. Vandi þeirra verði ekki leystur án samvinnu við þá og jafnvel oft með beinni aðstoð við foreldra. Andleg vandkvæði barna og unglinga hafi kærandi nálgast frá margvíslegum sjónarhornum, svo sem frá fjölskyldu, skólum, bekkjum, hópum, heilsugæslustöðvum og einstaklingsbundið. Í starfi með fullorðna hafi börn þeirra oft verið í brennidepli. Þá bendir kærandi á að í starfi hans sem yfirsálfræðingur á H í rúman einn og hálfan áratug hafi hann til dæmis starfað á Jdeild og Kdeild.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  9. Í greinargerð kærða er greint frá menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðin hafi verið í starfið. Þau hafi bæði verið boðuð í viðtal en sú sem ráðin var hafi komið mjög vel fyrir í viðtalinu. Hún hafi lýst einlægum áhuga á teymisvinnu, mikilvægi þess að allir nytu sín í teymisvinnunni og að unnið væri saman í erfiðum málum. Hún hafi lýst því nákvæmlega hvaða aðferðum hún beiti sem sálfræðingur við mismunandi vanda og reynslu sinni af því að vinna með börnum og fjölskyldum þeirra. Hún hafi einnig lýst því hvernig sérmenntun hennar í foreldrafærnivinnu og áfallameðferð nýtist henni í starfi. Þá hafi hún verið mjög fagleg í viðtalinu, traustvekjandi og það hafi verið samdóma álit teymisins að gott yrði að vinna með henni. Kærandi hafi hins vegar ekki komið nægjanlega vel fyrir í viðtali. Hann hafi gagnrýnt starfsemi, titla og heimasíðu stofnunarinnar. Hann hafi verið spurður að því hvort hann hefði ekki unnið meira með fullorðnum en börnum, þar sem ferilskrá hans hafi bent til þess, en svar hans hafi verið óljóst. Kærandi hafi svarað á þann veg að hann hefði alltaf unnið með börnum líka. Aðspurður um hvaða meðferðaraðferðir kærandi noti hafi hann svarað því til að hann aðhyllist enga eina aðferð, noti það sem við eigi hverju sinni og hafi ekki tilgreint nokkra aðferð nánar. Þá hafi kærandi ekki bent á neinar sértækar meðferðarnálganir og gefið óljós svör varðandi vinnu með börn. Þannig hafi kærandi ekki virkað nægjanlega faglegur í viðtalinu og það hafi verið samdóma álit teymisins að samvinna við hann gæti orðið erfið.   

  10. Kærði greinir frá þeim matsþáttum sem hafi verið notaðir vegna ráðningarinnar en samkvæmt niðurstöðu matsins hafi kærandi fengið 68% og sú sem ráðin hafi verið hafi fengið 82%. Með vísan til þess hafi verið ákveðið að ráða konuna í starfið. Kærði bendir á að báðir umsækjendurnir hafi skilað vel unnum umsóknum en það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið reynsla konunnar af vinnu með börnum, sem hún hafi sérhæft sig í, mjög góð meðmæli og framúrskarandi samskiptahæfni og framkoma í viðtali.

  11. Kærði bendir á að kærunefnd jafnréttismála hafi komist að þeirri niðurstöðu, meðal annars í málum nr. 5/2006 og 4/2005, að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 121/2002 og 330/2003, svo lengi sem sjónarmiðin séu málefnaleg og eðlileg. Af þessu leiði að lengd starfsreynslu eða fjöldi prófgráða og námskeiða, umfram það sem óskað sé eftir í auglýsingu, jafngildi því ekki að viðkomandi verði sjálfkrafa talinn betur til þess fallinn að gegna starfi. Menntun og starfsreynslu þurfi ávallt að skoða með hliðsjón af því starfi sem sé til umfjöllunar hverju sinni og hvernig umsækjandi falli inn í það starf sem auglýst hafi verið í ljósi þeirra menntunar- og hæfniskrafna sem til þess séu gerðar. Menntun og starfsreynsla sem falli að eðli starfsins hafi mikið vægi. Við mat á umsóknum hafi verið litið til framangreindra sjónarmiða og það hafi verið mat stofnunarinnar, með hliðsjón af eðli starfsins, að sú sem hafi verið ráðin búi yfir þeirri starfsreynslu og hafi þær áherslur í menntunarlegu tilliti sem best henti þörfum stofnunarinnar vegna starfs C. Starfsreynsla hennar hafi verið talin nýtast betur og hafa beinni skírskotun til starfsins en starfsreynsla kæranda. Kærði hafni því alfarið að kynferði umsækjenda hafi haft áhrif á niðurstöðu ráðningarinnar.

  12. Í svari kærða við fyrirspurn kærunefndar um tilhögun ráðningarviðtala kom fram að í viðtölunum hefði legið fyrir spurningalisti og minnispunktar hefðu verið skráðir. Minnispunktum hefði verið eytt að ráðningu lokinni. Jafnframt upplýsti kærði að viðmið hefðu ekki verið sett upp með formlegu vægismati, það hefði verið gert síðar, eftir að óskað hefði verið eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar. Loks kom fram hjá kærða að kærandi hefði í viðtalinu ekki verið spurður beint um það hvort hann hefði sérhæfða menntun í áfallameðferð og í PMT foreldrafærni en þessir þættir hefðu verið ræddir við kæranda.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  13. Kærandi gerir athugasemdir við hlutfallsútreikning á hæfni umsækjenda og tekur fram að hann fái ekki betur séð en að ekki hafi verið tekið tillit til menntunar hans. Varðandi reynslu af starfi með börnum virðist eingöngu hafa verið metin reynsla síðustu ára. Kærandi bendir á að hann hafi margsinnis útskýrt að starf hans með fullorðna hafi einnig falið í sér starf með börnum. Auk þess feli starf með börn að miklu leyti í sér starf með fullorðna. Reynsla hans af starfi með börnum sé víðtæk af öllum opinberum þjónustusviðum, meðal annars uppbygging meðferðarheimila og unglingaheimilis, þjónusta við barnadeild, starf á heilsugæslustöðvum, dagheimilum, í sérdeildum og skólum. Varðandi reynslu af viðtalsmeðferðum bendir kærandi á að hann hafi langa þjálfun í alls konar nálgun í meðferð einstaklinga, fjölskyldna og hópa eins og ferilskrá hans beri með sér, meðal annars fimm ára sérmenntun sem sálkönnuður. Þá hafi hann langa þjálfun og menntun í alls konar samskiptum og gott orðspor í því efni. Kærandi hafi bent á fjölda umsagnaraðila en það hafi ekki verið leitað eftir þeim. Hvað varðar gagnrýni hans á skipulag stofnunarinnar hafi hann nefnt að heimasíða stofnunarinnar væri tyrfinn lestur. Það hafi verið tekið undir sjónarmið hans og hann upplýstur um að verið væri að undirbúa endurbætur á heimasíðunni. Annað hafi hann ekki sagt um heimasíðuna og hann minnist þess ekki að hafa minnst einu orði á titla.

  14. Kærandi bendir á að hann hafi lagt áherslu á fjölskylduna sem þungamiðju starfs með börn og mikilvægi þess að feður væru kallaðir til ábyrgðar og þátttöku í starfi með börnin. Í ferilskrá kæranda megi lesa um fjölda þeirra aðferða sem hann kunni skil á. Ekki hafi verið spurt um val aðferða í einstökum tilvikum. Í starfsviðtali hafi verið rætt um hvernig ljúka megi meðferð á skynsamlegan hátt en hann fái ekki skilið að hann hafi ekki svarað af nægjanlegri fagmennsku. Orðspor hans í því efni sé öldungis annað.

  15. Kærandi tekur fram að svo virðist sem reynsla með börnum hafi ráðið úrslitum. Það hafi þó ekki komið fram að sú sem ráðin var í starfið hafi sérfræðimenntun á því sviði en hann hafi sjálfur starfað á Odeild. Þá séu meðmæli annað úrslitaatriði en kærandi dragi í efa að meðmæli hans séu ekki hin bestu, bæði skriflega og hjá umsagnaraðilum. Samskiptahæfni og framkoma sé þriðja úrslitaatriðið en hann fái ekki betur séð en að mat forstjórans sé að hluta byggt á rangfærslum.

    NIÐURSTAÐA

  16. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  17. Í auglýsingu um starf C hjá D hjá kærða var óskað eftir einstaklingi með réttindi til að starfa sem sálfræðingur hér á landi. Tekið var fram að reynsla af meðferðarvinnu væri nauðsynleg, reynsla af stjórnun væri æskileg og gerð krafa um hæfni í mannlegum samskiptum, sveigjanleika og vilja til að taka þátt í uppbyggingu og skapandi starfi. Þá var krafist sjálfstæðis og frumkvæðis í starfi og áhuga á að vinna í þverfaglegu starfsumhverfi.

  18. Kærandi og sú er ráðin var voru í hópi fimm umsækjenda, en þau ein voru boðuð til viðtals. Viðtölin tóku yfirmaður sálfélagslegrar þjónustu hjá kærða, fyrrverandi C  hjá D og þrír starfsmenn teymisins, allt konur. Ráða má af spurningalista vegna viðtalanna að markmið þeirra hafi einkum verið að varpa ljósi á þá persónulegu eiginleika sem áskildir voru í umsókn. Að sögn kærða var minnispunktum vegna viðtalanna eytt er ráðning hafði farið fram. Jafnframt er upplýst að vægi matsþátta, er greint er frá í greinargerð kærða, hafi ekki legið fyrir við ráðningu í starfið heldur verið skilgreint eftir á þegar óskað var rökstuðnings fyrir ráðningunni. Þá liggur fyrir að hæfni kæranda var ekki könnuð með tilliti til atriða varðandi sérstaka þjálfun í tilteknum meðferðaraðferðum en þessi atriði voru að afloknu viðtali talin þeirri er ráðin var sérstaklega til tekna. Jafnframt liggur fyrir að meðmæla var aflað vegna þeirrar sem starfið hlaut en ekki var leitað til meðmælenda kæranda. Er það mat kærunefndar að líkur séu leiddar að því að við ráðninguna hafi aðilum verið mismunað á grundvelli kynferðis. Vegna ágalla á málsmeðferð kærða verður ekki hjá því komist að einskorða athugun kærunefndar við umsóknir kæranda og þeirrar er ráðin var og fylgigögn með þeim.  

  19. Kærandi lauk kandidatsprófi í sálfræði frá L háskóla árið X. Sú er ráðin var lauk sama prófi árið X, einnig frá L háskóla. Þau uppfylltu því bæði áskilnað í umsókn um starfsréttindi hér á landi. Umsækjendurnir tveir höfðu báðir að baki langa starfsreynslu sem sálfræðingar og höfðu þannig báðir mikla reynslu af meðferðarvinnu. Í umsókn kæranda kemur fram að hann hafði gegnt stöðu yfirsálfræðings við sjúkrahús hér á landi um þrettán ára skeið. Þá er tilgreint í umsókn hans starf yfirmanns í M á göngudeild fyrir börn og unglinga. Ekkert kemur fram í umsókn þeirrar er ráðin var um stjórnunarreynslu. Gáfu umsóknir þessara tveggja umsækjanda því til kynna að þegar litið væri til þessara tveggja hlutlægu þátta er nefndir voru í auglýsingu, almennrar starfsreynslu og stjórnunarreynslu, stæði kærandi framar þeirri er ráðin var.

  20. Hvað varðar hæfni og reynslu af starfi með börnum tilgreinir umsókn kæranda að hann hafi hlotið sérfræðiréttindi í klíniskri sálfræði á sérsviði fyrir börn og unglinga. Samkvæmt upplýsingum í umsókn kæranda hafði hann starfað sem sálfræðingur við ráðgjafarþjónustu skóla í M í þrjú ár á X áratug síðustu aldar, í um tvö ár sem sálfræðingur við unglingaheimili hér á landi á X áratugnum og sem yfirmaður göngudeildar fyrir börn og unglinga í M á árunum X – Y. Þá greinir kærandi í umsókn sinni frá fjölmörgum þáttum er hann hafði sinnt í heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga í störfum sínum, meðal annars á því tímabili er hann starfaði  sem yfirsálfræðingur H á X áratug síðustu aldar. Sú er ráðin var hafði starfað síðastliðin tólf ár sem sálfræðingur í ýmsum störfum á vegum sveitarfélaga, hjá meðferðarstöð og á eigin stofu og tiltekur að störf sín hafi einkum verið á sviði meðferðar barna og ráðgjafar til foreldra.

  21. Kærunefnd telur að þegar framangreint er virt heildstætt hafi kærandi í það minnsta verið jafnhæfur þeirri er ráðin var til starfans. Hjá D kærða starfa fjórir sálfræðingar í 2,9 stöðugildum og eru þeir allir konur. Hjúkrunarfræðingur í einu stöðugildi, einnig kona, er yfirmaður teymisins ásamt því að vera yfirmaður annars teymis hjá kærða. Með tilliti til þessa og þess að kærandi var í það minnsta jafnhæfur þeirri er ráðin var, telur kærunefnd að við ráðningu C í X 2015 hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 26. laga nr. 10/2008.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf C í X 2015.

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum