Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. október 2015 Forsætisráðuneytið

Kyn og fræði: Ný þekking verður til

Jafnréttissjóður - mynd

Jafnréttissjóður býður til málþings þar sem styrkjum ársins 2015 verður úthlutað. Kynntar verða niðurstöður rannsókna sem hlutu styrki 2014. Málþingið verður haldið á Kvennafrídeginum, degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október 2015 kl. 11-13 í Iðnó.

Dagskrá

  1. Ávarp forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
  2. Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi í kynjafræði og stundakennari við Háskóla Íslands: Mótsagnir kvenleikans: Kyngervi og þegnréttur á Íslandi
  3. Dr. Marta Einarsdóttir sérfræðingur Hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri: Íslenska ofurfjölskyldan – eins og hamstur á hjóli.
  4. Dr. Guðný Björk Eydal prófessor á félagsvísindasviði Háskóla Íslands: Hvernig haga pólskir og íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna
  5. Arndís Bergsdóttir doktorsnemi í safnafræði: Í höftum fjarveru – um hlut kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna
  6. Hildur Jónsdóttir varaformaður Jafnréttissjóðs kynnir styrkveitingar Jafnréttissjóðs 2015.
  7. Afhending sex styrkja.

Boðið verður upp á léttan hádegisverð. Enginn aðgangseyrir – allir velkomnir.

Um Jafnréttissjóð

Á árinu 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að minnast 30 ára afmælis Kvennafrídagsins með því að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, til eflingar rannsókna um stöðu kvenna og karla. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu gerðar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hefur verið lögð áhersla á rannsóknir á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, á áhrifum gildandi löggjafar á sviði jafnréttismála og á síðari árum í vaxandi mæli á samspili kyns og annarra mismununarþátta. Sérstaklega hefur verið horft til þátttöku ungra vísindamanna í rannsóknarverkefnum.

Sjóðurinn starfar skv. reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006. Hann er vistaður í forsætisráðuneyti og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem nú er Anna Kolbrún Árnadóttir menntunarfræðingur. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Jóna Pálsdóttir tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra og Ingi Valur Jóhannsson tilnefndur af félags- og húsnæðismálaráðherra. Starfsmaður og varaformaður sjóðsins er Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneyti.

Í ár er síðasta úthlutun úr sjóðnum í þeirri mynd sem hann hefur verið starfræktur, en gert er ráð fyrir að á næsta ári taki Jafnréttissjóður Íslands við hlutverki hans. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árunum 2009-2011. Rannsóknir sem styrktar hafa verið frá stofnun sjóðsins eru 36 talsins og styrkir Jafnréttissjóðs hafa samtals numið 70,5 mkr. Kynningarefni um rannsóknir sem styrktar hafa verið er að finna á vef forsætisráðuneytis www.for.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum