Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. október 2015 Forsætisráðuneytið

Breytingar á skipulagi forsætisráðuneytisins

Forsætisráðherra undirritaði í dag breytt skipurit forsætisráðuneytisins. Með breytingunum er tryggt að skipulagið endurspegli forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk forsætisráðuneytisins þvert á önnur ráðuneyti og markmiðið er að þær leiði til hagræðingar.

Með nýju skipulagi fjölgar málefnaskrifstofum í forsætisráðuneytinu um eina, þegar skrifstofa þjóðhagsmála verður sett á laggirnar. Hinar málefnaskrifstofurnar eru skrifstofa yfirstjórnar, skrifstofa löggjafarmála, skrifstofa stjórnsýsluþróunar, skrifstofa fjármála og skrifstofa þjóðmenningar, sem áður nefndist skrifstofa menningararfs.

Hlutverk skrifstofu þjóðhagsmála verður að greina stöðu og þróun efnahagsmála innanlands og utan, meta horfur í efnahagsmálum og móta tillögur í málaflokknum fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn á hverjum tíma. Skrifstofa þjóðhagsmála mun hafa umsjón með ráðherranefndum um efnahagsmál og ríkisfjármál, en viðbúið er að vægi og umfang nefndarstarfsins aukist verulega samhliða gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, sbr. frumvarp sem er til meðferðar á Alþingi. Þá mun Hagstofa Íslands færast undir skrifstofu þjóðhagsmála. Skrifstofan mun fyrir hönd ráðuneytisins sinna samskiptum við aðila fyrirhugaðs þjóðhagsráðs og vera ráðinu til aðstoðar. Samhliða skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu þjóðhagsmála verður starf efnahagsráðgjafa forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar lagt niður.

Verkaskipting milli skrifstofa mun breytast nokkuð. Ráðherranefnd um samræmingarmál, Norðurslóðir og málefni flóttafólks og innflytjenda falli undir skrifstofu yfirstjórnar og ráðherranefnd um lýðheilsumál og jafnréttismál heyri undir skrifstofu stjórnsýsluþróunar.

Með breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands síðastliðið vor veitti Alþingi ráðuneytum heimild til að setja á laggirnar sérstakar starfseiningar innan ráðuneytanna – svokallaðar ráðuneytisstofnanir. Með fyrirhuguðum skipulagsbreytingum í forsætisráðuneytinu verður ráðuneytisstofnuninni komið á og hefur stofnunin fengið heitið Húsameistari ríkisins. Hún mun annast fasteignir Stjórnarráðsins, forsætisráðuneytis og embættis forseta Íslands s.s. viðhaldi og útboðum og móta tillögur að hagræðingu í rekstri fasteigna og annarra verkefna stjórnarráðsins, m.a. með hliðsjón af tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Stofnun Húsameistara ríkisins mun hafa umsjón með öryggismálum í byggingum Stjórnarráðsins, bera ábyrgð á vaktþjónustu o.fl. Hún mun vinna náið með skrifstofu þjóðmenningar í málefnum er varða vernd mannvirkja og menningartengdrar byggðar og þjóðgarða og þjóðlendna.

Settur Húsameistari ríkisins er Stefán Thors, fyrrverandi ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum